Erró

Ég skoðaði það sem hangir uppi af verkum Errós í Hafnarhúsinu í gær og það gerðist svolítið sem gerist ekki oft þegar ég skoða list. Ég var ægilega mikið að velta því fyrir mér hvernig þetta var gert. Þetta voru mest grafíkverk sem voru unnin með mismunandi aðferðum en það er eitthvað líka alveg sérstakt við hvernig Erró vinnur verk. Samblanda af málningu, klippimyndum og hárfínum teikningum líkt og myndasögur eru gerðar með gera það að verkum að maður veit eiginlega ekki hvað er málað og hvað er prentað.

















En það er annað sem heillar mig meira en handverkið og það er áreitaofgnótt. Þessi sýn á heiminn ætti að vera orðabókaskilgreining á nútímanum. Öllu ægir saman og varla er nokkuð sem er það merkilegt að það nær að standa upp úr suðinu. En með því að festa það niður nær maður kannski um stund að átta sig á einhverju samhengi. Eða bara átta sig á samhengisleysi. Að allt er keimlíkt og hangir saman án þess að hafa einhverja eiginlega merkingu.

















En verkin eru oft tilraun til þess að setja í samhengi. Finna merkingu, eða amk eiga myndirnar að merkja eitthvað. Það er hægt að lesa titla og lesa sögubækur og gúggla og veltast um til að komast að þeirri merkingu sem hrúgast þarna fyrir augunum á manni. Eða bara horfa og undrast yfir því hvernig ólíkir heimar og ólíkar hugmyndir tengjast. Reyna að búa til merkinguna úr svipbrigðum og afstöðu hlutanna. Þetta eru ekki teiknimyndasögur þar sem sagan er mötuð ramma fyrir ramma heldur teiknaðar sögur með því mannlega sjónarhorni að allt er í raun í belg og biðu og það er yfirleitt engin samfelld lína í því hvernig sögur eru skynjaðar. Hvernig lífið er skynjað.

















Ég játa fúslega að ég veit ekkert um list og veit ekkert hvernig á að taka hana inn. Það á ég allt saman eftir að læra. En það sem dregur mig að myndlist er á einhvern undarlegan hátt hvernig hún á öðruvísi samtal við mig en tónlist. Tónlist er inni í taugakerfinu. Hún flæðir um æðarnar eins og hún sé bókstaflega hluti af líkamsstarfseminni. Skáldsögur eiga samtal við samfélagslega upplifun. Samskipti við fólk og nærir forvitnina um hvernig allir hinir hugsa og skilja heiminn. En það sem heillar mig við myndlist er hvernig hún nær að rugla mig í ríminu. Eða rýminu. Hvernig hún nær að afbyggja það sem ég hafði fyrir satt og sýna mér hlutina í öðru ljósi og öðru samhengi. Hún á samtal við hugmyndir mínar þannig að það er í lagi að það sé svaka heimskulegt eða ægilega "listrænt". Og, sem er  ekki síður mikilvægt, það er í lagi að ég skilji það ekki alveg. Geti ekki alveg fest á það fingur því það er í raun ekki rökrétt. Þetta er heimur þar sem rök skipta bara ekki máli! Og það er svo frelsandi fyrir hugann.

Enn meiri samræða; hér er verk eftir Modigliani






















Og neðra verkið eftir Erró "Sú fagra útafliggjandi eftir Modigliani, sogin af mótor" (1963)

Er þetta skondin ádeila á kynlíf nútímakonunnar?   

Ummæli

Vinsælar færslur