Hvaðan koma fötin þín?

 Frá Asíu. 

Frá Kína, Indlandi eða Bangladesh. Hugsanlega frá Austur Evrópu. Þetta er vel staðfest í vitund almennings en það sem verra er að fataframleiðsla fer víðast hvar fram undir ömurlegum aðstæðum. Starfsfólki er boðið upp á heilsuspillandi vinnuaðstæður í framleiðslu á efnum og meðhöndlun þeirra og fólki sem vinnur við saumaskap er haldið í einhverskonar nútíma þrælahaldi. 


Fataframleiðsa hefur undir þessum kringumstæðum aukist gríðarlega að magni og varningurinn er seldur hræódýrt  í verslunum í vesturheimi. “Evrópsk” fyrirtæki eins og Zara og H&M framleiða ekki neitt, heldur kaupa varning af undirverktökum og fría sig þannig ábyrgð. Þegar við kaupum fötin okkar hér á Íslandi fer sáralítið til framleiðanda fatanna og enn minna til þeirra sem raunverulega búa þau til. 

Til að bæta gráu ofan á svart hefur fataframleiðsla gríðarlega slæm áhrif á umhverfið. Þruftarfrek á vatn og jarðnæði og ýmis kemísk efni og sjálfbærni eitthvað sem er óralangt frá framleiðsluháttum. Svo er sóunin ekki minna vandamál en fötum er hent í jafn miklu mæli og þau eru framleidd. 

Ódýr gerviefni flæða um allt eins og pólýester sem er plastefni sem hentar sérlega illa til endurvinnslu en er eins og annað plast gert úr olíu. 

Ég verð að trúa því að einhversstaðar í heiminum séu fataframleiðendur í alvöru að reyna að vinna vistvænni aðferðir til framleiðslunnar en því miður virðist besta framlag margra stærstu fyrirtækjanna aðallega felast í því að reyna að slá ryki í augu kaupenda; Greenwashing. 


Þetta vitum við og ég hef margoft átt í samræðum við fólk um þetta og varnarleysi okkar neytenda er átakanlegt. Við viljum hafa aðra kosti sem ekki eru í boði. Ekki getum við öll gengið eingöngu í lopapeysu sem mamma prjónaði? Ég vil taka það fram að eitthvað er um að föt séu saumuð á Íslandi eins og Volcano frá Systrum og mökum. Ég er nokkuð viss um að þar er enginn nýðingsháttur hafður við en það er því miður þannig að hann virðist vera viðloðandi saumaskap hvar sem hann er í heiminum. Til erum dæmi um saumastofur í Evrópu og í Bandaríkjunum en heyrst hefur að þar sé sama þrælahaldsmottóið viðhaft. Það hefur þó ekki eitthvað með það að gera að störf við saumaskap eru oftast innt af hendi af ómenntuðum konum? 


Það þarf einhvernvegin að hugsa þetta allt upp á nýtt! Og við horfum með vonaraugum til endurnýtingar. Á Íslandi hafa sprottið upp hringrásarverslanir á síðustu árum.  Það þykir töff að föt séu vintage sem er svo ofboðslega flott orð að mig langar að það bjargi heiminum. 

Vintage berst við orð eins og Temu og Shien sem eru verslanir á netinu þar sem hægt að að kaupa föt beint frá Kína fyrir smáaura. Ekkert óeðlilegt að fyrirtæki í Kína reyni að losa sig við vestrænu milliliðina sem hingað til hafa hirt allan ágóðann. Ekkert óeðlilegt í þessum hildarleik sem er að búa til billjónamæringa á kostnað jarðarinnar og lítilmagnans.


Þá er vert að skoða þá framleiðendur sem falla ekki undir hraðtísku. Hvað með dýru fínu merkin? Má ekki gera ráð fyrir að dýr flík sé af meiri gæðum og framleidd undir viðunandi kringumstæðum? Núna virðist vera tik-tok bylgja af frá Kína þar sem framleiðendur sýna vörur sem kaupendum er talin trú um að framleiddar séu í Frakklandi og á Ítalíu og vörurnar seldar sem sjaldgæfur lúxus. Árið 2007 kom út bók eftir blaðamanninn Dönu Thomas, Deluxe - How Luxury Lost it´s Luster þar sem hún sviptir hulunni af því hvernig lúxusvarningurinn er framleiddur á svipaðan hátt og ódýrara dót en seldur fyrir fúlgur fjár. Hvernig lúxusfyrirtækin hlaða á fræga fólkið ókeypis dóti í þeirri von um að dýrðarljómi stjarnanna veiti birtu á lúxusvarninginn og fái fólk til að eyða peningunum sínum í. Varningurinn er í sjálfu sér ekkert frábrugðin öðru dóti frá Kína en fólk er tilbúið til að selja úr sér nýra til að komast yfir hugmyndina um merkið. Lógóin veita fólki sem kaupir þau sjálfstraust og elur í þeim sem horfa öfund. Varningurinn er tákn um stöðu og fyrst og fremst bolmagnið og viljann til að eyða peningum. Árið 2019 var Arnault, eigandi LVMH samsteypunnar sem á meðal annars Louis Vuitton og Dior, annar ríkasti maðurinn í heiminum. Það er óhætt að segja að peningar kaupenda séu ekki að fara til sérhæfðra vellaunaðra handverksmanna heldur í vasa eigendanna. 


Okkur er gert mjög erfitt fyrir að finna hvernig við getum keypt föt án samviskubits. Ég kalla eftir aðgerðum frá stjórnvöldum sem verja neytendur. Það þýðir að þau þurfa að skera niður gróða einhverra einkaaðila sem verður ekki vinsælt hjá öllum. Neytendur og náttúran munu aftur á móti græða. Ég hvet okkur öll sem klæðumst fötum til að hugsa upp nýjar hugmyndir um hvernig við getum klætt okkur fallega og heillavænlega!  


Meira:

Eða viltu vera púkó?

Hver ræður hverju þú klæðist?

Ummæli

Vinsælar færslur