Þú sem ert á jörðu - Nína Ólafsdóttir

Distópía á óræðum stað í framtíðinni þar sem allt sem virðist virðist vera að fara til helvítis hefur gert það. Þetta er ekki bók sem ég hefði haldið að ég sykki svona niður í eins og ég gerði. Lýsingar á baráttu við náttúruöflin sem ég tengi við hamfarasögur og hetjudáðir sem ég hef ekki haft áhuga á að lesa. En það er eitthvað við þessar lýsingar sem kalla fram tilfinningar sem hafa mikil áhrif á mig. Þetta eru ekki langar og djúpar vangaveltur um einmannleikann og dauðann, um forgengileikann og heimsku mannkynsins.  En textinn dregur fram tilfinningar um þessi fyrirbæri án þess að segja mér frá því. Dregur mig inn í tilveru sem ég vil aldrei heimsækja nema í södd í mínu örugga umhverfi. 

Það eru örfáar persónur í sögunni sem við kynnumst úr hugarfylgsni sögupersónunnar sem við fylgjumst með. Við köfum ekki djúpt í aðalpersónuna en sjáum atburðarásina frá hennar augum þannig að við finnum fyrir tilfinningum hennar. Það þarf ekki að segja okkur frá óttanum og skelfingunni. Við finnum hana í gegnum textann. Það er kostur hvað fortíðin er óljós í sögunni. Við upplifum ekki endalokin heldur hefst sagan þegar þau hafa þegar orðið og við finnum fyrir því hvernig það er þegar það er ekki hægt að berjast fyrir mannkyninu lengur. Hvað mennskan er þegar samfélagið er rústir. Eftir því sem líður á bókina læðist að sú tilfinning að líklega sé best fyrir manneskjuna að gefast upp  í baráttunni þegar hún er orðin alveg ein. 

Ummæli

Vinsælar færslur