Kaffikerla í gulum kjól

Í dag ætlar Kaffikerla ekki að vera á Íslandi. Hún vaknaði kannski í Garðabæ en í svefnrofunum fann hún að hún var í rauninni í ókunnugu rúmi undir hvítu laki. Hún fann fyrir gormum í dýnunni og það eru engir gormar í hennar eigin dýnu svo hún var alveg örugglega ekki þar. Svo fann hún hvað hún var klístruð og þvöl um allan kroppinn og vissi þá að hún var komin þangað til þess að ylja sér aðeins. Svo hún ákveður að vera þar í dag og hlakkar strax til þess að drekka kaffið sokkabuxnalaus. Hún gæti í raun verið hvar sem er þar sem sólin er brennheit allan daginn og loftið rakt. En hún heyrir spænsku þegar hún kveikir á útvarpinu svo hún hlýtur að vera á Spáni. Hún ákveður það að minnsta kosti í bili. Það eru rimlar fyrir öllum gluggunum á húsinu og hún vonar að hún hafi lykla til að komast út. Undarlegt að til þess að halda þjófum frá læsi fólk sjálft sig í fangelsi. Kaffikerla er örugglega á Spáni. Hún veltir því fyrir sér hvort hún sé við sjóinn. Eftir óþarflega kalda sturtu finnur hún fallega gula kjólinn. Hann er í grunninn hvítur en alsettur stórum gulum og glennulega glaðlegum blómum sem bera þess merki að hafa verið sérstaklega teiknuð til þess að vera prentuð á efni í sumarkjól. Hún sér að hann er nokkuð þröngur og vonar að hann passi. Þetta væri auðvitað glötuð saga ef kjóllinn passaði ekki. Hún hefði kosið víðan kjól því það er miklu þægilegra í hita og raka en hún er heilluð af gulu blómunum og ákveður að prófa. Hún finnur hvernig rennilásinn rennur fullkomlega frá mjöðmunum og upp eftir mittinu og hlær því hún elskar skáldskap. Hann er ekkert víður í mittið. Henni dettur ekki í hug að leita að hafragraut í þessu húsi heldur ætlar sér að borða eitthvað dásamlega óvænt í morgunmat og er viss um að í þessari sögu verður bara gott kaffi. Unaðslegt kaffi.

Hún valdi hvíta sandala með smá hæl í stað svartra flatbotna og vonar að hún muni ekki sjá eftir því seinna. Flissar pínu yfir því hvað það er fáránlega flókið að vera til og gerir sér grein fyrir að hún hefði ekki þurft að maka sig út í sólarvörn því hún er viss um að hún hefði getað strokað sólbruna úr sögunni. Hún er örlítið svekkt yfir því að hafa gleymt að taka með sér bók því ef það er eitthvað sem hún lærði af strætóferðum í menntaskóla þá er það að ef þú hefur bók með þér þá leiðist þér aldrei. Þetta er hugsanlega það mikilvægasta sem hún lærði í menntaskóla. Að hafa alltaf með sér bók. En um leið og hún finnur hitann knúsa hana þegar hún kemur út gleymir hún öllum bókum og man að hún verður að einbeita sér að umhverfinu. Til hvers væri þetta ferðalag annars? Hún er pínu völt á hælunum því gatan er hellulögð og hallar í allar áttir. Hana langar að ganga í sólinni til að finna hana baka sig en stillir sig um það. Hún röltir bara eftir þessari löngu götu og hlustar á fólk vakna til lífsins. Í þessum húsum eru örugglega hrúgur af börnum mötuð og klædd. Fullt af fólki í sturtu. Einhverjir enn í rúminu. Hún ætlaði að gefa sér góðan tíma til að finna stað fyrir kaffi en hún er ægilega kaffiþyrst og velur eiginlega bara fyrsta staðinn sem hún gengur fram á. Hann er lítill og þröngur og alls ekki eitthvað ferðamannaaðlaðandi en ilmar og úti er hægt að setjast við pínulítil borð undir sólhlíf. Kaffikerla skreppur saman þegar hún áttar sig á að hún kann ekki að panta kaffi á spænsku. Akkúrat, hún hefur setið margar vikur og lært hljóðeðlisfræði sem hana langaði ekkert að læra en hún hefur ekki lagt sig eftir því að læra að panta kaffi á spænsku! Hún pantar afsakandi kaffi á ensku en hefur enga matarlyst og sest lúpuleg við hliðina á gömlum hjónum sem jappla letilega á brauði. Eða kannski eiga þau bara svona erfitt með að tyggja. Aðeins fjær sitja kappklæddir karlar við borð og ræða hátt saman. Hún ákveður að fá sér ís á eftir. Gelado. Fallegt orð.

Svo röltir hún. Hún fer hægt yfir og nemur oft staðar til að athuga hvort hún sjái nokkuð sjóinn. Eða fallegt blóm. Það er allt fullt af blómum en það er auðvelt að láta þau fara fram hjá sér þegar maður þarf að hugsa upp hverja einustu steinflís í götunni. Hvert einasta hús og hvern einasta glugga. Hún finnur hvernig ryk sest á milli tánna og hvernig sólin borar sér ofan í hársvörðinn. Bráðum verður hún að fara inn því það verður of heitt. Hún hefur aldrei skilið hvernig fólk fer að því að koma hlutum í verk í þessu landi því það er bókstaflega ólíft yfir hádaginn vegna hita. Hún finnur dásamlegt kaffihús sem er eiginelga grafið inní blómaskrúð. Bak við blómahafið eru veggirnir rauðmálaðir. Hér drekkur fólk kaffi úr stórum bollum og það hentar henni vel. Enn pantar hún kaffi á ensku en fer ekkert í kleinu yfir því í þetta skiptið. Reynir bara að brosa til að bæta upp fyrir kunnáttuleysið. Konan sem afgreiðir hana er með risastórt rautt blóm í hárinu og hrósar henni fyrir fallega kjólinn með dásamlegum hreim. Gul og rauð blóm heilsast með hreim á tungumáli sem fáir elska en allir virðast nota til að eiga samskipti með og lífið er dásamlegt í nokkrar sekúndur. Svona eins og þegar allt smellur saman í tónlist. Fjórar sekúndur.

Borðið er pínu valt því það stendur óheppilega á steinhellu og Kaffikerla verður að einbeita sér að því að kaffið sullist ekki út um allt í smá stund. Svo fer hún að slaka á þegar minnkar í bollanum. Hinum megin við götuna situr maður með ístru á veiklulegum stól sem virðist alveg geta gefið sig á hverri stundu. En maðurinn er sallarólegur og leggur aftur augun makindalega. Kannski er konan hans inni að spæla handa honum egg. Það er mikil ást í spældum eggjum. Kannski stafar ástleysið í heiminum af því að fólk er farið að borða seríós í morgunmat. Fólk er hætt að gera morgunmat hvort fyrir annað. Það hellir sér bara mat í skál og borðar. Þá tapast ástin. Hún þarf bæði frygð og matarást til að þrífast. Kaffikerla man eftir því að hún og gamli kærastinn hennar elduðu alltaf harfagraut á morgnana fyrir hvort annað. Þau reyndar slógust um að fá að gera grautinn því hún vildi hafa hann þunnan en hann þykkan. Enda hættu þau saman. Það er vandlifað. Skondið að nú borðar hún hnausþykkan hafragraut á hverjum degi.

Svo undarlegt hvernig allt sofnar í hádeginu. Allar litlu raftækjaverslanirnar loka og allar hinar líka sem selja alls konar drasl. Og hvert fara allir? Bara heim? Hún veltir því fyrir sér hvort einhverjir fari alltaf heim og ríða. Í hverju hádegi. Stundum svolítið letilega en það er ekkert betra en að vera nakin í hitanum. Og saman. Hún sér hann fyrir sér dásamelga dökkhærðan og einhverra hluta vegna að tala frönsku. Hún er,,,,, já,,, hún er örugglega líka dökkhærð með fallega liðað hár. Hún finnur afbrýðisemina drjúpa af hverju einasta glula blómi á kjólnum hennar. Afhverju er ekki hægt að sjá fyrir sér ljóshærðar munúðarfullar konur? Þær eru bara í Ameríku með útblásin sílikonbrjóst. Klámfengnar. Hvað með smábrjósta ljóshærðar konur? Hvar eru þær eiginlega? Þær eru barnalæknar að bjarga heiminum í Svíþjóð eða hipp og kúl hönnuðir í Kaupmannahöfn. Veldu nú Kerla mín.

Hún þrammar þrjóskulega heim í sturtu. Lætur vatnið buna lengi eins og hún geri sér alls ekki grein fyrir að hér er ekki í lagi að bruðla með vatnið eins og á Íslandi. Er alveg fjandans sama. Henni tekst illa að skola ólundinni niður og situr blaut á baðbrúninni á meðan vatnið lekur hægt af henni. Bráðum verður hún öll aftur þvöl af rakanum. Hún fer í hvítan kjól fattar að hún er glorsoltin og fer að athuga hvort hún finni ekki eitthvað að borða í húsinu. Hún finnur eina risastóra krukku af fylltum grænum ólífum og stóra hvítvínsflösku. Vino Blanco. En eldhúsið er dásamlega fallegt og litsktrúðugt. Í öllum skápum eru litrík föt og diskar og glös og allt saman í yfirstærð. Hún hlær upphátt því það er eins og hún sé þumalína í þessu stórskorna eldhúsi. En þar er enginn matur svo hún hellir ólífunum í fallega skál á fæti sem ætti eiginlega að fara undir ís eða rjóma og hellir sér víni í flöskugrænt glas. Kveikir á útvarpinu og hlustar á þetta fallega tungumál sem hún skilur ekki orð í.

Hún fer í hvítum kjól og hvítum skóm með hvíta húð og hvítt hár og hvítt vín í æðum á markaðinn og kaupir eldrauð blóm. Hún er eins og engill með horfinn geislabaug því alvöru englar hugsa ekki um annað fólk ríða. Hún setur blóm í hárið og kaupir rauða papriku, tómata, rauðlauk, humar, rauðvín og rauðar pylsur. Chorizo. En hún finnur ekki súkkulaði og sér ekki sjóinn. Hún veit hún þarf að komast heim að sjónum. Þó þar séu engir selir. Hún gæðir sér á humri með hvítlauk og hugsar um strákana sína. Klukkan fimm fer hún að sækja þá. Loksins þá sér hún sjóinn.
„mamma, má ég fara til Péturs? Við sáum marglyttu í dag“
„vaaá!, náðuð þið að veiða hana? Ég sá fullt af blómum í dag“
„nei, þær stinga mamma, það má ekki koma við þær“
„já, auðvitað, blómin stinga líka, en á eftir skal ég gefa ykkur svolítið gott. Það heitir gelado, finnst ykkur það ekki fallegt orð? Á ég að segja ykkur hvað það þýðir?....“

Ummæli

Vinsælar færslur