A Passion Like No Other 2012
Lynette Yiadom-Boakye er fædd í London árið 1977. Hún varð á vegi mínum í ritgerðasafni Zadie Smith Feel Free. Þar er ritgerð um verk Yiadom-Boakye; A Bird of Few Words: Narrative Mysteries in the Paintings of Lynette Yiadom-Boakye. Ég fletti henni upp á Pinterest eins og ég geri gjarnan þegar eitthvað áhugavert verður á vegi mínum og svo á Youtube og sá að hún hafði verið tilnefnd til Turner verðlaunanna árið 2013.
A Whistle In A Wish 2018
Tate Britain setti síðan upp stóra sýningu með verkum hennar árið 2020 og þar sem það var ljóst að ég gæti ekki farið og séð sýninguna pantaði ég í staðinn sýningarbæklinginn af heimasíðu safnsins. Sýningin fór svo til Modrena Museet árið 2021. Ég vona að stóru útgefendurnir; Phaidon eða Taschen muni seinna gera verkum hennar góð skil.
Citrine By Tne Ounce 2014
Þegar ég fékk bókina í hendur opnaði ég Spotify eins og Andrea Schileker stingur upp á í byrjun umfjöllunar sinnar og fann Kind of blue. Síðar hef ég hlustað á Sketches of Spain en það er platan sem Lynette segist hlusta á þegar hana vantar innblástur.
Það er sannarlega gott að hafa tónlist með myndunum því mér finnst ég þurfa að heyra eitthvað í þeim. Hvað er hún að segja? Hún virðist vera með allt sitt á hreinu. Kannski er hún í smá vörn. Hún virðist allaveg vita hvað hún syngur.
Fólkið á myndunum er í mínum huga tákn um hve manneskjur geta verið fallegar. Ég varð smá svekkt þegar ég las að fólkið er ekki raunverulegt heldur skáldað. Þetta eru ekki portret í þeim skilningi. Manneskjurnar eru skáldaðar en ég hef alltaf fengið sérstaka huggun af því hvernig mennskan skín úr viðmóti þessara persóna. Það er svo nærandi að sitja með kaffibolla í morgunkyrrðinni.
No Such Luxury 2012
Hvað áttu við með því?
Ætti ég ekki að leyfa mér þetta? Er þetta ekki í boði fyrir þig? Hvað er að angra þig? Talaðu við mig!
Accompanied To The Kindness (til vintri). Maður á dökkum grunni sem heldur á æpandi fallega rauðum páfugli sem skín á dökkum fletinum.
Önnur mynd af manni með fugl á fingri heitir All Manner Of Comforts (2016) en þar liggur maðurinn þægilega í hægindastól. Hann er greindarlegur með gleraugu en horfir spurnar augum á kanarífuglinn? Það er allavega huggulegt að hann sé á lífi...
Síðan hef ég eytt löngum stundum með kaffibolla, Miles Davis og listaverkabókinni og notið þess að horfa á fólkið og lesa titlana á verkunum sem mér finnast bæta einhverjum töfrum við myndirnar. Eins og þar sé eitthvað í gangi sem sést ekki beinlínis en ég fæ að skálda í eyðurnar. Titlarnir eiga ekki að skýra myndirnar heldur bæta einhverju við myndirnar. Stundum ljóðrænir en ævinlega tvíræðir eða óræðir. Þeir æsa upp í mér forvitnina.
Myndir Yiadom-Boakye eru oft mjög dökkar og bakgrunnurinn oft eins konar abstrakt flötur eins og hann eigi sér hvorki stað né stund og því verða myndirnar tímalausar og draga athyglina beint að fólkinu. Litir virðast vera notaðir í ákveðnum tilgangi.
Flestar myndinar eru bara af einni manneskju. Fólkið er oftar karlkyns en kvenkyns og það er eitthvað sem heillar mig sérstaklega við karlmennskuna í myndunum. Þeir eru afslappaðir og innilegir. Oft má sjá þá með dýrum, gjarnan fuglum. Eitthvað sem er vilt og tjáningafullt. Eilítið dularfullt líka.
Persónurnar eru ekki einmanna því það er ljóst að þær eiga í einhverskonar samtali á hverri einustu mynd. Það er eitthvað að gerast. Stundum horfa þær beint í augu áhorfandans og ég vil heyra hvað þær hafa að segja. Stundum er eins og þær séu að eiga í samskiptum við aðra utan rammans. Stundum eru þær að dansa. Stundum hlusta þær. En það er alltaf ljóst að næsta hreyfing er rétt að fara að eiga sér stað. Næsta spor, næsta orð, næsti andardráttur.
Daydreaming Of Devils 2016
Uppáhalds verkið mitt er Daydreaming Of Devils. Dansari á grunni sem hreyfist frá gulum og ljósum yfir í grænt og blátt. Hann er hálf nakinn og við sjáum vangasvipinn svo það skín á langan hálsinn. Hann snýr líkamanum beint að okkur og hefur hendur á mjöðmum, já, fólkið er það gjarnan í verkum Yiadom-Boakye og hann tillir hægri fæti á tá. Þess vegna segi ég að þetta sé dansari, er samt ekkert viss um það. Ég er ekki viss hvort hann veit af því að við horfum á hann en hann er allavega með hálflokuð augu og vill ekkert að við vitum hvað hann er að hugsa. Hann er bæði fagur og tilgnarlegur, fyrir mér er hann munúðarfullur. Hann er með bleikan ref um hálsinn og í fyrstu lítur þetta út eins og fjaðrakragi eða eitthvað í átt við það en þegar betur er að gáð hangir lítið höfuð og lappir niður úr kraganum öðru megin. Þetta er svona refur sem ég sé gamlar konur fyrir mér með um hálsinn og ég hugsa um drag. Það er líka eitthvað svo ögrandi við gula bakgrunninn og limaburðinn. Augun leita frá hægri kálfanum og upp eftir innanverðu lærinu upp að nára.
Black Allegiance To The Cunning 2018
Hann er afslappaður og fagur og horfir beint í augu mín. Hann er í miðju kafi að segja mér eitthvað sniðugt. Eitthvað sem ætti ekki að taka of alvarlega. Eða kannski er hann að leggja á ráðin um eitthvað. Við fætur hans liggur ekki tryggur hundur heldur tófa. Hún brosir líka til mín. Titilinn er hægt að túlka á marga vegu en ég vil aðallega fá að heyra meira. Ég vil vita hver er lævís.
The High-Mind And The Disrepute 2020
Þó að bakgrunnurinn sé skorinn í tvennt þá finn ég fyrir nándinni á milli þeirra. Sá með gítarinn er að syngja og tyllir hnéinu til að styðja við gítarinn en vinur hans speglar líkamsstöðuna með því að draga fótinn upp á sessuna. Hinn fótinn tegir hann í átt að gítarleikaranum. Þeir eru berfættir
Hann fitlar munúðarfullt við eyrað á sér.
Mig langar að hitta manneskju úr málverki eftir Lynette Yiadom-Boakye. Mig langar að drekka með henni kaffi. Taka snúnig með henni. Hlægja með henni og hlusta á Miles Davis og Gil Evans.
Ummæli