Vinko Globokar - Corporel



Ég sá verkið flutt af svakalega flottri stelpu (slagverksleikara) í Skálholtskirkju. Kirkjan full af fólki á fallegu sumarkvöldi, tónleikarnir liðu áfram án hlés; það eina sem markaði verkin voru fataskipti hljóðfæraleikarans og sellóinnkoma í einu verki. Við fyrstu búningaskiptin óraði mig samt ekki fyrir því að hún myndi standa næstum ber að ofan í lok tónleikanna. Ég er soddan óskapleg tepra að mig langaði að fara að flissa strax þegar hún settist niður og hélt fyrir andlitið en ég skynjaði mikla alvöru og hélt mig því á mottunni. Við tók svo eitt það svakalegasta stríð sem ég hef háð á ævinni. Stríð við hláturinn. Þegar hún lá á gólfinu og hraut þá get ég svarið það að ég hélt að ég myndi upplifa það að raunverulega springa úr hlátri í orðsins fyllstu merkingu. Ég fann hvernig ég hitnaði í andlitinu og tárin láku niður kinnarnar og ég vissi vel að það var engin leið að beina þessu í eitthvert pent fliss. Ég íhugaði að standa upp og fara út en þá hefði ég þurft að klofa yfir fólk og það hefði örugglega ekki tekist án sprengingar. Þegar þetta endaði svo með því að sellóleikarinn tók hana og bar hana út úr kirkjunni hló fólk örlítið kurteisislega en ég var gersamlega buguð eftir átökin við sjálfa mig. Ég skammast mín yfir því hvað ég er svakalega ókúltíveruð. Hrifin var ég af verkinu Saman fyrir slagverk og selló eftir Elínu Gunnlaugsdóttur. Enda innihélt það ekki barsmíðar, óp og hrotur. Ég hef bara ekki náð nægilegum þroska fyrir svoleiðis enn.

Ummæli

Margrét sagði…
Hehehe þú ert nú meira krúttið Karen ;)

Vinsælar færslur