Náttúruleg skáldsaga - Georgi Gospodinov
"I started to write out of fear"
Gospodinov virkaði einstaklega hjartnæmt á mig. Já, það er orðið - hjartnæmt.
Hann var gestur á bókmenntahátíð og ég fór að hlusta á viðræður við hann í Norrænahúsinu.
Hann sagði frá því þegar hann var lítill og var alltaf að fá martraðir og var að segja mömmu sinni frá hærðilegum draumum að mamma hans sagði honum að hann ætti aldrei að segja frá vondum draumum. Þá gætu þeir nefninlega ræst. Svo hann fékk sér litla bók og fór að skrifa í hana vondu draumana sem ekki mátti tala um upphátt. Svo smám saman urðu þessar draumaskráningar að ljóðum.
Krúttleg saga af því hvernig hann varð ljóðskáld. En hann virtist ekki hafa gleymt hræðslunni samt því hann hélt áfram að segja frá því að það var ekki fyrr en hann var orðin býsna meðtekinn sem ljóskáld að hann skrifaði skáldsögu. "Mér gekk vel svo ef ég myndi klúðra skáldsögunni þá væri ég alltaf ljóðskáld, það væri allt í lagi að mistakast". En hann vildi ekki skrifa venjulega bók. Heldur bók sem innihélt bara upphöf á sögum. Á fyrstu 14 blaðsíðunum í bókum gerist aldrei neitt slæmt, sagði hann og leitaði að skilningi í andlitum áhorfenda. Hann virtist vita að jafnvel í hans eigin skáldsögu myndi á endanum eitthvað martraðarkennt henda.
"Mér hefur verið sagt að hún sé fyndin á íslensku en á búlgörsku er hún dramatísk."
Maðurinn er skilinn við konuna sína og rígheldur sér í hversdagslega hluti. Úff, hvað ég skil hann vel. Og mig dauðlangar einmitt í ruggustól til að róa mig. En ég deili ekki áhuga hans á flugum og klósettum.
Hann sagði svo frá nýrri skáldsögu sinni sem heitir á ensku Physics of Sorrow (2012). Í landafræði hamingjunnar er Búlgaría staðsett á botni óhamingju. Það er hennar sérsvið. Þess vegna fannst honum hann geta skrifað um eðli harmsins. Hann sagði líka að orðið hljómi á búlgörsku eins og maður sé með öndina í hálsinum. Harmur stendur Búlgörum nær en svo mörgum sem sagt. Íslendingar virðast kannski svo hamingjusamir vegna þess þeir sjá bara harminn í spaugilegu ljósi?
"Hér í heimi er alla tíð löng röð af fólki sem grætur og síðan styttri röð af fólki sem hlær. En svo er líka þriðja röðin sem hvorki grætur né hlær. Hún er dapurlegasta af þessum þremur. Það er hún sem ég ætla að tala um." (bls. 7).
Hann horfði skelfdur á mig þegar ég sagði honum nafnið mitt, og beið eftir því að ég hjálpaði honum út úr þessu. "It starts with a K" sagði ég og brosti uppörvandi
"yes, K is just fine" sagði ég þegar hann hafði skrifað: To K
hann varð ægilega feginn og bætti við: naturally - G.
Og bætti svo við dagsetningunni. Ég er alls ekki fyrir svona áritanir en eftir umræðurnar stóð hann beint fyrir aftan mig og var að árita fyrir einhverja aðra svo ég sló til. Mig langaði líka einhvernvegin að tala við hann, langaði til að segja honum að ég hefði lesið bókina og líkað hún. Að gleðja hann. Og það tókst :) "Are you a writer also?" spurði hann. "No" svaraði ég.
Ummæli