„þetta á eftir að verða verra!“



Þetta gekk illa í dag. Hún skildi ekki afhverju hún hafði valið þetta kaffihús. Hún var að reyna að flakka um en vissi vel að hún hélt sig alltaf á sömu stöðunum. Þetta flakk hennar fór ekkert út fyrir hennar áður kunnuglegu staði. Og það olli vandræðum í dag. Hún stóð þarna og þegar hún fór út með kaffið í pappaglasi þá rifjuðust upp ótal notalegar kaffistundir með alls konar feikilega skemmtilegu fólki og hún vildi bara setjast niður með alvöru kaffibolla og drekka kaffi. En stóð alein úti á götu í leit að ókunnugu fólki. Þetta var svo sorglegt eitthvað. Örvæntingarfullt, og hún varð móðguð fyrir hönd allra vina sinna. Hún þurfti ekki að leita vina með pappamáli meðal ókunnugra! Hún var umvafin fólki á alla skanka sem kepptist við að skemmta henni og samt vantaði hana önnur bros. Hún vildi bara ekki trufla. Og ekki einu sinni trufla ókunnuga í dag.

Það var enginn snjór og allt hafði slaknað eftir jólaösina. Nú voru allir bara heima að hlægja eða ríða. Eða líklega mest að borða…

Hún var ekki í úlpu því það var of heitt. Á Íslandi já. Hún var önug og það var eitthvað svo fjarri öllu að fara að bjóða góðan dag og kaffi. Hún gekk niður Bankastræti án þess að líta framan í fólk og ef hún fengi að ráða þá færi hún beint í Listasafnið. Hvað í heiminum er betra til að rétta af fólk en listasöfn?

Það var svo leyndardómsfullt að standa ein á hljómmiklu parketlögðu gólfinu og öll hjóðin voru ískyggilega útilokuð. Hugsanir hafa örugglega sérstakan filter í listasöfnum er það ekki? En þær eru ekki óvelkomnar. Og það er svo fjandi hressandi. Það eru ekki margir staðir sem bjóða upp á hugsanir. Allir agaðir, lærðir staðir eru til þess að læra að hugsa. Að hugsa eitthvað ákveðið. En fólk kann svo illa við listasöfn vegna þess að öllum er slétt sama hvað þú hugsar þar. Þú hefur risastórt parketlagt gólf til að valsa um. Veggirnir eru stórir og þar hanga örmáar hugsanir. Myndir. Afskræming á lífinu. Undir kastljósi en þú þarft ekkert að dansa þar frekar en þú vilt. Þar hanga engar réttar hugsanir. Bara afskræmignar. Og hún var þyrst í þær. En hún hélt sig innan ramma og þrammaði niður götuna og endaði við tjörnina.

Þar voru argir fuglar. Hún hafði eitthvert sumarið staðið og reynt að læra nöfn þeirra og útlit, en gat ekki staðið meira á sama núna. Búin að gefast upp á fuglum.

Svo var hún þarna líka. Eða var hún kannski ekkert þarna? Hún sat á bekk og sveiflaði gulleitum leggjum, eða eitthvað var gult og svo var hún í sokkum í mörgum lögum sem voru í öllum litum. Minnti á Línu langsokk, en þetta var allt saman alveg svakalega smekklegt. Hún var í flatbotna uppreimuðum skóm og í síðri kápu sem gæti hafa verið úr leðri. Hún var með ljóst sítt hár og svona „listaháskólaljótgleraugu“. Hún var samt greinilega falleg. Með stór og greindarleg augu.

Kannski var það fyrst ljótt fólk sem tók upp á því að bera ljót gleraugu til að fela ljótleikann, eða sætt fólk sem vildi fela sætuna. En það er erfitt að fela það sem er fallegt og það sannar ljótugleraugnatískan. Þeir sem eru ljótir verða enn ljótari með ljótum gleraugum og þeir sem eru fallegir tekst ekki að fela það með ljótum gleraugum. Smá óþolandi að þó að mannleg skynjun virðist vera meira og minna brengluð þá er hún mjög fljót að spotta út fallegt fólk. En oft er flagð undir fögru skinni. Auðvitað. Svo þarna er kannski enn einn misskilningurinn?

Hvort sem hún var þarna raunverulega eða ekki þá fannst Kaffikerlu hrein himnasending að finna fyrir henni þarna við illa lyktandi tjörnina. Þær þurftu ekki að segja neitt. Þær voru bara þarna saman í ærandi hávaðanum frá fuglunum og rokinu. Þær skulfu báðar örlítið úr kulda en hún reyndi að hlýja með því að taka utan um hana. Ekkert innilegt, heldur bara til að halda á hita, enda leit hún ekki af tjörninni eins og þar væri allt að sjá. Sagði samt:

„þú ert heit“ -eins og það væri í frásögur færandi
„já, svona forðaði fólk sér frá dauða“ -svaraði hún að reyna að vera fyndin

Það var samt í rauninni ekkert svakalegt að gerast á tjörninni. Að því gefnu að hversdagsleg lífsbarátta sé ekkert merkileg. Allt þetta hafði gerst marg oft áður. Það er nú samt þannig með tilfinningar að þær verða ekkert minni við þá vitneskju að lífið hafi einhverntíma áður tekið svipaðar dýfur. Hjartað slær alveg jafn lífsnauðsynlega fast næsta slag á eftir, þó svo að enginn efist um að hjartað hafi gert þetta marg oft áður.

Þær sátu þarna nötrandi um stund en svo sagði stelpan allt í einu hátt og sjallt:

„og þetta á eftir að verða verra!“

-svo hlógu þær báðar tryllingslega. Bæði til að fela angistina fyrir framtíðinni og til að stappa í sig stálinu.

Hún ímyndaði sér að hún gæti setið þarna skjálfandi og horft á lífið skauta fram sjá sér eins og tjörnin væri bíóskjár sem varpaði lífinu fram. Hún hefði þó að minnsta kosti þessa stelpu með sér til að halda utan um á meðan. Henni fannst hún leysast upp og tók ekki eftir því að hún sveif upp Skólavörðustíg og rakleiðis að grútskítugum bílnum sínum sem var engan vegin hægt að troða niður í algleymi sögunnar. Þó svo hann væri í stíl við tjörnina. Heldur harkalegt að hrapa niður við Hallgrímskirkjuturn en alls ekki niður úr honum svona þegar mann langar ekkert í næstu daga. Eða þarnæstu.

Líklega voru þetta bara fokdýrar sokkabuxur úr Kronkron. Engin Lína langsokkur. Stelpan raunverulega dásamleg. Alveg óþarfi að vera að skálda hana upp. Þannig heldur maður sér í dagana. Hangandi í raunverulegu dásanlegu fólki.

Hvað varð eiginlega um kaffið?





(Kaffisögur voru skrifaðar árið 2012)



Ummæli

Vinsælar færslur