Gamlársdagur 2020
Jæja, þá er þetta ár sem allir hata að klárast. Þegar ég lít til baka þá finnst mér ég nánast hafa verið ein heima hjá mér í heilt ár. Ég á líklega tiltölulega auðvelt með að vera ein en fyrr má nú aldeilis fyrr vera.
Það sem stendur upp úr er sem sagt hvernig ég hef haft ofan af fyrir mér. Ég verð að viðurkenna að ég hef bara haft það ágætt að mestu leiti. Ég hef verið að vinna í því að þróa með mér afslappað viðhorf til heimsins og lífsins og það hefur gengið mjög vel. Ég hef reynt að einbeita mér að því að finna eitthvað til að hlæja að og skemmta mér yfir og sleppa því að ergja mig yfir hvað heimurinn er glataður. Þetta þýðir að ég hef ekki fylgst með eins mikið og ég hef gert síðustu ár.
I get along without you... er líklega lag ársins. Ég ein að glamra með sjálfri mér í sóttvarnarhólfinu mínu í Skarðshlíðarskóla og pirra mig á að hafa ekki eins djúpa söngrödd og Chet Baker.
Ég hef verið með hugann í París en er ekki viss um að ég þurfi eitthvað endilega að ferðast mikið í framtíðinni. Það hefur svo róandi áhrif að þurfa ekki að vera á einhverju flandri.
Það sem ég er hugsi yfir hvað ég hef eytt svakalega miklum tíma á internetinu. Ég las 53 bækur en ég hef hangið allt of mikið á Youtube að glápa á alls konar rugl. Mér finnst til dæmis gaman að skoða listasöfn og sýningar og líka bara fylgjast með einhverjum ganga um götur Parísar. Í sumar datt ég í að horfa á gamlar franskar myndir og komst að því að það er bara ágæt leið til þess á Youtube. Þær eru ekki þar í heild sinni svo ég fór á bókasafnið og leigði nokkrar. Ég mæli alveg eins með því að fletta upp söguþræðinum á Wikipediu og horfa svo bara á atriðin sem einhver hefur haft fyrir því að setja á Youtube því þau eru best. Tímann sem sparast má þá bara nota til að fylgjast með Skylar Astin eltast við íkorna á veröndinni sinni á Instagram.
Eða horfa á Jonathan Groff leika eitthvað á Youtube. Leika eða syngja, dansa, hlæja, gráta, tala, fíflast í kóngabúningi baksviðs á Broadway eða bara blanda kokteil. Allt saman stórskemmtilegt og bráðnauðsynlegt í einsemdinni.
Í dag ætla ég að horfa á þetta þegar ég er búin að pína mig til að horfa á Kryddslíldina í sjónvarpinu.
Er þá ekki kominn tími til að klúðra bernaisesósunni?
Ummæli