Elsa von Freytag-Loringhoven & Marcel Dushit
Baroness Elsa von Freytag-Loringhoven (1874-1927) kom til Bandaríkjanna árið 1910 og varð hluti af fjölskrúðugri listasenunni í New York. Hún vann fyrir sér með því að sitja fyrir hjá Man Rey meðan hún sökkti sér í listsköpun. Hún fór óhefðbundnar leiðir og vinur hennar Duchamp sagði um hana; "She is not a Futurist. She is the future".
Hún ögraði listheiminum með því að bræða saman listræna búninga við ljóðlist og gjörninga þar sem hún klæddist oft einhverju sem hún fann í ruslinu (tómatdósir) og fór með ljóð sem samanstóðu af slagorðum og hún kallaði "ready-made poems". Hún bjó til skúlptúra úr því sem hún fann og árið 1913 gaf hún gömlum málmhring titilinn Enduring Ornament. Þetta var ári áður en Duchamp kom fram með flöskurekkan sinn sem er talað um sem grundvallaratriði við mótun módernismans.
Til að bæta gráu ofan á svart stal hann líka verkinu fræga Fountain frá árinu 1917. Hann sagði aldrei hvaða kona var höfundur verksins en það eru miklar líkur á því að verkið hafi verið eftir Freytag-Loringhoven. Verkinu hafði verið hafnað af The Society of Independent Artists og Duchamp skrifaði í bréfi til systur sinnar um skandalinn að einn nemandi hans hefði sent inn skúlptúr í formi pissuskálar undir nafninu Richard Mutt (R. Mutt). Þrátt fyrir að verkinu hafi verið hafnað var það myndað af Alfred Stieglitz sem sagði einnig á sínum tíma að verkið hefði verið eftir konu. Enda heldur skýring Duchamps á nafninu R. Mutt í tenglslum við framleiðandan JL Mott Iron Works engu vatni þar sem ekkert er að finna um að fyrirtækið hafi framleitt pissuskálar. Hann fór ekki að taka heiðurinn af verkinu að fullu fyrr en bæði Freytag-Loringhoven og Alfred Stieglitz voru látin. Enn eru uppi vangaveltur um hver hafi í raun gert verkið en allvega er það ljóst að Duchamp sem tók heiðurinn af því er ekki höfundur þess. Elsa á aftur á móti að hafa kallað Duchamp "Marcel Dushit", er það ekki góð vísbending?
Ummæli