Hamilton


Ég hafði heyrt margar ræður um æðislegheit Hamilton en ég gerði ráð fyrir að þetta væri yfirborðskennt og þunnt og datt ekki í hug að tékka á einhverjum hipp hopp söngleik. Það var ekki fyrr en ég rakst á klippu úr In The Heights á Youtube sem ég ákvað að gefa þessu séns á Spotify. In The Heights er fyrsti söngleikurinn (bíómynd kemur út í sumar) sem Lin-Manuel Miranda skrifaði og endaði á Broadway með Tony verðlaun í pokahorninu. 

Ég man eftir mér flissandi yfir sjálfri mér að vera að hlusta á Ten Duel Commandments og ég þarf enn að hlægja smá kjánlega í byrjuninni en ég fór að hlusta á söguna og leyfði þessu að rúlla bæði heima og í bílnum og í stuttu máli varð ég gersamlega föst í tónlistinni og sögunni. Söngleikurinn er unnin upp úr ævisögu Hamilton og fjallar að miklu leiti um stofnun Bandaríkjanna og gerð stjórnarskrárinnar. Kvenpersónurnar fá líklega meira vægi í meðferð Lin-Manuel en í venjulegri sögubók en í megin dráttum er þetta saga um karla skrifuð af karli fyrir karla eins og sagan er svo gjarnan. 


En tónlistin er frábær. Því miður er Lin-Manuel Miranda ekki mjög góður söngvari en hann skrifar þetta fyrir sjálfan sig og lék Hamilton í upphaflegu leikaragrúpunni upptökunni og myndinni. Hann er samt það góður að hann þorir að umvefja sig miklu betri söngvurum, og það er svo flott! 

Hann er með verri rödd en hún nánast verður það sem tengir allar hinar stórkostlegu raddirnar saman? Hann kann allavega sannarlega að semja tónlist og meira að segja rappið fellur vel að öllu saman. Ég þoli ekki rapp, enda er það sem ég hef heyrt til þessa tónleysa og öfugt við það sem margir hafa reynt að segja mér yfirleitt bara einhver klaufaleg þvæla. Það á ekki við um rappið í Hamilton. Ég er ekki viss en ég held það sé ekkert venjulegt tal í öllum söngleiknum heldur er öll sagan röppuð eða sungin og samtöl sömuleiðis. Því er hægt að hlusta á hljóðupptökuna og heyra alla söguna, það er ekkert sem vantar og er bara í leikritinu. Stundum minnir þetta mig á resitatíf í óperu. 

Tónlistin er ekki bara flott heldur líka frámunalega vel útsett (Alex Lacamoire) og flutt. Söngvararnir eru framúrskarandi og samblandan af hipp-hoppi og söngleikja-kór er ótrúlega fersk og grípandi. Ég verð að fá að nefna sérstaklega Christopher Jackson sem syngur mér til gæsahúðar aftur og aftur í hlutverki sínu sem George Washington. 


Það fór því svo að ég keypti aðgang að Disney+ til að sjá Hamilton The Movie sem er blessunarlega upptaka af leikritinu á Broadway með upprunalegu leikaragrúppunni. Ég veit ekki hvað ég búin að horfa oft á þetta þó ég horfi yfirleitt á ríflega helminginn (hætti ca. við Burn) bæði vegna þess hvað þetta er langt og ég nenni ekki sorginni og dramanu. Sýningin er ótrúlega flott þó umgjörðin sé frekar einföld. Kór/dansara hópurinn er mjög flottur og bætir við sýninguna án þess að þvælast fyrir sögunni. Ég vil nefna Ariana DeBose, Seth Stewart, Ephraim Sykes og Sasha Hutchings sem fanga sérstaklega athygli mína þegar ég horfi í 10+ skiptið. 

Það hefur vakið mikla athygli að aðeins einn leikari í aðalhlutverki er bleikur (hvítur) og er það auðvitað meðvituð ákvörðun sem mér þykir bæði snjöll og vel heppnuð. Þá er bara spurning um að taka þetta enn lengra og endurráða Jonathan Groff í hlutverk Angelicu Schuyler, en hann hefur sagt að það sé það hlutverk sem hann langi mest að leika.  

Fran Lebowitz (fúl á móti) tjáir sig um Hamilton-   


One Last Time (Christopher Jackson) er það sem mér dettur fyrst sem flottasta lagið ásamt eftirlætis persónunum mínum (Marquis de Lafayette og Thomas Jefferson) sem Daveed Diggs leikur. Það sem mér finnst samt vera fyrsti hápunkturinn er Yorktown þar sem útsetning strengjasveitarinnar er ferlega töff og svo endar það með kórsöng og sigri. Jæja, mig langar að telja upp alls konar annað en ætla að sleppa því, það væri auðveldara að telja upp það sem mér finnst ekkert spes.. sleppi því líka. Verð að segja að Dear Theodosia og What´d I Miss hafa líka verið uppáhaldslög, kannski koma ný og ný og ný. 

Aðal kvenpersónan er auðvitað eiginkona Hamiltons, Eliza Hamilton ásamt systur hennar Angelicu Schuyler sem við fyrstu sýn er svolítið furðuleg. Hún kynnir Hamilton fyrir systur sinni og miðað við tildragelsið milli hennar og Hamilton þá er það mjög skrítið að hún blandi systur í sambandið. Þetta kom mér spánskt fyrir sjónir en ég skildi þetta betur þegar ég komst að því að í raun var Angelica gift þegar hún kynntist Hamilton.  Þessu er einhverra hluta vegna breytt í söngleiknum þar sem Angelica giftist seinna. Með þessa nýju vitneskju í kollinum er persóna Angelicu mun skiljanlegri og Reneé Elise Goldsberry er hörkusöngkona og gerir hlutverkinu vel skil. Philipa Soo sem leikur Elizu Hamilton er að sama skapi stórgóð í hlutverki sem ber uppi svo mikla sorg. Hún fær ekki svo mikinn tíma en hefur stærsta hjartað og verður eftirminnileg. Systurnar eru þrjár en sú þriðja örlitið hlutverk. Það er skondið en kannski mikilvægt að minna sig á að Hamilton giftist Elizu líklega ekki vegna ástar eins og okkur er talin trú um heldur vegna þess að  henni fylgdi þung pyngja af aurum.

Ég hef ekki lesið ævisögu Hamilton og veit því ekki hvernig lokalag söngleiksins (Who Lives, Who Dies, Who Tells Your Story?) kom til en það tengir nútímann vel saman við söguna hvernig Eliza segir frá lífi sínu eftir dauða Hamiltons. Hún var greinilega merkileg kona sem hélt áfram að vinna að málefnum sem hún brann fyrir eftir dauða eiginmanns síns. 

Jasmine Cephas Jones sem leikur Peggy Schuyler (þriðju systurina) leikur líka Mariu Reynolds sem er í söngleiknum örlagavaldur í lífi Hamiltons. Katherine Ryan segir þetta betur en ég  


Þetta er sneið til Lin-Manuel Miranda sem segir söguna árið 2015. Á þessum þriðja áratug 21. aldarinnar er pláss fyrir enn nýrri söguskoðun. „Will they tell your story?“




Ummæli

Vinsælar færslur