Eða viltu vera púkó?

 Föt eru brynja fólks til að lifa af hversdaginn. Nakin erum við berskjölduð og það er líka bannað með lögum víðast hvar að vera nakin á almannafæri. Fötin sem manneskja klæðist gefur ótrúlega nákvæmar vísbendingar um hver manneskjan er, hvaða stöðu hún gegnir, hvað hún er gömul, af hvaða kyni hún er, hvaða tilfinningar hún ber í sjálfrar sín og hvernig henni líður. Fólk sem segist ekkert pæla í tísku og ekkert hugsa um hvernig það klæðir sig er auðvitað að ljúga. Það er ekki hægt að komast í gegnum einn einasta dag án þess að hugsa um föt. Og táknin sem klæðnaður veitir inn í huga samferðafólks eru svo ómeðvituð að það er hægt að skilja að fólk trúi því að það viti ekkert um föt. En það gerir það samt. 


“Ég fer bara í jakkafötum í vinnuna og í gallabuxum í partý, ég spái ekkert í þetta” — undir þessari staðhæfingu er innsæi og viska um að jakkafötin hvíla á áralangri hefð um valdsmannsleika og áræðni og gallabuxurnar tákna æsku og afslappelsi. Og öll getum við kallað fram minningar um að verða vitni að því þegar fólk klæðir sig ekki samkvæmt forskriftinni. Mörg okkar hafa þurft að ala upp börn sem ekki hafa þessar reglur á hreinu og vilja bara klæða sig eins og þeim sýnist með ógurlegum vandræðagangi. Litlar stelpur eru mjög krúttlegar heima hjá sér í Disney prinsessu Elsu búningi en sex ára gömul stelpa sem krefst þess að fara í Elsu búningi á leikskólaútskriftina sína er frekar vandræðaleg. 

“Fötin skapa manninn eða viltu vera púkó?” —spurðu Stuðmenn seint á síðustu öld í laginu um Sirkus Geira Smart. — og svöruðu “Nei ekki ég”!

Mismunandi föt fyrir mismunandi aðstæður. Að klæða af sér hita og klæða sig fyrir kulda. Föt sem verja líkamann við erfiðar vinnuaðstæður. Föt sem beinlínis tákna vald, eins og búningar Lögreglu, lækna, flugmanneskja, skipstjóra og hvað með jakkaföt?

Föt til að falla í hópinn. Föt til að standa út úr hópnum. Föt til að tjá stöðu, afstöðu, kynhneigð og trú. Ótal spurningar vakna upp í huga mér við þessar hugrenningar. Því langar mig að takast á við nokkrar spurningar varðandi klæðnað:

Hver ræður hverju þú klæðist?

Hvaðan koma fötin þín?

Hverju klæðist þú í vinnunni?

Áttu hatt? Óður til Bill Cunningham

Casual, klæðir þú þig frjálslega?

Hvað þarftu að eiga mikið af fötum?





Ummæli

Vinsælar færslur