Revolutionary Road

Nú finnst myndin ekki lengur á Netflix. Ég náði bara að horfa á hana tvisvar. 


Myndin fjallar um hjónin April (Kate Winslet) og Frank (Leonardo di Caprio) sem dreymir um að lifa lífinu til fulls en ekki í „the hopeless emptiness of life here“. Þau vilja fara til Parísar þar sem þau segja fólk virkilega lifa lífinu. 



Rose og Jack úr Titanic hafa uppfærst upp úr ævintýrinu um Rómeó og Júlíu og hverfa bak við hvíta girðingu ameríska draumsins. 

Hvernig á að lifa lífinu? Hvað stoppar okkur í því að lifa því eins og við viljum? 

„If being crazy means - living as if it matters, then I don´t care if we´re completely insane“ 


Ég grét hryllilega yfir þessu atriði í bæði skiptin sem ég horfði á myndina. í fyrra skiptið vegna uppgjafarinnar og seinna vegna baráttuþreksins. Teikningin af vélinni í mótsögn við fuglasönginn. Ljúffengi morgunmaturinn eins og fleygur á milli þeirra. 


Það virðist vera furðulega erfitt að lifa lífinu eins og það skipti máli. Við virðumst öll vera á ferðalagi sem er alsett markmiðum sem eiga að gera uppfylla tilgang okkar og fylla sálina af merkingu en fá markmiðanna virðast í raun skipta máli. Lífið virðist vera uppfullt af alls konar bráðnauðsynlegum óþarfa alveg þangað til það hriktir í stoðum þess. Þá skiptir allt í einu ekkert máli nema að lifa. Að draga andann. Að draga fæturna undir líkamanum skref fyrir skref verður markmið í sjálfu sér og allt annað verður einhver kjánalegur brandari. 


Tómið er ekki vonlaust og tilgangslaust. Það er tómt fyrir okkur að þenja okkur út í. Það er tómt svo við getum tekið skrefið. Dansað kannski. Tómið er til að halda jafnvægi í. Ef það er hægt að sleppa því að setja markmiðin út fyrir tómið er hægt að fylla það af hverju sem er. Aftur og aftur. Makrmiðin eru kannski í París en tómið er í líkamanum á hverjum degi. Liggur hvaða veg sem er.

Ummæli

Vinsælar færslur