Konan við 1000° - Hallgrímur Helgason



Konurnar hans Hallgríms Helgasonar eru betri en karlarnir hans. Hann er betri í konum en körlum. Ég hef lesið flestar bækurnar hans (næstum allar, hef ekki klárað Rokland) og hann er einhvernvegin örlítið nærgætnari þegar hann skrifar konur en karla. Og hann þarf á nærgætninni að halda. Það er eins og hann hafi sprengju, ekki meðferðis eins og Konan við 1000°, heldur inn í sér. Og orðin tikkast út úr honum af þvílíkum ótta við að allt springi í loft upp að erfitt er að halda í við hann. En það er eins og hann sé að þroskast og hann hemji sig af kostgæfni og einurð. Og það er sko ekki til að spilla fyrir textanum, þvert á móti. Hann gefur sér tíma til að næra textann betur og kynda betur upp í honum svo hann hljómar löðrandi sætur eins og karamella. Eða stingandi beiskur eins og maður standi með lífið í lúkunum.


Ég byrjaði strax eftir próf að lesa Rokland og eins þyrst og ég var í skáldaðan texta af holdi og blóði var ég næstum orðin þunn áður en ég fann á mér af orðablætinu því þunginn í ísköldum veruleikanum var málaður upp af þvílíku miskunarleysi að það var ekki hægt að njóta eins græns stingandi strás áður en manni var drekkt í hrollköldu tilgangsleysi veruleikans. Og Böddi bara sökkar. Runk, fyllerí, ömurlegt kynlíf, feitar, óléttar konur og grátandi barnavagnar eru bara ekki alveg fyrir mig sem er að verða hálf blind af bjartsýni. Er hægt að fá gleraugu við henni?


Ég les bækurnar hans Hallgríms vegna þess ég er heilluð af því hvernig hann lætur tungumálið fara með sig alla leið. Ég hef það á tilfinningunni að hann hafi ekki beinlínis sögur að segja, snyrtilega teiknaðar í huganum, heldur hafi hann alls konar tilfinningar og hugmyndir og sögusagnir í einu kraðaki í hausnum sem hann þrumar út í textann eins og tónlist. Ég er ekki að segja að hann hafi ekkert að segja en það er eins og hann sé alltaf að skrifa um sömu persónurnar með mismunandi tónmáli. Úff, þetta hljómar ekki vel en þetta er samt hrós. Það er eins og hann sé að segja frá mismisheppnaðri manneskjulegri tilveru í gegnum mismunandi persónur með sömu sprengjandi tilfinningunni.


Ég hef stundum sagt að hann elski að hlusta á sjálfan sig tala. Með Konunni við 1000° kann hann virkilega að vanda mál sitt. Ég hef oft lesið textann hans þar sem ég kvíði því sem kann að koma í þar næstu setningu, trú því svo ekki í þeirri næstu að hann leyfi sér í alvöru að ganga alla leið og finn svo til samsektarkenndar þegar hann akkúrat segir það sem var svo fyrirsegjanlegt en maður trúði því samt ekki að hann myndi láta það eftir sér. Hann getur ekki stillt sig um að segja brandarann þangað til allir eru hættir að hlægja. Það er samt svo hressandi þegar maður finnur að einhver segir bara það sem hann langar að segja alveg sama þó það gæti hugsanlega verið klisja. Og, Guð forði okkur öllum, kannski allt of ókarlmannlega dramatískt!


Sagan um Konuna við 1000°er svona svolítið eins og sprengjan sem hún heldur á. Svona skemmtilega ofnotuð í öllum aðstæðum og á endanum þegar hún springur er maður gersamlega búin í sálinni. Það er ekki vegna þess að sagan sé svo góð heldur vegna þess að hún er svaðalega vel skrifuð. Mér fannst ég vera búin að lesa svo margar sögur að ég átti erfitt með að trúa því að illskeytta konan sem hékk á netinu ein og yfirgefin, deyjandi í bílskúr væri sú sama og væri að segja okkur allar þessar sögur. Allar sögurnar voru hins vegar þess virði að lesa þær. Hann er flinkur að koma sér inn í hugarheim konunar en þegar hann skrifar um kynlífið hennar kemur það upp um kyn höfundarins og lyktar óþarflega af karlmennsku. Ég varð svolítið þreytt á allri illskunni og ofbeldinu. Er hægt að segja að ég hefði viljað hafa fleiri góðar persónur í bókinni. Fleiri kossa og faðmlög sem endast lengra en út á hlað og í arma dauðans. Nei, það er ekki hægt að biðja um glaðari persónur í bók sem fjallar ekki um gleði heldur stríð. Ég sé það núna. Þess vegna er gott að hafa örlítin húmor og halda sér í elskuna á fallega hljómandi orðum. Leyfa sér að finnast dásamlegt að smjatta á textanum þó svo það svíði undan örlögum persónanna. Þá er það léttir að halda sér í sprengju sem getur bundið enda á þjáningarnar.

Ummæli

Vinsælar færslur