Heima hjá
Zadie Smith. Hún er auðvitað bara miklu meira töff en hver sem er. Hún er með hása rödd, þykkan breskan hreim og orðin renna áreynslulaust upp úr henni. En það er alltaf einhver hugsun á bak við það sem hún segir. Líklega er hún afslappaðri heima sjá sér. Hún er glæsileg í bóhemíska baststólnum sem mér finnst að ætti að vera til í öllum húsgagnaverslunum.
Fyrir það fyrsta er það ekki fyrir einhvern bol að vera með rauðmálaða veggi. Það er nokkuð ljóst að manneskja sem málar veggi rauða hefur bein í nefinu til að takast á við lífið. Hún vill skerpa hugann á hverjum degi og þarf ekki að heimilið sé róandi og hlutlaust. Hún er tilbúin til að taka djarfar ákvarðanir og er ekki hrædd við áskoranir. Þannig sé ég Zadie Smith fyrir mér með kaffibollann fyrir framan tölvuna á hverjum morgni. Hún er ekki með eyrnalokka eins og á myndinni. Hún er berfætt þegar það er heitt í London og hún er ekki í skóm við tölvuna. Hún blaðar í bókum sem hún er að vinna upp úr, hún er að skrifa um heimspekinginn Simone Weil. Hún gaf það upp í viðtali og það sést að bókin á skrifborðinu er full af minnismiðum. Hún er ekki að drekka kaffi heldur te.
Það gleður mig að sjá póstkort með mynd eftir ljósmyndarann Vivian Maier. Opnumyndin á þessari bloggsíðu er líka eftir hana og Kaffisögurnar hafa líka mynd Vivian Maier.
Til eru mýmargar prentanir á myndum Fridu Khalo af henni sjálfri sem eru vinsælt myndefni um allar trissur. Ég var á tímabili með eina í eldhúsinu hjá mér. En mér sýnist það vera mun algengara að fólk, og kannski sérstaklega rithöfundar, hafi mynd af Virginiu Wolf í híbýlum sínum. Og þá sérstaklega þessa sem Smith er með í bókahillunni sinni.
Það er erfitt að sjá hvaða bækur eru í hillunum. hún veit hvað er í þeim og því trufla póstkortin hana ekki. Ég er endalaust að þvælast með bunka af póstkortum sem ferðast inn í stofu og svo inn í svefnherbergi og svo hingað. Ég kann sérstaklega við að sjá þau ef þau eru falleg. Fallegir litir heilla mig mikið og stundum er ég að reyna að skilja myndirnar betur með því að hafa þær stanslaust fyrir augunum. Er ekki viss um það gagnist mikið.
Hún segir ekkert þegar hún situr við tölvuna. Hún skrifar líklega hratt og mikið og notar svo mikinn tíma til að eyða út og stitta. ég veit ekki hvort það er þannig sem hún vinnur en ég hef það á tilfinningunni. Hún er ekki búin að skrifa bókina í huganum þegar hún byrjar. Hún er ekki að fylla inn í fyrirframgefna atburðarás sem hún er búin að teikna niður. Hún lætur textann öðlast líf með hverri setningu. Hverjum nýjum degi í rauða herberginu.
Myndin hérna til hægri er af móður hennar og frænkum.
Hún pósar fyrir ljósmyndarann en í næstu andrá skellir hún upp úr. Það er svolítið kjánalegt að sitja svona við tölvuna með slökkt á skjánum. Við horfum á hana og hún horfir á okkur en við sjáum ekki hvernig orðin raðast saman í textann sem við kaupum svo í fallegum bókum. Við sjáum ekki hvernig ímyndunaraflið er kaótískt í huganum sem er að reyna að henda reiður á öllum þráðunum sem vilja verða skáldsagan.
Þegar við erum hætt að horfa tekur hún úr sér eyrnalokkana og færir bókastaflann frá. Hún kveikir á tölvunni og rennir augunum yfir kortin sem standa við skjábotninn. Hún kveikir líka á báðum grænu kertunum og yljar sér á teinu í bollanum. Reynir að fá orku frá rauða litnum til að strjúka rétt yfir lyklaborðið. Þetta verður að vera eitthvað krassandi.
Ummæli