Hver ræður hverju þú klæðist?
Ert það þú? Við hér á þessu skeri sem tölum íslensku eigum örugglega auðvelt með að svara því játandi. Þó er ýmislegt sem kemur upp úr krafsinu þegar betur er að gáð. Venjur og hefðir segja yfirleitt meira um það hvernig fólk klæðir sig en smekkur einstaklinga. Eða þá að smekkur einstaklinga er mótaður af hefðum og venjum á hverjum tíma. Einsleitni í klæðavali er mikilvægur hluti af menningu og fólk kýs yfirleitt að klæða sig í takti við þær ósýnilegu reglur sem hvert samfélag setur.
Þó að þessar reglur séu ekki í lögum þá eru þeim oft framfylgt af miklu offorsi með félagslegum þrýstingi, háði og smánun svo fólk velur yfirleitt að fylgja. Það verður sérstaklega erfitt fyrir fólk sem fellur ekki undir þann hatt að vera sis og gagnkynhneigt að vera þröngvað inn í fyrirframgefinn “viðeigandi” kynjaramma.
Það að klæða sig er bæði persónulegt og pólitískt á sama tíma. Það er ótrúlegt hvað frelsi kvenna til að klæða sig er og hefur verið fótum troðið. Verðmæti kvenna í samfélögum er kannski það sem gerir það að verkum að samfélög vilja komast yfir vald yfir líkömum þeirra og þá er öllum brögðum beitt. Sú umræða á ekki heima hér en það er vert að nefna það að heljarinnar valdníðsla á sér stað með vísun trú, hefð, fegurð og pólitískt velsæmi um klæðnað kvenna um allan heim. Þar er hægt að sjá, um hábjartan dag, allt það menningarbundna kvenhatur sem ekkert samfélag vill viðurkenna.
Bók Charlie Porter um hóp fólks á Englandi snemma á tuttugustu öld sem kom saman undir nafninu Bloomsbury, hefst á tilvísun í bréf Virginíu Woolf til T.S. Eliot þar sem heimboði fylgja þessi orð: “Please Bring no clothes: we live in a State of the greatest simplicity”.
Woolf er að vísa í hefðbundin klæðnað sem tilheyrði Viktoríutímabilinu á Englandi. Samkvæmt hefðinni fylgdi yfirstéttin þröngu skipulagi um fataskipti yfir daginn eftir kúnstarinnar reglum sem náði hámarki í alvarlegum kvöldklæðnaði. Í gegnum aldirnar var konum gert að klæðast takmarkandi, hamlandi klæðnaði. Krínólin og korsett héldu konum í stöðugri andnauð og óþægindum og héldu heljartaki feðraveldisins á lífi þeirra.
Árið 2013 voru frönsk lög felld úr gildi sem bönnuðu konum að ganga í buxum. Lögin voru sett í frönsku byltingunni til að koma í veg fyrir að konur gengu til liðs við Sans-culottes hreyfinguna svokölluðu. Culottes voru hnébuxur sem aðallinn og vaxandi borgarastéttin gengu í en andspyrnuhreyfingin sem barðist fyrir félagslegu og fjárhagslegu jafnrétti ásamt almennu lýðræði gekk í síðbuxum til aðgreiningar. Ekki voru þó sett lög sem bönnuðu körlum að ganga í buxum af sama tilefni. Hér má sjá mynd af Fridu Khalo sem átti eftir að vera þekkt fyrir annarskonar klæðnað en ögrar þarna hefðinni í jakkafötum ásamt vesti. Mér fannst ég ekki vera að ögra neinni hefð þegar ég klæddist svartri buxnadragt bæði á fermingardaginn og í stúdentsveislunni minni. Bara fara smá óhefðbundna leið.
Ekki er þetta eina tilfellið í sögunni þar sem konum hefur verið bannað með lögum að ganga í buxum. Þá er átakanlegt að sjá hvernig farið er með réttindi kvenna í Afganistan þessi misserin. Þeim er ekki bara bannað að sjást á almannafæri heldur hefur þeim verið bannað að tala saman. Eins og ég sagði áður er hægt að skoða kvenhatur á ýmsa vegu aðeins með því að sjá hvernig konum er gert að hafa sig til. Í Kína var það til siðs að brjóta fætur smábarna sem höfðu píku og reyra saman þar til mynduðust einhverskonar stubbar sem pössuðu í skófatnað sem tilheyrði kvenkyninu. Í nútíma vestrænu samfélagi er litið á það með velþóknun og aðdáun að konur svelti sig til þess að vera álitnar “fallegar”. Og hinum sem voga sér að næra sig er mætt með hundsun, niðurlægingu og stundum fyrirlitningu.
Það er sveltisofbeldið sem kemur í veg fyrir áhuga minn á tísku. Ég á svo svakalega erfitt með að horfa upp á þessa vannærðu líkama staulast um á kvalarfullum skófatnaði í nafni hátísku, fegurðar og glamúrs. Mér finnst nefnilega mjög gaman að horfa á hvernig fólk klæðir sig og hef gaman að því að klæða sjálfa mig. En vegna þess að ég lafi ekki undir hungurmörkum þá finnst mér ég eiginlega vera óboðin í vangaveltur um tísku. Ég ætla samt að gera mitt besta hér og set risastóra fyrirvara um að ég veit allsendis lítið um málið.
Ég er endalaust að velta fyrir mér hvort fólk fylgi tískunni vegna þess það verður fyrir fagurfræðilegum áhrifum frá henni eða vegna þess að tískan stjórnar því sem er í boði í verslunum. Það er gersamlega óþolandi hvað framboðið af fatnaði í verslunum á Íslandi er einsleitt. Ég er auðvitað aðallega að tala um hraðtískuna sem er í boði í verslunarmiðstöðvunum. Ef þú labbar inn í Smáralind í leit að fatnaði er nánast einungis hraðtíska í boði fyrir utan verslunina með notuð föt. Núna er til að mynda ætlast til þess að kvenþjóðin eins og hún leggur sig hafi smekk fyrir stuttum bolum og skyrtum, gallabuxur ná upp í mitti og ungu stelpurnar eru allar í gráum íþróttabuxum. Ég prisa mig auðvitað sæla með að spara bara peningana mína þangað til að tískan tekur annan hring en stundum þykir mér leiðinlegt að sjá hvernig falleg skyrta er eyðilögð með því að láta hana ná bara rétt niður fyrir nafla. Ég hef það sterklega á tilfinningunni að tíska sé fyrst og fremst framboð og að eftirspurnin sem búin til með áhrifavöldum og auglýsingum. Að tískuheimurinn sé fyrst og fremst að eltast við skottið á sér og að nýmæli og sköpun þjóni peningaplokkinu einu saman.
Einhversstaðar lúrir sú hugmynd að tískan sé drifin áfram af einstökum snillingum sem vinna fyrir stóru tískuhúsin til að móta framgang mannkynsins í nýjum flíkum sem ljá nútímanum glamúrkennda merkingu. Fatahönnuðir eru goðsagnakenndar persónur sem kokka upp glundroðakenndar tískusýningar með flíkum sem margar hverjar virðast eiga lítið erindi við mannslíkamann en sáldra yfir elítuna fantasíum og dáleiðandi löngunum og þrám um að komast með tærnar í lúxusinn. Lúxusinn sem er svo þröngur að kinnfiskasognar fyrirsæturnar eiga einar séns á að komast þangað með hælana.
Þarna þornar verulega um vitneskju mína um hátísku. Ég veit að Karl Lagerfeld bar persónulega mikla ábyrgð á svelti ákveðinna fyrirsæta. Tom Ford talar eins og skilgetið afkvæmi klámvæðingarinnar þar sem tíska snýst um ekkert nema peninga og að klæða konur til að vekja kynæsing.
Wivienne Westwood var aftur á móti ferlega töff. Hún spratt upp í pönkinu og notaði krafta sína og frama til að vekja athygli á náttúruvá og talaði gegn ofneyslu í tískuheiminum. Ég er ekki viss um ég myndi samt ganga í fötum frá henni. Ég er ekki svona kúl og kjólarnir hennar eru margir hverjir með of skýrar sögulegar vísanir í viktoríutímabilið. Ég fila hins vegar allt þetta köflótta sem er svo breskt.
Föt ítalska fatahönnuðarins Alessandro Michele eru eins og töluð úr mínu hjarta. Rómantísk, litfögur, glitrandi og skemmtileg. Fjaðrir og kögur, blóm og munstur. Hann var líkt og Tom Ford hönnuður Gucci á tímabili og er það lang flottasta tímabil Gucci. Eftirlætið mitt er vor og haust 2016.
Þegar hann tók til starfa jókst salan um 400% en hann var svo rekinn eftir Covid tímabilið þegar salan dróst saman um 20%. Algert glapræði hjá Gucci og nú hannar Michele fyrir Valentino."I like the wrong choices” það er Leyndarmál tískunnar - segir Michele á sófanum hjá Bellu Freud. Hann talar svo fallega um móður sína og föður og hefur skemmtilegt hugarfar til tískunnar og þeirra sem hana umgangast. Hann segist hafa hugsað um gríska guðinn Eros án tengingar við kynlíf og talar um hégóma sem drifkraft en ekki löst.
Því miður varð ég fyrir mjög miklum vonbrigðum með það nýjasta frá Michele sem er haust 2025 fyrir Valentino. Kannski er það vegna þess að fötin eru heldur efnisminni en áður og ég get bara ekki horft upp á fyrirsæturnar sem eru hver annarri horaðari. Þvílíkar hryggðarmyndir! Þvílík ömurð!
Myndin hér fyrir ofan er frá vori 2025 sem er mér meira að skapi. Fallegir dreymandi bleikir og kampavínslitaðir tónar alsettir glampandi pallíettum. Ég vildi glöð leyfa Michele að ráða hverju ég klæðist. Sérstaklega dreymir mig um þessa grænu dásemd. Já takk, já takk.
Meira:
Ummæli