Manuel Alvarez Bravo - „Día de todos muertos“


Svipurinn á stelpunni óborganlegur. Er hún að glotta eða pírir hún augun vegna þess að birtan fellur á þau?

Svo heldur hún á heklaðri hauskúpu?
Eða er hún úr plasti? Hún er með kross um hálsinn í stíl.

Þessi mynd fangaði athygli mína og ég fór að grafast fyrir um hana. Finna hvað „Día de todos muertos“ þýðir, greinilega eitthvað um dauðann og það skýrir væntanlega hauskúpuna. Grúskið kenndi mér að titillinn á myndinni er vísun í Dag hinna látnu sem er haldinn hátíðlegur í Suður- Ameríku. Stórkosleg hugmynd, að heiðra látna ástvini einn dag á ári og hefðirnar hljóma svo fallega þó svo að þær séu flestar kenndar við calaveras eða; hauskúpur. Ég hef alltaf tengt hauskúpur við andóf og anarkisma en ég held ég muni sjá þær í nýju ljósi eftir daginn í dag. Kalla þær calaveras, það hljómar svo vel.

Hauskúpan er líklega ekki hekluð eins og mér sýndist heldur gerð úr sykri. Á þessum degi er útbúið altari þar sem sykurlegnar hauskúpur eru dýrkaðar. Hinum látnu er færður sá matur sem þeim líkaði í lifanda lífi og þeim drukkin skál. Lautarferð í kirkjugarðinn þar sem leiði eru skreytt og hinna látnu minnst með því að njóta þess sem hinir lifandi einir geta notið; matar og drykkja. Mér finnst þetta dásamlega falleg hugsun. Bakað er pan de muerto sem er sætt kringlótt brauð oft skreytt með einhverju sem minnir á bein!

Beinagrindur og hauskúpur minna mig á eitthvað dimmt og skelfilegt og myndi gera allt til þess að strákarnir mínir þyrftu ekki að líta svoleiðis óskapnað augum. Ég efast stórlega um að ég myndi baka handa þeim dauðabrauð og skreyta það með beinagrind. Heillandi að vita til þess að annars staðar í heiminum alast börn upp við sykurhauskúpur og minnast ömmu og afa með tekíla í kirkjugarðinum.


Í dagblöðum birtast háðs- eða skemmtiminningargreinar um þekkt fólk og meðfylgjandi eru teikingar af beinagrindum. Fræg er La Calavera Catrina eftir mexíkóska teiknarann José Guadalupe Posada.


Kannist þið ekki við þessa mynd? Myndast hefur sterk hefð fyrir yfirstéttarkonunni Catrinu í höfuðkúpulíki.

Sykurgerðu hauskúpurnar eru gjarnan með útskornu nafni ástvinarinns sem minnst er á enninu. Á hauskúpu stelpunnar stendur AMOR. Er hún að fagna því að ástin sé dauð? Er það þess vegna sem hún glottir stelpuskömmin...?



Ummæli

Vinsælar færslur