Jenny Saville
Risastór andlit stara fram úr flennistórum myndum. Þau fylla gjarnan út í allan flötinn. Það er vissulega líf í andlitunum en það sem grípur meira er lífið í holdinu sjálfu. Eins og húðin sé aðalviðfangsefni myndarinnar. Hún er ekki slétt og feld, hún er ekki slípuð á striganum til þess að beina athygli okkar að huga og háttum manneskjunnar sem við sjáum. Þvert á móti sjáum við hvernig æðakerfið knýr lífið áfram undir húðinni sem er mjúk og heit.
Jenny Saville er fædd árið 1970 í Englandi. Hún skaust strax upp á stjörnuhiminn listasenunnar í Englandi árið 1992 þegar hún útskrifaðist frá Glasgow School of Art. Hún var 22 ára og þegar búin að þróa aðferðir sínar til að móta hold á striga með nánast óhugnanlegri nákvæmni. Verkin snúast, að sögn, ekki um að horfa á líkama heldur um það hvernig er að vera í líkama.
Propped (1992) var hluti af útskriftarsýningu Saville og vakti mikla athygli. Konan situr nakin í hásæti þar sem hún krækir fótum um stöpulinn sem hverfur undir holdmikil læri. Það er óvíst hvort gripið sem hún hefur rétt fyrir ofan hné sé til þess að halda ballans eða tengist munúðinni sem ég les úr svip hennar. Höfuð hennar er þó of hátt uppi á fletinum til þess að sjást að fullu. Ég verð að hætta að spá í hvað hún sé að hugsa og takast á við þennan dúandi líkama sem þrengir sér inn í hugskotið. Það er eitthvað skrifað yfir allt verkið og á sýningunni var spegli komið fyrir svo hægt væri að lesa það sem standa orð franska heimspekingsins Luce Irigaray úr verki frá árinu 1985 This Sex Which Is Not One.
“If we continue to speak in this sameness, if we speak to each other as men have spoken for centuries, as we have been taught to speak, we’ll miss each other, fail ourselves.”
Um leið og sýningunni lauk keypti breski listaverkasafnarinn Charles Saatchi verkið. Verkið var svo selt árið 2018 fyrir hæsta verð sem fengist hefur verið fyrir verk núlifandi kven listmálara. Það er svo hressandi að þetta skuli henda femínískt verk. Vel gert veröld.
Það hvílir yfir verkunum þrúgandi óhugnaður. Verkin taka ekki yfir vitundina með því að lokka hana með fegurð heldur skerpa tilfinninguna fyrir því að lifandi lífvera sé að taka breytingum eða jafnvel verða fyrir tjóni. Er þetta skuggi eða sár? Mér finnst varir vera við það að springa eða er það missýn? Það er eins og málningin sjálf verði hlaðin merkingu vegna þess að hún er of skörp, of hlaðin eða liturinn gefur til kynna eitthvað skaðlegt.
Verk Saville hafa oft verið borin saman við verk Francis Bacon og Lucian Freud og sjálf segist hún hafa lært mikið um tækni af Willem de Kooning og nefnir sérstaklega kvennamyndirnar sem áhrifavalda. Það skítur nokkuð skökku við þar sem þeim hefur hingað til verið eignuð kvenfyrirlitning. De Kooning sagðist kunna við fallegar konur. “Women irritate me sometimes, I painted that irritation in the Woman series.” Saville sagðist hins vegar ekki sjá neina árás á konur í myndunum. Hún myndaði annað samband við þær “For me, de Kooning´s women are not passive”.
Ég velti því fyrir mér hvort það hafi einmitt verið það sem sem de Kooning var að koma á framfæri, konurnar voru ekki passívar og það var það sem pirraði hann en heillaði Saville.
Nú stendur yfir sýning á verkum Jenny Saville í National Portrait Gallery í London. Ég pantaði sýningaskránna sem er vegleg og eiguleg en ég mun ekki sjá verkin hennar í bráð. Vonandi mun ég verða þeirrar gæfu aðnjótandi einhverntíma í framtíðinni.
Ummæli