Intermezzo - Sally Rooney
Ég keypti nýjustu bók Sally Rooney á síðasta ári þegar hún kom út. En einhverra hluta vegna las ég hana ekki fyrr en núna í febrúar. Það er kannski vegna þess ég vil geyma þykkar bækur til mögru dagana þegar ég finn ekkert á bókasafninu og líka vegna þess ég er alltaf smá smeyk við bækur Rooney. Hún á það til að fara ekkert of vel eða varlega að persónunum sínum og þar með tilfinningum mínum. Mér fannst blátt áfram erfitt að lesa Normal People. Þetta er fjórða bókin hennar, áður komu út Conversations with Friends (2017) áðurnefnd Normal People (2018) sem gerðir voru sjónvarpsþættir upp úr í kring um 2020 og svo Beautiful World. Where are You (2021).
Intermezzo fjallar um bræðurna Peter og Ivan sem nýlega hafa misst föður sinn. Peter er þrítugur lögfræðingur og Ivan er 22 ára skákmeistari. Sagan er sögð í þriðju persónu sem mér finnst mjög hressandi en höfundur situr samt djúpt í huga bræðranna til skiptis. Það er nánast eins og lesandinn sé að hugsa hugsanirnar sem þvælast þráhyggjukennt um huga bræðranna. Við finnum sársauka þeirra í einsemdinni sem fyllir þá eftir að faðir þeirra deyr og við flækjumst inn í hugsanir þeirra um elskendur þeirra sem eru ýmist fullar ásökunar eða aðdáunar.
Skákin gæti verið tákn um hvernig allar ákvarðanir, gjörðir og viðbrögð hafa áhrif á umhverfið. Á taflborðinu skiptast leikendur á að leika leiki sem mótherjinn verður að bregðast við og í lífinu hefur fólk áhrif á hvert annað þannig að öll hegðun, orð og gjörðir hafa áhrif á fólkið sem stendur okkur næst. Líka þegar við við viljum helst ekki hreyfa eitt einasta peð og bara fá að draga okkur inn í skelina.
Sagan er áhrifamikil og þó ég hafi ítrekað grátið yfir bókinni þá mæli ég samt með henni. Hún var ekki óþægileg á sama hátt og Normal People því fólkið er mannlegra. Það er eðlilegra þó það sé sífellt að velta því fyrir sér hvort það sé nógu eðlilegt.
Þetta er að mínu mati besta bók Sally Rooney til þessa.
Ummæli