Áttu hatt? Óður til Bill Cunningham

 Ég hef ekki komist yfir almennilegar skýringar á því hvers vegna fólk hætti að ganga með hatt. Hattar báru með sér tákn um stöðu og hlutverk og voru staðlaður hluti af klæðnaði á opinberum vettvangi. Það er fullkomlega gleymt hvert við langafi, langamma og amma vorum að fara, eða vorum við að koma þegar myndin er tekin? Líklega hefur afi tekið myndina. Mér þykir vænt um að sjá að amma heldur utan um mig. Þær langamma eru báðar í pels svo líklega hefur þetta verð tillidagur. Amma er yngri og ber engan hatt. Langamma er með loðhatt og langafi með þennan fallega ullarhatt. Vangasvipur hans er hálfbrosandi eins og ég man að hann hafi yfirleitt verið. Mér þykir vænt um þessa mynd en ég er sú eina sem er enn á lífi. Uppáhalds liturinn minn er rauður. 


Annar klæðnaður sem táknar vald er vel við líði í dag og það eru jakkaföt (e. tailoring). Þau eru fatnaður sem karlar klæðast á flestum stöðum í heiminum. Veita körlum formlegan virðuleika og þjappa saman í eina heild. Heild sem hefur verk að vinna. Heild sem beitir valdi. 

Í kvöld var í fréttum að Trump og ssamtarfsmenn hans hafi gefið Celenzki úkraínuforseta formlegar leiðbeiningar fyrir fund þeirra þar sem hann hafi ekki mætt í jakkafötum á fyrri fund og það nánast eitt og sér hleypti fundinum í uppnám. 

Buxnadragt er útgáfa af jakkafötum fyrir konur en þær hafa klæðst flíkum sem rekja ættir sínar til jakkafata af augljósum ástæðum. Til að sækja tákn um vald, áræðni og hæfni en líka til að komast hjá því að klæðast flíkum sem tákna kvenleika. Í orðræðunni um þessi klæði er alltaf einhver svona smá ásökum um að yfirgefa kvenlega skyldu um fegurð og háð á valdabrölt. Angela Merkel sem var áralangt kanslari Þýskalands valdi að klæðast litfögrum pylsdrögtum sem mér fannst vel til fundið en hún fékk ýmist bágt fyrir að vera ekki nógu kvenleg í jakka eða of kvenleg í öðrum litum en dökkum. Powerdragt eru klæði af þessu tagi kölluð. Ekki þarf að setja neitt valdsorð fyrir framan jakkaföt. Valdið felst í flíkunum sjálfum og orðinu sem þeim fylgja. 

Listakonurnar Georgia O´Keefe og Laurie Anderson tóku báðar ákvörðum um að ganga í jakkafötum áður en powerdragtin varð að valkosti fyrir konur. O´Keefe barðist fyrir jafnrétti og Anderson sótti í frelsið og áhyggjuleysið sem jakkafataklæddum körlum býðst. 


Og þá langar mig að skrifa smá um hattarann káta, Bill Cunningham. Ég held það hafi verið í kring um árið 2008 sem ég komst fyrst í kynni við YouTube. Það fyrsta sem ég horfði á voru stutt video frá New York Times þar sem Cunningham fór yfir vikuna í myndum af fólki á götum New York borgar. Þegar ég heyri upphafsstefið finn ég tilfinninguna að sitja í eldhúsinu á Strandvegi með gömlu tölvuna mína á eldhúsborðinu. Finn fyrir þeirri manneskju sem ég var. Það var auðvelt að smitast af áfergjunni í rödd Cunningham, hann heyrðist brosa og notaði orð eins og marvelous og wonderful.   



Bill Cunningham (1929-2016) var vel þekktur í tískulífinu í New York. Hann myndaði og skrifaði um götutísku í New York Times og fleiri tímarit en hann hóf feril sinn í hattagerð. Hann var afar sérlundaður og hafði alla tíð brennandi áhuga á tísku sem þótti ekki endilega viðeigandi fyrir kaþólskan ungan mann. En tískublaðamennska var ekki hans fyrsta val heldur var hann sköpunarglaður hattagerðarmaður þangað til hattar fóru úr tísku. Eina markmið hans með hattagerðinni var færa heiminum hamingju en konurnar í New York klæddust aftur á móti til að ganga í augun á hver annarri og til að klífa félagslega metorðastigann (e. Social climbing). 



Eftir að hann lagði hattagerðina á hilluna hafði hann í sig og á með því að gera það sem honum þótti skemmtilegast— að horfa á fólk. Hann lagði mikið upp úr sjálfstæði sínu og talaði um að eina leiðin til að halda frelsinu væri að taka ekki við peningum frá neinum. Það þýddi að hann bjó þröngt og lifði lífinu við lítil veraldleg gæði. Hann bjó í listamannahúsinu Carnegie í örlitlu herbergi án eldhúss og baðherbergið var frammi á gangi. Hann fór um allt á hjóli og klæddist bláum vinnujakka sem hann hafði séð sóparana í París klæðast. Vopnaður myndavél myndaði hann fínustu konur New York borgar. Hann hafði engan áhuga á framapoti, snobbi og stjörnufansi. Hann sagðist engan áhuga hafa á fræga fólkinu sem gekk í fötum sem því var gefið af tískuhúsunum heldur vildi hann sjá hvernig fólk sem keypti fötin sín sjálft fyrir sína eigin peninga klæddi sig. Þar mátti sjá raunverulegan stíl og smekk. 



Hér er heimildamynd um Cunningham og hér og hér og hér og hér og hér má sjá innslag frá New York Times. Ég heillaðist algerlega af kátínunni sem einkennir viðhorf Cunningham til lífsins og tískunnar. Hann var gæddur þeim sjaldgæfa hæfileika að geta horft í gegnum glysið, glingrið og glópagullið. Séð í gegnum snobbið og stjörnustælana og fangað einungis það sem honum þótti skemmtilegt og fallegt. 

Vikuna byrjaði hann á því að kaupa blóm því það var það sem honum fannst skemmtilegast. Hann trúði því að vikan ætti að byrja á því sem veitti hamingju. Ég stend oft fyrir framan fataskápinn og hugsa um hvernig væri skemmtilegast að klæða sig út í daginn.  


Meira:

Eða viltu vera púkó?

Hver ræður hverju þú klæðist?

Hvaðan koma fötin þín?

Ummæli

Vinsælar færslur