Rosalía - Lux

Lux er fjórða plata hinnar spænsku Rosalíu Vila Tobella. Ég man ekki hvar ég heyrði fyrst af plötunni en lag spilað á Rás 1 vakti áhuga minn. Ég er yfirleitt mjög róleg yfir einhverju sem fólk er að missa sig yfir. Vinsældir eru lægsti sameiginlegi samnefnari og höfða oft á tíðum ekkert til mín. Það var spænskan og þjóðlegi tónninn sem vakti áhuga minn. En það voru hljómsveitarútsetningarnar og samsuðan sem virkilega kveiktu í mér. Ég hlustaði fyrst á plötuna í gegn og það fór ekkert í taugarnar á mér þó ég skildi lítið hvað var sagt þar sem hljóðheimurinn er svo áhugaverður. En það var fyrst þegar ég fletti upp þýðingu á textunum sem ég áttaði mig á að hér er eitthvað sérstakt á ferð. 
Á plötuumslaginu situr Rosalía á bláum grunni. Hún er vafin í hvít klæði þar sem við sjáum hana grípa um axlir sínar og mitti. Hún umverfur sig, lítur undan með lokuð augu og eins og hún sé í eigin hugarheimi. Hún er með hvíta skuplu á höfðinu. 



Fyrsta lagið heitir Sexo, Violencia y Llantas. Tónninn er strax sleginn með píanóinngangi þannig að við vitum að þetta er ekki venjulegt popp. Hljómar eins og resitatíf þar sem umfjöllunarefnið er sett fram: „First I will love the world and then I will love God“. Jörðin og himnaríki. Jörðin með sex, violence and tires; blóðíþróttir og peningar upp í kok. Himnaríki með sparks, doves and saint, náð, ávextir og jafnvægi. Hver gæti lifað milli þessa tveggja? 
Strengjasveitin sett í forgrunn í laginu Reliquia, að mínu mati mjög skemmtilegur samruni klassískrar notkunar á strengjasveit við popplaglínu. Textinn er innblásinn af dýrlingnum Roslíu af Lima. Hún er búin að alast upp á jörðinni og býðst til að vera okkar minjar. 
 Divinize er um Evu og eplið forboðna. Sá draugur er enn á lífi, hún er enn á lífi, hún er meira lifandi en áður. „I know I was made to divinize“. Boðar nýja tilvist Evu. Ekki munu allir skilja það strax. Þau halda að þetta séu endalokin en þetta er bara byrjunin. Í gegnum líkama hennar má sjá ljósið. „outside me, inside me“ alls staðar má nálgast ljósið frá Evu.
 Porcelana er innblásið af dýrlingnum Ryonen Genso frá Kyoto. Sungið á spænsku, latínu og japönsku. Húðin er viðkvæm og brotin og frá henni ljómar ljós eða lýsir upp guðlega eyðileggingu. Hún boðar sársauka og ringulreið. Það hangir yfir ógn. I am nothing I am the light of the world. I know your´e scared scared scared... I know you fear fear fear fear... 
 Þetta er eitt flottasta lagið á plötunni, sérstaklega er hljómsveitarútsetningin flott. Laglínan er skrefakennd eins og oft á plötunni og samanstendur meðal annars af niðurskrefum frá fimmund og tvíundum fram og til baka. Bassaklarínett kaflinn er flottur í samspili við strengina og notkunin á pákunum sömuleiðis. Millikaflinn frá mínútu 2:57 er geggjaður og svo verður samsuða þar sem inn kemur himneskur kórsöngur og yfir flýtur flamengókennt klappslagverk. 


 Mio Cristo Piange Diamanti samdi Rosalía að eigin sögn eins og ítalska aríu og hún syngur á ítölsku um tár krists. Mjög fallega sungið þar sem heyra má óperu og popplegri laglínur fléttast saman. Söngurinn er framarlega og fjallar innilega um krist og hvirfilbyl, sársauka og jarðskjálfta. Það er stjórnleysi og kaos og kristur grætur demöntum. Hve mjörg kjaftshögg hefur þú fengið þegar þú hefðir átt að fá faðmlög? Hve mörg faðmlög hefurðu veitt sem hefðu átt að vera kjaftshögg? Hljómsveitarparturinn túlkar þar sem högg er hoggin taktfast en faðmlög eru mjúkir hlaupandi fiðlutónar. 
 Berghain er ekki bara skemmtistaður í Berlín heldur þýðir þyrping af trjám, skógur til að týna hugsunum sínum í. Þetta lag er líklega það þekktasta á pötunni allavega á Íslandi þar sem Björk syngur ásamt Rosalíu. Lagið hefst á kröftugum hljómsveitarkafla þar sem hoppað er langt aftur í tónlistarsöguna og inn kemur kórkafli sem gæti táknað almenning þar sem þau deila reiði, ást og blóði. Það er allt komið í óefni og lagið er guðleg íhlutun. „This is divine intervention!“ það sem Björk syngur fyrir okkur er að það eina sem mun bjarga okkur er guðleg íhlutun. Að lokum kemur inn vélunnin rödd sem eignuð er Yves Tumor: I´ll fuck you till you love me. Till you love me, love me. Gæti þetta ekki verið rödd Guðs, hans guðlega íhlutun? 


 Eftir dramatíska íhlutunina er skipti yfir í La Perla. Glaðlegt lag í þrískiptum takti sem auðvelt er að dilla sér við. Sungið er á spænsku og í eyrum sem ekki skilja spænsku er lagið létt og skemmtilegt. Hvíld frá dramatíkinni. En textinn fjallar um perluna sem er tilfinningalegur hryðjuverkamaður. Drullusokk sem svíkur og veldur vonbrigðum. Skemmtileg kaldhæðni. 
 Eftir þessa hvíld tekur alvaran aftur við. Hornakall í straussískum stórverkastíl er Mundo Nuevo ákall um nýja tíma. Laglína í flamengóstíl óskar þess að komast í nýjan heim. Að finna líf í heimi með meiri sannleika. 
Eftir ákallið æsast leikar þar sem kominn er ný dögun. De Madrugá er innblásið af dýrlingnum Orlu frá Kiev og er textinn að hluta til á úkraínsku. Það er ekkert, engin vopn sem geta fræt þér þau sem horfin eru. Ég hef rétt á hefnd. Á úkraínsku: ég leita ekki hefndar, hefndin leitar að mér. Ég leita ekki hefndar. I carry a thousand tounges of fire 
 Við tekur hefðbundið popplag Dios es un stalker. Popplag með mínímalískum hugmyndum í laglínunni. Það heyrist hvað Rosalía er hrifin af laglínum sem renna niður tónstiga en viðlagið er með mýmörgum fimmundarstökkum sem brjóta laglínuna upp. Myndin í textanum er nokkuð skondin þar sem guð talar og eltir hljóður eins og skuggi og veit allt. „I´m not a fan of doing divine intervention“ segir hann eins og hann sé þreyttur á trúleysi heimsins. 
 La Yugular þýðir hálsæð og er innblásið af fyrsta kven sufidýrlingi í Íslam Robia Al-Adawiyya. Í Kóraninum er Allah sagður vera nær manneskju en hálsæð hennar, æðin sem heldur í henni lífi. Hin kaþólska Rosalía syngur sinn óð til Íslam, hún segist tengja vel við hugmyndir Íslam um allt sem eitt og það sama. „I fit in the world and the world fits in me“ - Sagði hún í viðtali við Zane Lowe. Í laginu syngur hún á arabísku: „Fyrir þig myndi ég eyðileggja skýin. Fyrir þig myndi ég rífa niður helvíti. Engin loforð Engar ógnir. Robia Al-Adawiyya er sögð hafa elskað Allah skilyrðislaust, ekki vegna ógnar eða vegna einhvers sem hún gæti öðlast við að fylgja honum. Í laginu er mjög flottur kafli þar sem hugmyndin um hvernig allt fellur saman. Hvernig allt er það sama. Eftir kórkafla er söngurinn aðeins með undirspili páka og þó ég skilji ekki spænskuna þá heyri ég hvernig orðin eru endurtekin og mynda ris sem leysist svo upp. Í lokin heyrist rödd Patti Smith úr viðtali frá árinu 1976 þar sem Smith hvetur listamenn til að halda áfram eftir að hafa öðlast velgengni. Að komast í „seven heavens“ sé ekkert stórmál, alltaf megi komast hærra. 

 Sauvingnon Blanc er klassískt og ástarlegt popplag sem hefst rólega með píanóinnangi. Litla sexundin er viðkvæmnislega ástleytin og það er þrá í söngnum. Lagið er enn og aftur innblásið af dýrlingi. Teresa af Ávila, Guð og hvítvín losa hana undan löngunum og þrám. Hún þarf ekkert nema Guð og hvítvín. La Rumba Del Perdón er fyrirgefningar rúmba. Á þjóðlegri nótum en undirbyggt af hljómsveit og guðlegum kórsöng. Mennkan er fallvölt og fyrirgefningin nauðsynleg. Hugsanlega eru einhver þessara orða ætluð perlunni. Skemmtilegur sambræðingur af söng, kórsöng og glamrandi gítarspili og flamengó. 
 Memóría syngur og semur Rosalía ásamt Carminho. Lagið er á portúgölsku í fado stíl. Enn er þó sótt í allar áttir og sérstaklega minnti kórkafli á mínútu 1 mig á Charoline Shaw. Gaman að sjá að hún kom að plötunni ásamt mörgum. Hún er meðal annars skráð fyrir útsetningum sem mér finnast vera svo mikilvægar á plötunni. Það eru níu nöfn skráð fyrir útsetningum. London Spymphony Orchestra spilaði undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Textinn fjallar um innilegar vangaveltur um minni og hvernig minningar eru stundum tilbúningur. Minnið er ekki heitbundið sannleikanum. 
Lokalagið á plötunni, Magnolias er innblásið af indverska dýrlingnum Andamayi Ma. Innblásturinn leiðir að lokum til sviðsetningar á dauðanum. Það er eitthvað mjög leikhúslegt við þetta. Rosalía syngur til okkar eins og hún syngi í sinni eigin jarðarför, fólk grætur og hún verður að dufti og fer til stjarnanna. 


 Nafnið á plötunni er á latínu og þýðir ljós. Það hefur yfir sér trúarlegan blæ og varpar ljósi á plötuna í heild. Þrátt fyrir dýrlinga og heilmikið af himnaríki þá er tilfinningin sem stýrir ferðinni ekki að draga hlustandann inn í ákveðinn heim trúarinnar heldur eins og leit að einhverju æðra sem fundist hefur í öllum trúarbrögðum. Í allri trú. Einhverju sem liggur í öllum heimshlutum og er hægt að segja á öllum tungumálum. Nánast eins og þessi andlegi leiðangur liggi í anda allra manneskja. Hann leiðir okkur í gegnum ógnina sem býr í heiminum öllum og hræðir allar manneskjur. Ég reyni að fóta mig í gegnum brotakenndar myndirnar sem draga mig út úr raunveruleikanum. 

 Það kom mér á óvart að meginstraums tónlistarkona gefi út plötu sem hefur svo greinilega og afgerandi trúarlega skýrskotun. Ekki vegna þess að gær gætu ekki verið til heldur vegna þess að á bak við útgáfuna en risastórt batterí þar sem vandað er til verka í hverju rúmi. Þessi plata er ekki gerð í bílskúr og einni tölvu. Ef að baki býr ekki fullvissa um að trúarleg inntak tónlistinnar eigi upp á pallborð aðdáenda þá er allavega farið fram með boðskapinn og því treyst að hann finni sinn hlustendahóp. Hugsanlega er skýringin þekkingarleysi mitt á hlustendahópi Rosalíu og að þetta komi engum öðrum í opna skjöldu. 

 Lux er frámunalega áhugaverður samruni hinna ýmsu trúarbragða, tungumála og tónlistarstefna sem liggja saman í grípandi verki sem ætti að koma Rosalíu á kortið sem virkilega framsæknum tónlistarmanni.

Ummæli

Vinsælar færslur