Hreinsun Sofi Oksanen
Bók Sofi Oksanen kom út í íslenskri þýðingu Sigurðar Karlssonar núna fyrir jólin. Sögusviðið er Eistland á tuttugustu öldinni, þegar Eistland hvarf inn í Sovétríkin. Það er óneitanlega spennandi að lesa sögu af fólki á þessum tíma og stað sem er lokaður og svo skelfilega pólitískur að það lítur oft út fyrir að það hafi í raun ekki verið neitt fólk af holdi og blóði á bak við. En bók Oksanen er fyrst og fremst um fólk. Sagan er ekki sögð frá sjónarhorni söguritara sem vill fyrst og fremst fegra eða skerpa á dökkum línum Sovétræðisins heldur frá sjónarhorni tveggja kvenna. Hrikalegar aðstæður og örlög eru ekki ýfðar upp af tilfinningaklámi. Persónurnar eru ekki gerðar framandi með því að ögra lesandanum svo mikið að hann þakki fyrir hlutskipti sitt langt frá þessu skrýtna fólki sem þurfti að takast á við kommúnismann í eldhúsum sínum en ekki bara á kaffistofum. Það er auðveldara að koma auga á illsku fólks en að setja sig í spor þess. Og maður skyldi vara sig á að hreykja sér um of af sinni hreinu sönnu sýn á mannlegt samfélag því hvað sem hægt er að þræta um mannlegt eðli þá er víst að manneskjan mun bregðast við aðstæðum sínum og berjast fyrir tilveru sinni og þeirri merkingu sem hún leggur í hana.
"Snarkið í eldinum var horfið, tikkið í klukkunni varð undir vindinum. Allt endurtók sig. Þó að rúblunni væri skipt í krónu og dregið hefði úr flugi herflugvéla yfir höfði hennar og foringjarnir lækkuðu röddina, þó að sjálfstæðissöngurinn hljómaði úr hátölurum Langa Hermanns á hverjum degi, þá komu alltaf ný krómleðurstígvél, alltaf nýtt stígvél, samskonar eða annarskonar, en það steig alltaf á hálsinn á sama hátt. Skotgryfjurnar höfðu gróið saman, skothylkin í skóginum dökknað, byrgin hrunið, þeir föllnu rotnað, en ákveðnir hlutir endurtóku sig."
Nálgunin minnir á mynd Marjane Satrapi, Persepolis sem ég skrifaði um hér áður. Hér á landi er Oksanen helst þekkt fyrir að hafa verið dónaleg í viðtali. Hér er annað viðtal við hana og hún er nú svo sem ekkert eitthvað svakalega mikið að ganga í augun á spyrlinum þar heldur. Hún er greinilega ekki mjög venjuleg en það er nú ekki alltaf svo slæmt. Ég hef alltaf smá gaman að svona oddhvössu fólki. Hún hefur í öllu falli sögur að segja og ég mun reyna að komast yfir aðrar bækur hennar í þýðingu því ekki les ég finnsku.
Ummæli