Vivian Maier




Kaffikerla er með höfuðið fullt af gömlum ljósmyndum þessa dagana. Hún elskar að fletta ljósmyndabókum á kaffihúsi með unaðslegan kaffibolla og ná að flýja tímann í smá stund. Skemmtilegast finnst henni að skoða myndir af fólki. Helst óþekktu fólki. Fréttaljósmyndir eru alveg áhugaverðar en þær eru oftast flestar af stríði og ofbeldi og það er svo þreytandi að hún er farin að forðast svoleiðis myndir nema skapið sé sérstaklega til þess fallið að fást við ógæfu raunveruleikans. Það skap lætur sjaldan á sér kræla. Það er allt of mikið af raunveruleika þessa dagana. Ódælum. Og í einni af þessum tilraunum til að gera sér dælt við fortíðina og tapa sér í þáþránni kynntist hún Vivian Maier. Eða öllu heldur myndunum hennar en Vivian var víst ekki vinamörg þegar hún lifði og var örugglega ekki fyrir það að kynnast forvitnu kaffiþyrstu fólki. Hún var einfari sem vann fyrir sér sem barnfóstra í Chicago og myndaði annað fólk í frístundum. Hún fæddist í New York árið 1926 og ólst upp í NY og Frakklandi. Hún eignaðist ekki börn. Tvennum sögum fer af því hvernig barnfóstra hún var en hún vildi halda herberginu sínu út af fyrir sig og fyllti það af kössum með filmum. Hún framkallaði ekki myndirnar sínar og sýndi þær aldrei nokkrum manni. Það var ekki fyrr en eftir dauða hennar að maður keypti á uppboði kassa fullan af filmum sem nokkur sá myndirnar hennar. Hann varð heillaður og reyndi að hafa upp á fleiri kössum með myndum og komast að því hver ljósmyndarinn væri. Hann fékk ekki mikið meira en nafnið hennar upp úr krafsinu, hluti sem hún hafði átt og fleiri kassa með óframkölluðum filmum. Hundruð, þúsundir eða hundruð þúsunda.
















Það sem heillar Kaffikerlu mest er hvernig svona einræn kona getur hafa haft ástríðu fyrir því að eltast við ókunnugt fólk og ná myndum af því. Kannski var það hennar leið að tengjast fólki. Merkilegt líka að hún sýndi engum myndirnar og hafði ekki einu sinni fyrir því að framkalla þær. Hún staflaði þeim bara í kringum sig. Hennar félagslíf var fólgið í negatívum ókunnugum í kassavís. Minnir okkur á hvað það er auðvelt að fela sig fyrir umheiminum. Okkur er uppálagt að komast eitthvert í lífinu og við erum svo upptekin af því að trana okkur fram og keppast við að gera okkur sýnileg að við verðum alveg forviða þegar fólk velur að halda sig til hlés. Agalega var hún undarleg manneskjan að vilja ekki fá viðurkenningu okkar á því að hún var svakalega flink að taka myndir! Vivian Maier virðist ekki hafa verið sérlega lagleg og líklega ekki haft sig mikið í frammi við myndatökurnar og svipurinn á fólki er oft eins og það sé hissa á framferðinu; „hvað er þessi ókunnuga kona að vilja hér með myndavél…?“




Kaffikerla elskar ástleitnar myndir, maður sér fólk yfirleitt ekki kyssast og mörgum finnst óþægilegt eða ógeðslegt að sjá fólk kyssast. Kaffikerla er viss um að heimurinn væri betri staður ef aldrei liði dagur án þess að maður sæi fólk kyssast. Hér eru reyndar engir kossar en samt dásamleg tenging og vinátta. Fallegt!






Hér er umfjöllun um Vivian Maier í Chicago Tonight. Þar er viðtal við manninn sem keypti myndakassana og ævintýrið við myndavinnsluna. Ótrúlega skondið hvað hann er mæðulegur eitthvað. Hann kvartar ítrekað yfir því hvað hann eigi mikið verk fyrir höndum því hann á enn eftir að fara í gegnum stærsta hluta filmanna. Þó kemur fram að hann gæti orðið vellauðugur. Kaffikerla vonar að hún hafi náð að draga einhverja sál með sér eitt skref til baka í fortíðina í smá stund. Svo þrömmum við...




Ummæli

Tinnuli sagði…
Stórmerkileg heimild/kona/saga.. Falleg færsla hjá þér. -T.
Já, hún heillaði mig alveg upp úr skónum þessi saga og myndirnar hennar. Vonandi gengur þér vel að skrifa, eigum við að hittast í kaffi á morgun @HT? Sendi þér skilaboð og FB...
Marín sagði…
Dásamlegar myndir og dásamlegur tími. Bara ef maður gæti tekið svona fallegar myndir. Sagan er líka heillandi. Takk fyrir þetta :)

Vinsælar færslur