Brúðkaupsdagurinn 26 apríl 2008

Síðustu vikur og mánuði hefur flest snúist um þennan dag. Það var því með gífurlegri eftirvæntingu sem þessi dagur hófst eftir ekki svo mikinn svefn. Morgunninn sem átti að fara í afslappelsi og tiltekt var örugglega ekki nema 15 mínútur þó svo að klukkan þættist ganga eins og venjulega.
Ég skildi svo við Gunnar með það verkefni að hafa sig og strákana til (tvo þeirra) og fór á Laugaveg að láta sjæna mig til. Þar var mér sem sagt bæði greitt og ég máluð. Að sjálfsögðu tók þetta miklu lengri tíma en til stóð en ég var alveg voðra róleg þangað til ég tók eftir því að ég var í alvöru orðin allt of sein. Ég sem hafði lagt á það mikla áherslu við Gulla að koma ekki seinna en klukkan eitt hljóp beinnt í flasið á honum í ganginum heima. Og hann orðin stressaður!! Hann passaði sig þó á því að taka eftir og hafa orð á því hvað ég væri fín og sæt. Ég gerði sem sagt það sem allar brúðir gera víst. Kom of seint. Og var næstum búin að gleyma að fara í gullskóna!!

Athöfnin var látlaus og falleg og Baldur geymdi og kom með hringana til okkar og stóð svo sperrtur hjá, tók hlutverk sitt alvarlega. En það var eitthvað svo skrítið við þennan dag að það vara alveg sama hvað tíminn átti að vera rúmur, alltaf tókst okkur að vera á síðustu stundu. Við þurftum náttúrulega að fara heim eftir athöfnina til að sækja það sem varð eftir á hlaupunum og svo vara brunað á Bræðraborgarstíginn þar sem Gréta tók á móti okkur. Það var dáldið maus að ná myndum af okkur öllum fimm en mydnir voru bæði teknar í stúdíóinu og í Grasagarðinum enda fengum við þennan yndislega sumardag frá Dísellu. Hún hefur sem sagt einhver spes tengsl við veðurguðina.

Klukkan hálf fimm var ég orðin gegnköld (Dísella hýtur að vera að vinna í því að útvega ameríska sumardaga hingað á skerið) og vonandi vel fest á filmu. Þá var okkur ölum skutlað heim og Gulli fór í síðustu reddingarnar fyrir brúðgumann. Við höfðum ekki farið að ráðum brúðkaupsþáttarins og haft mat með okkur "í brúðarbílinn" og tek ég nú undir ráðleggingar Elínar og bendi tilvonandi brúðhjónum að hafa með sér eitthvað að borða. Við vorum öll svöng og fengum okkur í gogginn heima. En enn og aftur hvarf tíminn og vo náðum ekkert að hita upp fyrir spilamennskuna og náðum ekki einu sinni að vera á undan öllum gestum.

Það var ólýsanleg tilfinning að sjá allt prúðbúna fólkið upp á svölunum. Svo mikið búið að hlakka til, skipuleggja, spá, spekúlera, snúast og stressast. Og þarna komu gestirnir hver af öðrum, uppábúnir og glaðir. Salurinn var gæsilegur enda skiptu rósirnar hundruðum og bleiki og brúni liturinn nutu sín vel. Ég mátti varla vera að því að spila öll lögin okkar ég hlakkaði svo til að fara og hitta alla.

Þegar við komum upp á svalrinar var tekið á móti okkur með ekta kampavíni og bleikum og brúnum pappahjörtum. Þegar við vorum búin að heilsa og taka við hamingjuóskum frá nærri öllum hélt Garðar móðurbróðir minn litla tölu um gildi hjónabandsins. Sigurður kynnti svo veislustjórana og bauð fólkið velkomið að setjast.

Nú veit ég ekki hvort ég á að rekja alla veisluna í smáatriðum. Ég hef að minnsta kosti ekki tíma til að gera það núna. Þetta var í sannleika sagt skemmtilegasta brúðkaupsveisla sem ég hef farið í. Mikið svakalega var gaman. Veislustjórarnir (Fjóla og Marín) stóðu sig með stakri prýði og fjölmargir lögðu það á sig að undirbúa eitthvað og koma og skemmta okkur. Mamma hélt ansi sniðuga ræðu en ég vil samt taka það fram að hún var að miklu leiti uppspuni. Ég tók þá áhættu að syngja í fyrsta skipti ein fyrir fullt af fólki í minni eigin veislu. Ég var alveg að renna á rassinn með það en er afskaplega glöð að hafa gert það. Æðislegt lag og Gulli og Helga gerðu það alveg pottþétt. Helga móðursystir Gunnars hafði skrifað hvorki meira né minna en 12 erinda brúðkaupsbrag um okkur. Marín fór fögrum orðum um (og gerði grín að!!!) okkur Gunnar, Árni bróðir spilaði undir fjöldasöng, Gulli gerði sitt besta að gefa okkur engin heilræði og las upp fallegar kveðjur frá Bostonfjölskyldunni. Blásarasaumaklúbburinn setti upp leikþátt og vinkonur mínar tóku saman myndasýningu úr gæsaveislunni minni og spiluðu undir upptöku af mínum eigin söng. Lísa gaf mér gjafabréf upp á hvítvínssmökkun. Vona samt að hvítvínið hafi verið gott.

Hmmmm......
Kannski var tíminn ekkert að klikka. Þetta var bara aleg svakalega mikið og allt alveg æðislega skemmtilegt og fallega hugsað og vel undirbúið og...........

Maturinn var rosa góður og kakan sem hún mamma mín bakaði sveik engann.

Rúsínan í pylsuendanum var svo hljómsveitin. Haukur olli mér svo sannarlega ekki vonbrigðum enda var hann búinn að flytja inn búlgarskan harmonikkuleikara til að spila með sér. Tónlistin var algjört æði og undirtektirnar eftir því. Varir Hauks voru farnar að líkjast rúsinum í restina og vinkonur mínar búnar að rífa hann hálfpartinn úr fötunum og að sjálfsögðu var ekki að finna skó á kvenmannsfæti í húsinu. Hljómsveitinni var ekkert hleypt í pásu og brugðu dansgestir á það ráð að bera í hlóðfæraleikarana bjór í hvert skipti sem þeir drógu andann. Það endaði því með því að bassaleikarinn varð að bergða sér á salernið en hinir héldu árfam á meðan til að sefa múginn. Harmonikkuleikarinn sá búlgarski blés þó ekki úr nös og veigraði sér ekki að spila afmælissönginn fyrir Marín veislustjóra.

Það var því ekki fyrr en um klukkan 3 að brúðhjónin fóru heim að fullkomna hjónabandssáttmálann!

Ummæli

Til hamingju með daginn! Þetta var með skemmtilegri brúðkaupsveislum sem að ég hef verið í. Bara allt æði, maturinn, vínið, skemmtiatriðið, hljómsveitin og ekki síst yndislegt að fylgjast með ykkur sætu hjónunum og sætu strákunum ykkar. Góðar minningar :)
Marín sagði…
ohhh ég fæ gæsahúð að lesa þetta
Án efa skemmtilegast brúðkaup sem ég hef verið í :) og það án rauðvínssopa.

ALGJÖRT ÆÐI!

Þið svo falleg og glöð, salurinn flottur, gestirnir fínir og hljómsveitin geðveik :)

Fullkomið í allastaði.
Luv ya!

Vinsælar færslur