Kammertónlist



Ótrúlega flottur listamaður og ég klikkaði niður á þetta í rigningunni og rokinu. Hún stendur fyrir sumartónlist í mínum huga en síðasti diskurninn hennar var þyngri og dekkri og skaut skökku við. En ég keypti hann og hlustaði á fyrir tónleika sem hún hélt í maí 2009 hér á Nasa í Reykjavík. Þá var hún að hefja tónleikaferð með nýjustu plötuna sína en sú tónleikaferð var aldrei farin því Lhasa de Sela dó 1. janúar árið 2010 eftir baráttu við krabbamein. Og allt í einu var það svo skýrt afhverju diskurinn var svona þungur. Hvers vegna hún grét á tónleikunum á Nasa. Á þessum myndböndum sem voru tekin upp í Montreal í apríl 2009 sést hvernig hljómsveitin býr sig undir tónleikaferðalagið með nokkra þakkláta áheyrendur í kring um sig. Myndatakan er mjög flott þó að ekki sé hún beinlínis flókin en ég fæ það á tilfinninguna að dauðinn vofi yfir. Eða kannski er ég bara svona svakalega dramatísk. En öll myndatakan í gegn um hörpuna og svo er eins og við séum nú þegar farin að sakna Lhösu. Sjónarhornið er gjarnan aftan á hana. Við erum þegar farin að sjá á bak henni.




Þetta er greinilega kammertónlist í orðsins fyllstu merkingu því hún spjallar vinalega við áheyrendur og hlær dátt. Hugsanlega er þetta eins konar kveðja- requiem.



Ég er svo þakklát fyrir tónlistina hennar og ég hvet ykkur til að horfa á myndböndin. Þau gerði greinilega einhver sem deilir með mér þakklæti fyrir Lhasa de Sela.

Ummæli

Fjóla Dögg sagði…
Gæsahúð á gæsahúð ofan. Ég lít á þessa tónleikaröð og það að þetta sé allt dokjúmenterað á þennan hátt sé ákveðin kveðjustund á milli hennar, hljómsveitarinnar og góðra vina. Ég sakna þess svo að fá ekki meiri tónlist frá henni. Ég er sammála því með diskinn, ég vissi ekki að hún væri veik fyrr en hún var dáin. Ég er svo þakklát fyrir að hafa náð að sjá hana á tónleikum live og í seilingarfjarlægð.

Vinsælar færslur