Egill



Það var kalt og hún hugsaði með sér að það hefði verið skemmtilegra ef Skífan hefði enn verið þarna. En nú var þarna virðuleg fatabúð með rándýrum flíkum sem báru nöfn frægra hönnuða en voru trúlega allar framleiddar í Kína af bláfátæku hungruðu fólki. Hún dáðist að kaffibollanum og var þakklát fyrir að hafa svona fallega mynd á kaffimálinu. Hún stóð keik með þeirri skoðun að kaffi eigi að drekka úr alvöru bolla en fyrst hún varð að gera sér ‘gervimál’ að góðu, var gott hvað það var fallegt.

Hún var enn að hugsa um Skífuna og geisladiskana sem hún hafði keypt þar þegar hann kom röltandi til móts við hana. Örlítið með axlirnar framkeyrðar eins og honum væri kalt, húfulaus og fallega dökkhærður með ungæðislega strákaklippingu. Ósjálfrátt gelti hún strax á hann – „viltu kaffi“
Hann var enn of langt í burtu til að heyra í henni en hún hafði náð athygli hans og þegar hann kom nær var hún búin að safna kjarki og sagði eins og henni var lagið:

„Góðan dag, má bjóða þér kaffi?“

Hann var hávaxinn og brúneygður með dökka skeggrót. Sveiflaði höndunum svona smá eins og unglingur sem vissi ekki hvernig hann átti að bera sig, eða kannski var hann bara vanur að hreyfa sig mikið og hafa hendurnar ekki alltaf fastar með hliðum.
Ókei, ‘hávaxinn og brúneygður’ eru bara svona látlausar staðreyndir en í ofanálag var hann með skelfilega fallegar varir og féll óþægilega inn í þann ramma að vera krúttlegur og karlmannlegur á sama tíma. Alveg banvæn blanda á svona köldum desembermorgni og hún hallaði sér að honum,

- hallaði sér freklega að honum og rétti honum kaffimálið en varð fyrir vonbrigðum með að hann ilmaði ekkert. Ekkert. Örugglega nýbúinn að fara í sturtu. Líklega fer hann í sturtu oft á dag. En hana langaði samt lítið að færa sig frá honum.

„ég drekk ekki kaffi“ sagði hann og hló. Þessum undarlega hlátri svona eins og hann sé á offbítinu. Sem sagt skransandi á innönduninni, og það fannst henni mjög fyndið svo hún hló líka, og þá hló hann enn meira…
Henni fannst svo æðislegt að enn væri til fólk sem gæti hlegið svona dásamlega fáránlega.

„hvað heitirðu?“
„Egill, en þú?“
„Drekktu“- skipaði hún

það var eins og hann tæki þá fyrst eftir því að hann hélt á fallega kaffimálinu í höndunum og hann drakk hlýðinn en án nautnar.

-‘viltu ríða’ hugsaði hún en sagði „og?“
„mér finnst kaffi ekki gott“

og svo hló hann meira af þessum skrýtna hlátri og hún hló með honum. Hún velti því fyrir sér hvort honum hefði einhverntíma verið strítt á þessu. En aðallega var hún að hugsa um hvað hana langaði mikið að kyssa hann.

„jæja, Egill, komdu með kaffið mitt“ sagði hún og reif af honum kaffimálið

hún flýtti sér að drekka af kaffinu eins og þannig næði hún eins konar kossi

„Gangi þér allt í haginn!“

Það er eitthvað bogið við þessa sögu. Það vantar í hana alvöru kossa. Og örugglega eitthvað fleira.

Ummæli

Vinsælar færslur