Allt með kossi vekur - Guðrún Eva Mínervudóttir

Hvað er dásamlegra en ný, íslensk skáldsaga og legokubbar flæðandi um öll gólf á Jóladag? Strákar á náttfötunum allan daginn því það er ófært í jólaboð og því er bara drukkið heitt súkkulaði og borðaðar smákökur og lesið og lesið og lesið. Sumir lesa reyndar aðallega legoleiðbeiningar en bráðum verður þeirra augum líka stungið í bækur.

Þetta er eiginlega vandræðalega erfitt. Ég skófla í mig orðunum en er á sama tíma að reyna að hemja mig og njóta líkt og maður á ekki að skófla í sig góðum mat heldur tyggja hann vel og njóta hvers bita. Ég reyni að drýgja tímann með því að dást að rauða nagglalakkinu mínu. Og ég les sumar setningar aftur og aftur:

"Þegar Peter Coyote kreisti upp úr sér setninguna "We were just too greedy baby" áður en hann skaut Emmanuelle Seigner og sjálfan sig til bana, grét Indi með ekkasogum og hugsaði með sér að það væri eins gott að hún byggi ein því hún væri ekki sambúðarhæf. Hún væri of grátgjörn. Og gráðug. Gráðug í nánd og faðmlög, kossa og ástarorð."*

Og aftur og aftur. Sumt er best að tyggja betur en annað. Blaðsíðurnar með ykkur, Elísabet, Láki, Indi og Jón eru bara allt of fáar. Mér finnst ég þekkja ykkur svo vel. Eða kannski þekkið þið mig vel. Ég lofa mér við lok hverrar blaðsíðu að þetta verði allt í lagi þar sem ég geti bara byrjað á byrjun um leið og ég lýk við bókina en ég veit að það verður ekki eins. Þið eruð fólkið sem segir allt sem segja þarf. Það er eins og þið finnið allar misfellur fólksins sem er barnslega fullorðið og segið mér frá þeim og ég hlæ og græt til skiptis. Ég veit ekki hvort ég vona eða hræðist að þið verðið fullorðin þegar orðin klárast. Ég þarf að fá ykkur til mín til að ræða þetta áður en ég klára. Bara kaffi, ekkert koníak takk. Það er orðið býsna aumt þegar maður er farinn að bjóða skáldsagnapersónum í kaffi.

Ég hló þegar Indi sagði mér frá útrás prestsins með eldvarnarsvuntuna. Og skammaðist mín með henni þegar ég áttaði mig á alvörunni.

Ég þarf að spila nokkur jólalög til að koma mér aftur inn í raunveruleikann. Svo geymi ég restina af blaðsíðunum þangað til á morgun. Sé svo til hvort ég byrja aftur frá byrjun...



26. desember 2011.

Nú er ég alveg ringluð. Afhverju varð hann svona illur hann Jón? Ég skil ekki alveg hvers konar geðveiki var í gangi. Ég veit ekkert um kókaín. Ég veit ekki alveg hvort mér finnst þessi brjálsemi ósannfærandi eða hvort ég er bara miður mín yfir að hafa boðið þessu fólki í kaffi! Allt í einu varð allt framandi. Ég áttaði mig ekki á tímanum og þessar ofbeldisfullu teiknimyndasögur gerðu mig enn ringlaðari. Það var samt gott að hafa ösku yfir öllu. Þá þarf ég ekki að trúa neinu. Hér er bara allt á kafi í snjó.

Lokakaflinn var eins konar tilraun til að milda örlög Indiar. Hún tókst ekki. Ég velti því fyrir mér hvort honum hafi verði bætt við eftir tárvota beiðni einhvers prófarkarlesara. Aumingja Indi. Allt rennur henni úr greipum. Hún var meira að segja kvalin í draumum sínum. Ég skil vel að hún hafi haldið sér fast í leðurjakka, pelsa og ilmandi ný nærföt.

Ég er óþægilega mikið með hugann við kossa þessa dagana. Geta þeir í alvöru verið banvænir?


*Guðrún Eva Mínervudóttir (2011) Allt með kossi vekur. bls. 120

Ummæli

Vinsælar færslur