Þau leika svo óskaplega falleg sólin, skýin lognið og sjórinn á sumarkvöldum að fari maður í göngutúr er eiginlega ekki hægt að koma sér heim fyrr en sólin hefur sest alveg og allt er komið í ró. En það getur verið óheppilegt að hanga niður í fjöru fram eftir nóttu svo ég samdi um að taka myndir af fegurðinni og setja á netið og á móti myndu þau ekkert móðgast við mig þó ég væri farin heim fyrir miðnætti.



Ég er yfirleitt ekki fyrir svona myndir því þær ná aldrei að sýna alla dýrðina og það finnst mér svo svekkjandi. Það vantar auðvitað allt sjónsviðið og litirnir eru daufari. Myndin fyrir ofan er af Hallgrímskirkju sem sést svo vel úr fjörunni. Hún sést verr af myndinni ekki bara vegna þess að hún er svo lítil heldur líka vegna þess að í fjörunni hefur maður tilfinningu fyrir áttunum og veit að hún er þarna. En það sem mér finnst skipta enn meira máli er það sem ekki næst á mynd. Lyktin af sjónum og tilfinningin fyrir himninum og skýjunum. Einstaka raddir úr húsunum berast auðveldlega því lognið er svo mikið og þá heyrist líka í fuglunum og niðurinn í vatninu.



Mér fannst þau svo krúttleg þessi blóm að berjast við að vaxa í sandinum



Þessi ástarjátning verður horfin í fyrramálið





Þegar ég var komin heim með samninginn í vasanum og ætlaði að fara að bursta tennur og skríða í bólið gat ég auðvitað ekki slitið mig frá sýninni út um eldhúsgluggann. Ég fer víst ekkert að sofa á undan sólinni... Góða nótt.



Ummæli

Gonzo sagði…
Læk! :-)

Vinsælar færslur