Arnaldur
„Góðan dag, má bjóða þér kaffi?“
„nei, hæ!“
„hæ“
Hún hafði alltaf kunnað svo vel við hann. Þau höfðu verið saman langan vetur í umræðutímum þar sem flest annað en umræðuefnið var rætt. Meira þekktust þau ekki. Það var eitthvað sérstakt við hann. Var að reyna að vera svaka töffaralegur en hafði svo fallega einlægan áhuga á fólki. Og kunni að sýna hann. Væri örugglega svaka góður í að taka viðtöl.
„Ert þú ekki búin að klára?“
„jú ég er í framhaldsnámi, en þú“
„nei, ég er alveg að klára. , en sko já kaffi alveg einhverntíma já…“
- ónei, hann hélt hún væri að bjóða honum í kaffi,,, alvöru kaffisamsæti!
„en ég er að fara í tíma núna, má ég ekki bara hringja í þig?“
Frábært, hvernig ætti hún að koma sér út úr þessu? Var hún svona skelfilega daðursleg á svipinn að honum datt ekki í hug að hún vildi bara pranga upp á hann kaffi vegna einhverrar klikkaðrar tilraunastarfsemi? Allt í einu mundi hún eftir því að hann spilaði fótbolta og fékk borgað fyrir það. Þar sem hún hreyfði hvorki mót- né meðmælum hélt hann áfram, og það rjátlaði á vandræðagangi
„geturðu þá gefið mér símanúmerið þitt?“
„já,, já, auðvitað“
hún filtaði við töskuna sína eins og hún þyrfti að finna símanúmerið í töskunni, fletta því upp á netinu eða eitthvað.
„eða bara, viltu ekki bara senda mér tölvupóst frekar?“
„ókei“ – sagði hann frekar undrandi
- já, einmitt,,, flott, tölvupóst!, eins og það sé betra…
og hann hélt áfram:
„ég hérna, ég er á lausu sko, en þú, ég hélt að, já að þú værir,?“
„en hvernig líður hundinum?“ - greip hún fram í fyrir honum
„hann er bara hress“ sagði hann brosandi, hún fann allt í einu að hann skildi alveg vandræðaganginn í henni, „hann stækkar og mér gengur voða vel að ala hann upp“
- hann hafði meira að segja bara nokkuð fallegt bros.
„gott að heyra, hérna,
- og henni datt í alvöru í hug að spyrja –‘alltaf í boltanum?’
ég skal senda þér tölvupóst, bara á háimeilið“
“ókei, sagði hann hlægjandi, eins og þú vilt“
„ókei, sagði hún, - og þau flissuðu bæði að vandræðaganginum.
Hún var næstum búin að hlaupa á eftir honum og segja honum bara frá öllu saman. Segja honum frá tilrauninni. Frá því að hún hefði bara ekki hugmynd um hvað hún ætti að gera við sig í lífinu. Segja honum frá því að hún hefði alls ekki í hyggju að senda honum tölvupóst og það væri næstum bara vegna þess að hann spilaði fótbolta.
En hún beið bara stíf á ganginum þangað til hún var viss um að hann væri farinn. Hann hafði talað svo mikið um hundinn að henni fannst hálf sárt að hún myndi aldrei fá að hitta hann.
Kaffisögur (2012)
Ummæli