In the Heights
Sagan sprettur úr veruleika Lin-Manuel og Quiara í innflytjendahverfinu Washington Heigths í New York. Draumar um betra líf og baráttan fyrir að tilheyra samfélagi ásamt ástinni er þemað en tónlistin er fengin úr hverfinu sjálfu þar sem hipp-hopp, rapp og salsa renna saman í einn graut í eyrum íbúa. Fyrir mig sem er ekki innflytjandi og tilheyri þeim stóra hópi að vera hvít og vísindatrúar og þeim aðeins minni hópi að vera tónlistarmaður og femínisti þá tengi ég sterklega við tónlistina og ferska leikaravalið. Leikstjóri myndarinnar er Jon M. Chu og það er ekkert leyndarmál að helsta ástæðan fyrir því að það tók 10 ár að fá myndina gerða er að Quiara og Lin vildu ekki velja þá fáu leikara sem voru þegar frægir og féllu að hlutverkunum heldur vildu velja „nýja“ ófrægari leikara. Það er augljóst að þetta fólk er ekki að segja sögur til að gera Hollywood til geðs því myndin fjallar ekki um gengjamenningu eða óvæntar þunganir, já sko ég las að það hefði staðið í framleiðendum að þetta hefði vantað til að fá þá til að gera mynd um innflytjendahverfi í New York.
Myndin er litrík, falleg og fersk. Dansatriðin eru í einu orði sagt stórkostleg. Dansararnir eru af öllum stærðum og gerðum sem ljáir þeim raunverulegt yfirbragð og gefur mér hlýju í hjartað. Myndin er full af ást- rómantískri ást, ást til fjölskyldunnar og vina og ást til heimkynna og heimsins yfir höfuð. Við sjáum átökin sem innri baráttu persónanna við lífið án þess að mikið sé gert úr hindrunum sem eiginlegum óvini eins og sagan gæti svo auðveldlega gert. En myndin fjallar ekki um þá baráttu heldur líf persónanna og samskipti þeirra á milli.
Dansatriðin standa vissulega uppúr og þar er farið vel með frelsið sem fæst með kvikmyndaforminu fram yfir leikhúsið. Sundlaugaatriðið ætti að hrista upp hverjum einasta sólþyrsta Íslendingi og dans Benny (Corey Hawkins) og Ninu (Leslie Grace) utan á húsinu við uppáhaldslagið mitt í myndinni (When the Sun Goes Down) snéri maga mínum bókstaflega á hvolf (ekki fyrir lofthrædd kannski). Og sko, The Club og Carnaval Del Barrio, úff, hvenær er næsta salsanámsskeið?
Annað atriði langar mig ferlega að sjá aftur (og kannski aftur og aftur) en það er matarboðið með rispuðu plötunni. Andrúmsloftið er útþanið af umhyggju og raunverulegt á sama tíma. Leikararnir eru framúrskarandi og leikstjórnin eitthvað sem ég hef ekki séð áður. Samskipti Usnavi og Vanessu (Melissa Barrera) í eldhúsinu eru svo laus við klisjur að ég trúi nánast ekki að þetta sé leikið. Flissið og tilgerðarlega daðrið er þannig að ég trúi því fullkomlega að ég sé að horfa á trutildúfur draga sig saman.
Með Lin-Manuel Miranda og Quiara Algeria Hudges finn ég tengingu við nútíma „popp“ menningu og það er ég óendanlega þakklát fyrir. Ég hrífst almennt ekki af rappi eða hipp-hoppi en það er svo gott að finna að ég geti í alvöru átt í sambandi við dægurmenningu. Nú vona ég bara að litríki heimurinn sem spreyjaður er í In the Heights nái til okkar allra í kalda íslenska sumrinu!
Ummæli