Brokkólí
Eitt það besta við haustið er grænmetið íslenska. Það er dásamlegt að borða brokkólí og gulrætur í hvert mál. Inn á milli svo rófur og blómkál. Furðulegt hvað gulrætur hafa mikinn karakter í bragðinu. Þær koma allar úr sama pokanum en eru svakalega misjafnar á bragðið. Yfirleitt eru grannar gulrætur sætari en þó er það ekki algilt og það á svo sannarlega við þær að fegurðin að innan er best og ekki hægt að spá fyrir um hana út frá útlitinu. Ég tek yfirleitt þrjár til fjórar gulrætur úr pokanum í einu, skola og þerri og svo bít ég í þær allar og smakka til að geyma þá bestu. Hana borða ég síðast. Stundum þarf ég að taka nokkra bita til að raða þeim í rétta röð en það er vel þess virði því það er alveg ómögulegt að klára yndislega sæta og bíta svo næst í aðra ekki eins bragðgóða.
Ég hef verið með sjálfa mig í straffi að tala um mat og kaffi á Flettismettinu en ég þarf greinilega að fá útrás fyrst ég er farin að röfla um þetta hérna. Á Smettinu tala ég aðallega um kaffi, súkkulaði, sushi og rauðvín. Þegar því sleppir segi ég bara ekki neitt! Ég rakst á tvær síður sem vöktu furðu mína. Önnur þeirra þjáist greinilega af mikilli átröskun þar sem aðallega eru myndir af ofurgrönnum (lesist: horuðum) stelpum en inn á milli myndir af girnilegum mat og tilvistarlegum setningum sem greinilega benda til lélegrar sjálfsmyndar. Hin er í sama stíl en þar er áherslan á mat en mjóustelpumyndirnar eru mixaðar inn á milli eins og eitthvert furðulegt skraut. Það ætti kannski að segja mér eitthvað að síðurnar heita Soul Hunting og Blame it on Diamonds. Menningarlæsi mínu er trúlega eitthvað ábótavant og ég efast um að markhópurinn sé 34 ára útúrstressaðir háskólanemar í leit að smáoggulitlu breiki í daginn. Ég get þó setið endalaust og skrollað niður og niður í forundran. Hvaða líf er það sem birtist þarna í myndunum? Auðvitað er það fyrst og fremst hungrað líf þar sem gjarnan gefur að líta nærmyndir af örmjóum líkamspörtum og inn á milli eru setningar um lífið, hamingjuna og ástina
"I wonder what you think when you see me"
"When I am skinny, happiness will come"
"We fear rejection, want attention, crave affection and dream of perfection"
Mér finnst þetta eitthvað svo einmannalegt og uppskrúfað. Það er auðvitað klisja að segja innantómt. Og sú sem hikar ekki við að lýsa karakter gulróta ætti kannski að hafa sig hæga.
Ummæli