Bande à part


Kaffikerla unir sér enn við að fletta í gegnum brot með leikkonunni Önnu Karinu á youtube. Trúlega er það bara kerlísk nostalgía en það er eitthvað heillandi við þessa uppskrúfuðu listrænu tilburði. Einhver samt svona léttleiki í bland þar sem það er í lagi að bulla svolítið og taka sér tíma. Jafnvel nota þögn líka. Myndin Bande a part eftir Jean-Luc Godard er í sérstöku uppáhaldi. Hún er frá 1964 og er einhverskonar glæponnamynd en inniheldur þrjú fræg atriði sem ekki eru glæpsamleg :-)

Þeir sem hafa heimsótt Louvre í París vita að það er óvinnandi vegur að ætla sér að fá einhverskonar yfirsýn yfir safnið. Það er bara allt of stórt og viðamikið. Þegar ég heimsótti safnið völdum við eina álmu og svo var þrammað til að sjá Monu Lisu sem var óskaplega ómerkileg miðað við mörg verk sem þarna var að sjá. Ég fór því frá París með þá tilfinningu að ég ætti eftir að sjá eitthvað, en ég var gengin upp að öxlum og tilfinningunni fylgdi ekki sú bjartsýni að mér ætti eftir að takast að sjá allt. Einhver sagði okkur líka að verði maður 10 sekúndum í hvert verk í safninu myndi það taka mann meira en sex mánuði að skoða allan safnkostinn. Auðvitað þarf maður ekkert að sjá allt en ef ég myndi fara aftur til Parísar núna myndi ég elta uppi nýlistasöfnin og fara bara á kaffihúsið í Louvre. Þess vegna finnst mér þessi ungæðislega heimsókn í Louvre svo fyndin. Níu mínútur og 43 sekúndur!



Mínútuþögn setti ég nýlega hér á bloggið. Eirðarleysið er svo svakalegt samt að þögnin varir aðeins í 36 sekúndur.



Svo er það dansatriðið. Ég sá það fyrst með tónlist Nouvelle Vague en svo fann ég það upprunalega og ég er alveg jafn kát með það. Það er eitthvað svo mátulegt. Svo skemmtilega afslappað og fullt af gleði og auðvitað svarthvítt og lönguhorfið og spennandi. Sögumaðurinn segir okkur að nú sé tími til að segja okkur frá tilfinningum þeirra. Skemmtilegt að aftur og aftur er vikið að tímanum.

Ummæli

Vinsælar færslur