Búningar

 Það er auðveldast að skilja merkingu klæðnaðar með því að skoða þau áhrif sem búningar hafa á okkur. Búningi með beinlínis ætlað að hafa merkingu sem vísar út fyrir manneskjuna sem í honum er og ljá henni eiginleika sem felast í klæðnaðinum sjálfum. Oft er ætlunin að ákvarða vald eins og herbúningar og lögreglubúningar og hefur klæðnaðurinn þá svo sterk áhrif að manneskjan breytist bókstaflega úr sjálfri sér í hlutverk þess sem fer með valdið. 

Ég velti því fyrir mér hvað það þýðir þegar fólk hefur mjög gaman að því að klæðast búningum og fylgja allkonar þemum í búningapartýum. Fær fólk útrás fyrir einhverskonar sköpun eða er þetta blæti fyrir því að vera annað en það er? Kann það illa við sjálft sig eða finnst því ævintýralegt að fá að máta sig við önnur hlutverk? 


Ég er í mínum eigin fötum en sjúkraþjálfarinn er í sjúkrahúsbúningi þar sem allt starfsfólkið klæðist sömu eða svipuðum fötum. Læknar eru til undantekninga enn í læknasloppnum en annars er starfsfólkið eins. Sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar, læknar og sjúkraþjálfarar. Öll í bláum buxum og óhepptri skyrtu í sama lit. Sum, og sérstaklega þau yngri eru ævinlega í hvítum vatteraðum jakka yfir. Hann gefur þeim mjúkt yfirbragð. Minnir svolítið á barnateppi sem stafar af mildi og heiðarleika. Ég spurði hvort það breytti sjúkraliðum að fara í búninginn. Hvort þau færu í hlutverk. Hvernig þeim fyndist að fá ekki að vera í sínum eigin fötum. Það voru skiptar skoðanir en ein sagði að hún væri opnari og skrafnari þegar hún væri í vinnunni. Og umræðurnar snérust um hvort fólk væri það sjálft í vinnunni eða eitthvert annað. Það snéri samt ekki beint að búningnum. Fólk er að vinna og það þarf að setja sjálft sig til hliðar í þeim aðstæðum. Vinnur einhver við að vera hann sjálfur? 


Kannski verður merking búningsins meira til út á við en inn á við. Manneskja í lögreglubúningi upplifir kannski valdið í starfinu öðruvísi en sjáandinn sem legg merkinguna í búninginn. Kannski verður valdið til í væntingum þess sem sér en ekki í vitund þess sem þarf að taka sér valdið. Eða kannski er þetta öðruvísi með búninga sem tákna vald og aðra búninga sem hafa lausari merkingu. 


Ein sjúkraþjálfaranna sagðist vera ósátt við vaff- hálsmálið á búningnum. Líkti búningnum við náttföt. Líklega á hann að vera þægilegur að læðast. Ég hef alltaf áhyggjur af því að hann sé ekki úr nógu teygjanlegu efni og finnst hann ekki fara öllum vel. Buxurnar eru svolítið stuttar og kúkurinn beinn svo hann fer körlum betur en konum. En ég sé miklu fleiri konur í búningnum. Ég held að hálsmálið eigi að vera flatterandi. Vaff-hálsmál er oft fallegra en bogið. 

Ég á að vera í fötum sem ætluð eru til líkamsræktar í sjúkraþjálfuninni en ég er í uppreisn og klæðist kjólum og skyrtum. Kannski er ég bara að reyna að halda í snefil af sjálfri mér í þessari tilveru sem kom í staðinn fyrir lífið sem molnaði undan fótum mér.  

Ummæli

Vinsælar færslur