Laurie Anderson - Republic of Love



 
Ég vissi ekki alveg við hverju ég átti að búast. Ég hafði leitað að einhverju um þennan gjörning sem fór fram í Vínarborg og átti að fjalla um fasisma en fann lítið. Ákvað bara að mæta og sjá. Mér var hræðilega illt í bakinu sem hafði smá áhrif á mig en annars var ég spent að sjá Anderson sem ég held mikið upp á. Fyrst steig þó á svið í Norðurljósum Ásta Fanney sem sýndi mynd af krókódíl og fiðrildum og söng eitthvað. Fyrir mér var þetta svona readymade gjörningur þar sem listræna inntakið lá í því að listamaðurinn var sannfærður um að hann væri að fremja list. 

Hálftíma síðar steig Anderson á sviðið ásamt Mörthu Mooke vílóluleikara. Þær spiluðu á rafmagnsfiðlur við undirspil rafhljóða. Anderson hóf svo frásögn sína sem var með því hljóðfalli og þeirri áferð sem ég hef heyrt áður í verkum hennar. Hún er afar skýrmælt og heillandi og ég dróst inn í hvað sem hún sagði þó að á endanum áttaði ég mig á því að þetta var í raun ekki ein frásögn heldur margar. Ég áttaði mig á því að hún var ekki þarna til að reyna að hafa áhrif á mig heldur til að tala um alls konar sem henni fannst skemmtilegt. Á tímabili fannst mér ég vera komin inn í dada gjörning þar sem merginmálið var akkúrat samhengisleysið. Gertrude Stein að tala í hringi og Freud á kafi í froðu. Viðspyrnan við fasisma nú sem áður að afneita ritskoðun á hugmyndum með því að bulla og “have a really, really, really, really good time”. 


Anderson hafði á orði að allt væri að styttast í nútímanum og sýndi okkur að hún hefði úthald í eitthvað annað en stutta sýningu. Hún hafði fyrr um daginn tekið þátt í tveggja klukkustunda gjörningi í Hafnarhúsinu sem ég heimsótti líka en sýningin þarna um kvöldið var heldur löng fyrir bakið á mér og mér fannst fólk í kring um mig líka vera farið að ókyrrast. Kannski voru fleiri með bakverk en ég. Mig langaði að heyra meiri tónlist. Ég hef hlustað mikið á nýjustu plötu hennar Amelia og mig langaði að heyra tónlist Anderson. Ég átti ekki von á O Superman en ég átti von á tónlist. Mig langaði kannski sérstaklega að heyra tónlist eftir drónagjörninginn í Hafnarhúsinu. Ég er vissulega búin að drekkja mér í sýningunni hennar Steinu síðustu daga og hennar hljóðheimur búin að strjúka mér á alla kanta svo mig langaði í meira. Vissulega fjallaði auglýsingin um drón en þegar ég sá alla hljóðfæraleikarana langaði mig virkilega að heyra þá taka örlítið á sprett. Drón er orðið eitthvað sem einkennir nútímann meira en nokkuð annað. Eigi eitthvað að vekja upp listrænar tilfinningar, ef eitthvað á að heita listrænt þannig að listunnendur nenni að mæta verður að vera drón. Einn og einn skali svona til að máta mismunandi tóna við drónið. En það er plan um að halda sig á ákveðnum stað. Kyrrð, loksins stoppar þetta allt saman, loksins bara hljómur að strjúka sálina. Loksins eitthvað að falla inn í, þarna er hljómurinn sem við þurfum. Getum hreyft okkur örlítið en pössum samt inn í myndina. Hver hljóðfæraleikari í sínu horni að reyna að heyra í sjálfum sér. Þetta var ekki leiðinlegt en í mín eyru var kominn tími á eitthvað nýtt. 


Mér finnst eins og það sé ekki til neins að ætla að taka saman það sem ég sá þetta kvöld. Svolítið eins og ég hafi fengið að sjá Laure Anderson leika sér án þess að hún hafi verið að segja mér eitthvað ákveðið. Hugsanlega var ég ekki með réttu fálmarana til að ná merkinu en ég kunni að meta leikgleðina. Orkuna og röddina. Inntakið er forvitni. Svo snýst heimurinn allt í kring.



Ummæli

Vinsælar færslur