Allt búið!
Það er dásamlegur dagur í dag! Í dag lauk ég öllu því sem ég þarf að gera til að ljúka BA prófi í stjórnmálafræði. Og það er sól og ég keypti blóm og ég drakk síðasta kaffibollann af kaffikortinu mínu í Hámu og ég keypti rauðvín og súkkulaði og mér finnst frábært að geta skrifað svona vonda setningu og það er bara allt í lagi. Þetta er örlítið ljúfsárt því nú þarf ég að takast á við lífið og það er erfitt að átta sig á hvort er betra að setja undir sig höfuðið eða breiða út faðminn. Í lífinu er víst enga heimildaskrá að finna þar sem hægt er að finna nóterað eftir ströngustu reglum að allt hefur verið hugsað og sagt áður. Ef einhvern nýjan sannleik er að finna í fræðigrein er hann í mesta lagi hálf setning því restina af setningunni er að finna í farvegi fræðanna. Og eftir allt púlið stendur maður sigrihrósandi með hálfa setningu af sannleik sem kannski verður hrakinn í næstu fræðigrein. Jájá ég er í alvöru ægilega viss um að ég hafi komist að einhverri niðurstöðu sem skiptir máli í rannsókninni minni. Þið ráðið hvort til hlæið að mér eða með mér. Í lífinu þarf maður ekki heimildaskrá til að vita að ekkert er nýtt undir sólinni. En þegar maður situr og finnur hitann frá henni verma kroppinn er tilfinningin samt sú að sólin hafi aldrei beint geislum sínum svona fruntalega. Ég sem er svo kulvís er alveg að kafna úr hita. Það er sól og ég hef blóm og bjartsýni og von og vondar setningar og breiði út faðminn.
Ég hef hugsað mér að skrifa upp niðurstöðurnar á mannamáli þar sem ekki eru töflur með þáttahleðslum og kruðeríi en hér má finna herlegheitin í heild.
Ummæli