Buika á Listahátíð 2012



Tónleikarnir fóru fram fyrir fullri Eldborg viku seinna en áætlað var en ég veit ekki hvort fjöldi flytjenda skýrist af seinkuninni en Buika hafði verið veik og einnig, eins og hún sagði tónleikagestum, að takast á við sambandsslit. Hún vildi þó ekki taka við aumkunarópum tónleikagesta og sagðist vera hin ánægðasta með málalyktir. Hún var þó nokkuð æst í að ræða ástina og lífið við tónleikagesti, var persónuleg eða jafnvel svolítið upptekin af sjálfri sér í stað tónlistarinnar og okkur vinkonunum kom saman um það eftir tónleikana að hún væri líklega kolklikkuð*.

Hún sýndi og sannaði að hún er hörkusöngkona og virtist sem svo, að talið væri nóg, að hún kæmi ein fram og syngi með sérstöku röddinni sinni til að halda uppi heilum tónleikum. Það var því miður ekki alveg svoleiðis. Henni til halds og trausts voru gítarleikarinn René Toledo og Ramón „Porrina“ Suárez Escobar sem spilaði á galdrakassa sem kallaður er cajon. Báðir stóðu sig með stakri prýði en það hefði bara þruft meira til að tónlistin myndi njóta sín sem best. Tónlistin einkennist af flamenco og stundum jazzi og það hefði þurft annan gítarleikara til að flamencoið næði fótfestu. Eða bassaleikara. Píanóleikara fyrir jazzinn. Gítarleikarinn var eðli málsins samkvæmt fastur í því að halda öllum hljómheimi tónlistarinnar uppi og gat því lítið leyft sér að spila laglínur og krydda tónlistina tilfinningu. Það vantaði meira kjöt á beinin, ég vildi heyra tónlist en ekki bara í frábærri söngkonu. Þetta er kannski ægileg frekja í mér...
Ég minnist tónleika Lhasa de Sela sem voru hér árið 2009 á Nasa (og voru ekki hluti Listahátíðar heldur hliðarhátíðar sem tileinkuð var heimstónlist) og þar var ekkert til sparað. Nóg af hljóðfæraleikunum og unaðslegri tónlist. Tónlistarhúsið Nasa var ekki eins fansí en þegar að tónlist kemur þá bara toppa steypa og stál ekki hljóðfæri og hljóðfæraleikara.



P.S. Ég er auðvitað fanatískt á móti reykingum en það er eitthvað svo dásamlega „pólitískt órétt“ við svona sígarettumyndir að ég stenst ekki mátið.

* Hér er „kolklikkuð“ ekki endilega áfellisdómur um geðræn vandamál sem greinanleg eru eftir kvörðum sálfræðinnar.

Ummæli

Vinsælar færslur