Zoe Bedeaux

 



Ég veit ekki mikið um Zoe Bedeaux. Lengi hef ég horft á þetta litla vídeó, My Place, á Youtube þegar ég þarf að takast á við vonbrigði með heiminn. Eða þegar það er enn of aftur kominn þriðjudagur sem mun verða nákvæmlega eins og síðasti þriðjudagur. Hin munúðarfulla Zoe hressir mig við þegar ég er alveg að gefast upp á því að lifa lífinu eftir stundatöflu. 


Það heillar mig svo hvað hún virðist ekki vera að reyna að gera einhverjum til geðs eða falla í kramið. Hún er svo ánægð með sig og ber sig svo fallega. Greinilega haldin söfnunaráráttu og ég er fegin að þurfa ekki að taka til hjá henni. 

Hún er svo falleg!                                                                       

Það hringlar í skartgripunum hennar og glampar á líkamann þegar hún hreyfir sig. 




Disco bathroom! 

Síðasta vetur komst ég upp á lag með að njóta þess að fara í bað og hugsaði til Zoe í nánast hvert skipti. Baðherbergið mitt er hvítt og boring eins og svo margt á Íslandi en ég tók með mér uglulampann og slökkti bara ljósið og ímyndaði mér að ég væri eins falleg og Zoe á meðan ég faldi mig í myrkrinu og froðunni. 



Comfort & Joy
stendur á jólakorti sem hún hefur fest á snúru yfir eldavélinni ásamt ýmsum póstkortum. Við hlið þess er kort, líklega af listaverki (sést ekki vel) með rauðum vörum og ég held það væri gaman að matreiða með þessi skilaboð og munninn fyrir augunum. Það er líka póstkort með svarthvítum trúði sem stendur á Harlequins.





Ég er gersamlega heilluð af dramatísku leikrænu tilburðunum. Svona hálfa leiðina að því að verða camp. En í hennar meðförum verður allt bara fagurt og lokkandi. 

Á endalausum þriðjudögum hef ég kannski ekki viðlíka augnayndi en það er hægt að ferðast með alls konar ímyndir í hugskotinu til að skemmta sér við. 

Ummæli

Vinsælar færslur