Kaffikerla
Ég sit þar með gamalt samviskubit yfir því að vera svona kát með það að vera ekki föst heima að ég verð drekka kaffi þó ég sé búin að fá nóg þann daginn. Ég sakna tölvunnar og get ekki hugsað mér að hugsa meira svo ég fer að virða fyrir mér fólkið á staðnum. Ég er staðráðin í að finna að það sé öðruvísi en fólkið sem er þarna á morgnana þegar ég er venjulega þarna. Ég er reyndar ekkert allt of vel staðsett til að sjá alla en samt þægilega nálægt öllum sem ég sé. Við gluggan sitja tvær stelpur með eina fartölvu og hafa mikið að segja svo þær veita umhverfinu lítinn áhuga. Ég horfi aftan á aðra og sé bara að hún er í bláköflóttri skyrtu og með svona dredda í hárinu sem er svo klístrað upp með spennum. Hina sé ég framan í og hún er bara nokkuð lagleg og með mun fallegra hár. Það er hvorki of ljóst né of dökkt og glansar og ég fæ það á tilfinninguna að það ilmi vel. Því er fallega snúið upp í bylgju og er kæruleysislega fest upp. Þær eru báðar mjóar í þröngum buxum og sú með fallega hárið hafði farið úr skónum og sett fæturna undir sig svona eins og krakkar gera oft. Já þær eru svona krakkalegar. Trúlega tuttuguog eitthvað lítið. Þær hefðu alveg getað verið að skipulegga bakpokaferð um Evrópu. Eða kannski að tala um ferðina sem þær hafa farið í. Ég er a.m.k. viss um að þær dreymir um að ferðast. Á ská á móti mér er töffaralegur strákur með tölvu. Hann er að drekka úr stóru ferðamáli og er svona svolítið á iði og gjóar augunum oft til mín svo það er erfitt fyrir mig að mæla hann almennilega út. Hann er dökkhærður með dökka húð og hörkulega karlmannlegur í framan. Eða mér finnst það vegna þess að hann er líklega 26 til 29 ára og hann lítur út fyrir að vera bara of mikill töffari til að vera deginum yngri en 35. Mér finnst hann ekki sætur. Hann lítur þannig út að maður heldur að hann myndi vera sætur en svo er hann það ekki. Svekkjandi. Ég vil ekki vera að pirra hann með því að glápa of mikið á hann svo ég tek ekkert eftir því hvernig hann var klæddur. Ég sé samt að hann er í hvítum stuttermabol með sterklega handleggi. Hann lyftir pottþétt. Þungu.
Ég er auðvitað að lesa og ekki bara að góna dónalega á fólkið en svo er ég trufluð þegar inn kemur fólk með stóra blaðabunka að velja sér borð. Þau eru örugglega hjón. Og alveg ægilega smart hjón. Þau flokkast í flottafólksflokkinn. Hún ljóshærð, hávaxin og grönn og ber sig fallega af öryggi. Hún er í svona pokalegum buxum sem eru svo mikið í tísku núna (og mér finnast skelfilega ljótar) og léttri skyrtu (greinilega úr Andersen og Lauth) og stuttum leðurjakka í brúnum lit. Liturinn er ekki dæmigerður fyrir leðurjakka og ég er viss um að hún á leðurjakka í fleiri litum heima. Hún gengur örugglega alltaf í svörtu og jarðlitum. Kannski er einn gamall rauður síðkjóll í skápnum sem henni dettur ekki í hug að fara í. Hún er búin að finna sinn stíl og hann er svartur og jarðlitaður. Nema í grillveislum á sumrin klæðist hún hvítum kjól. Og ég sé fyrir mér hvað hún er með fallega ávalan maga. Svona akkúrat mátulegan því hún er sko engin horrengla heldur bara nákvæmlega eins og hún á að vera. Æj, hún er ekki alveg svona falleg en af því ég er að segja þetta þá verður enginn brjálaður þó ég bæti aðeins í? Segi heiminn vera aðeins fallegri en hann er. Maðurinn hennar er örugglega voða myndarlegur en ég nenni ekki að horfa á hann samt. Hann er svona frekar þurr á manninn við hana og vill bara bora nefinu niður í tímaritið sem hann kom með. Mér sýnist það vera um arkítektúr. Vissi ég ekki. Ég er viss um að alla laugardaga klæða þau sig upp og þræða húsgagnaverslanir. Þau leggja rándýra jepplingnum þar sem hann sést vel og svo labba þau og horfa af áfergju húsgögn. Þau kaupa ekki neitt því þau eiga fullt hús af húsgögnum. En þau langar. Merkilegt finnst mér. Hún pantar sér, mér til nokkurrar undrunar, risastóra kökusneið. Og ekki svona elegant súkkulaðiköku heldur marengstertu. Ég er hálf svekkt út í hana fyrir að passa ekki alveg inn í staðalímyndunina mína. En mikið er hún kát með kökuna. Hann er aftur á móti lítið áhugasamur og ég finn til með henni. Ég fletti nokkrum sinnum fram í bókinni án þess að lesa. Finnst það fyndið að einhver gæti séð til mín svindla og orðið alveg svakalega hneykslaður. Svo ég fletti aðeins meir.
Á milli stelpnanna við gluggann og töffarans sitja tvær stelpur. Önnur er alveg með bakið í mig og hin næsum bak við hana svo ég sé þær voða illa. Þær eru háskólanemar. Ég hef séð nákvæmlega svona stelpur í skólanum alla daga. Háskólinn er fullur af svona stelpum. Þær eru venjulegar og einhvernvegin dettur mér ekkert í hug til að lýsa þeim. Enda sé ég þær ekki nógu vel. Þær eru örugglega í félagsvísindadeild. Í félagsfræði eða kannski mannfræði eða eitthvað. Þetta er það sem ég hugsa um þær og verð voða montin þegar ég heyri þær tala um mastersnám í félagsráðgjöf. Ég sé framan í stelpuna á móti mér og sé að hún er bara svona frekar venjuleg svo það er ekkert skrýtið að ég bara hafi ekki góða lýsingu á henni. Hún er ekkert ljót en heldur ekkert sæt. Mig grunar að ef ég þekkti hana vel og væri búin að horfa marga daga og ár framan í hana þá þætti mér hún sæt. Hún svona venst vel. Svo kemur annað par og pantar kaffi og sest hinum megin við töffarann. Þau eru voða sætt kærustupar, svona 22 til 26 ára. Þau eru jafngömul, kynntust örugglega í skólanum og gætu verið að læra hagfræði eða viðskiptafræði. Þau virðast ekki vera þannig að þau ætli sér að vera lengi í skólanum eða hafa brennandi áhuga á faginu. Þau fóru í skóla til þess að komast í góða vinnu. Þau eru bæði sæt, svona jafnsæt, og þess vegna sætt kærustupar. Hann er bara nokkuð sætur, svolítið unglegur enda í gallabuxum og hvítum strigaskóm en hún er ljóshærð og lagleg í gallabuxum og smá skrýtnum jakka sem er bundinn í mittið. Ekki svona artí skrýtnum heldur svona ekki mjög vel sniðin þannig að hún virkar óþarflega bolluleg. Hún er alls engin bolla neflinlega. Þau setjast og segja ekki neitt. Aðeins þvingað og ég velti því fyrir mér hvort ég sé að misskilja þetta eitthvað, kannski eru þau bara nýbyrjuð að vera saman. En nei, það er eitthvað annað. Svo kemur kakan. Og það er önnur sneið að marengstertunni stórskornu. Kannski er þessi kaka eitthvað sem er alveg sérstakt þarna? En það er bara ein sneið af kökunni og þau sitja þarna með sinn hvorn gaffalinn og passa sig á að segja ekki neitt til að trufla ekki hárnákvæma skiptinguna á kökunni. Einn fyrir þig, einn fyrir mig, einn fyrir þig, einn fyrir mig… Ónei þau eru sko ekki nýbyrjuð að vera saman. Þau hafa marg oft skipt með sér köku. Mig dauðlangar að fara að flissa yfir hagfræðilegum barningi þeirra. Þeir hæfustu lifa af og það má ekkert slá af í keppninni um bestu bitana. Ég sé fyrir mér kynlífið nóterað upp í excel, allt eftir ströngustu bókhaldsreglum. Hamingjan er fólgin í því að fá meira. Meira en hinir.
En ég flissa auðvitað ekkert. Ég bara tek eftir að við hliðina á mér er sestur maður og ég tók varla eftir því þegar hann kom. Hann var klaufi með kaffið sitt og sullaði á undirskálina og ég næstum bið hann um að fá að þurrka þetta af því þetta er eitthvað svo ekki í stíl við frelsi mitt á eftirmiðdegi. Ekki góður tími til að sulla niður. Minnir mig á strákana. En ég er fljót að gleyma sullinu því hann tekur upp umslag og dregur upp úr því kort. Póstkort með svona íslenskri túristamynd. Mér sýnist hún vera af fugli. Ég virkilega þarf að stilla mig um að reyna ekki að lesa hvað hann skrifar á kortið. Það er ekki margt. Hann er ekki að lista upp ferðalag. Þetta eru örugglega rómantísk skilaboð. Hann stingur kortinu aftur í umslagið og ég sé að hann var búinn að skrifa á umslagið og líma frímerki. Hann átti bara eftir að skrifa orðsendinguna. Hann kom hingað sérstaklega til þess. Sullaði niður kaffinu sínu af spenningi. Mér finnst óþægilegt að sjá fyrir mér heitar ástríður manns sem situr svo nálægt mér, svona eins og hann gæti fattað hvað ég er að hugsa. Úff hvað ef hann fattaði hvað ég er að hugsa. Ég panikka pínu og fer bara að hugsa um að hugsa um ekki neitt. “Sjáðu fyrir þér rauða appelsínu”. En þá fer ég að hugsa um að appelsínur eru gular ekki rauðar og svo hugsa ég um sólina og sólarlag og að sumarið vilji bara ekki koma til Íslands og þegar ég er alveg viss um að hann sé ekki lengur að fylgja eftir hugsunum mínum slaka ég á og viðurkenni enn og aftur að ég gæti aldrei náð tökum á að hugleiða. En ég er viss um að ég hafi náð að hrista hann af mér. Appelsínur og sólir eru svo svakalega ofnotaðar hugsanakeðjur að hann hlýtur að hafa misst áhugann. Svo ég fer að skoða hann betur. Hann er í dökkum jakka nokkuð þvældum, hvítri skyrtu með ljótt skáröndótt bindi. Hann hefur farið marga daga í þessari múderingu í vinnuna. Hann er tölvunnarfræðingur eða endurskoðandi. Gæti verið bankamaður. Hann er ófríður með ístru og ég á erfitt með að ímynda mér að einhversstaðar sé kona sem gleðst yfir orðsendingunni á kortinu með fuglinum. En vonandi er hún samt til.
Þá kemur annar maður og sest lengra frá mér. Hann er tvístígandi og eitthvað ekki alveg sáttur. Kannski er hann ekki ángæður með borðið. Hann lítur næstum svona örvæntingarfullum augum á mig og ég verð hálf vandræðaleg en reyni að vera róleg og rosalega annars hugar og held áfram að lesa smá á meðan hann er að ná áttum og ég bíð eftir að hann hætti að horfa á mig svo ég geti haldið áfram að glápa á fólkið. Hann er einhleypur. Hann gæti verið fráskilinn ég veit það ekki en hann þyrfti held ég að láta halda pínulítið utan um sig. Hann dregur upp fartölvu en mér finnst hann ekki vera með hugann við það sem er í tölvunni. Svo kemur strákur inn og sest hjá töffaranum og þeir svona strákheilsast; nikka en segja ekki neitt. Þeir horfa í smá stund á tölvuna og skella svo báðir upp úr. Svo fara þeir. Þá verður sá einhleypi feginn og hann stendur strax upp og sest þar sem þeir voru. Kannski er hann með einhverja svona þráhyggju að hann telur sér trú um að ef hann sitji ekki með hnakkann í vegginn þá rigni í heila viku. Hann trúir því að það sé honum að kenna að sumarið er ekki komið til Íslands. Ég sé að hann horfir á fæturna á mér undir borðinu þegar hann sest og ég færi mig svo þeir böggi hann ekkert. Þá horfir hann bara meira. Nújæja, hann um það. En þá tek ég eftir að stelpan með dreddana í hárinu er strákur. Þau eru að búa sig undir að fara og hann snýr sér að mér og þetta er alveg greinilega strákur. Breytir það nokkru?
Síminn minn hringir og ég missi þráðinn. Sé ekki hverjir fara í hvaða röð. Hef enga hugmynd um hvort meira er borðað af kökunni. Ég sé að töffarinn kemur aftur, án vinarins. Hann fær sér aftur stórt ferðamál og sest lengra frá mér. Hann gýtur augunum illilega að þeim einhleypa. Ég verð að muna að þetta er greinilega besta sætið á staðnum. Kærustuparið sæta er farið að tala saman og brosa pínu eftir að kakan kláraðist. Þau fara samt fljótlega. Þau komu til að berjast um köku. Kannski var þetta einhver spennandi forleikur. Flottu hjónin sitja aftur á móti lengur. Þau hafa svo mörg blöð að fletta. Forleikurinn þeirra er bara fjórar mínútur. Þau kunna þetta. Þegar ég fer að tala í símann þarf sá einhleypi líka endilega að fara og tala í símann. Hann stendur upp og labbar fram fyrir eins og hann væri að sýna einhverjum tillitsemi með því að fara. Undarlegt. Kannski er hann hræddur um að einhver sé að hlusta á hann.
Ég er ótrúlega ánægð með hvað samferðafólk mitt hefur skemmt mér vel í huganum þegar dökkhærða stelpan labbar inn. Þegar ég fletti upp í fordómunum mínum þá fellur hún undir ímyndina um að vera frönsk í útliti. Hún er greinilega íslensk en hún er mjó og fíngerð með dökkt, axlarsítt hár; rennislétt. Fallega oddhvassar axlir (hahah fallega oddhvassar- ömurleg lýsing! Fáránleg mótsögn Karen!) og svona bara líkama sem æpir ekkert á mann. Hún er ekkert öskrandi sexí en undir réttum kringumstæðum eru brjóstin litlu og rassinn örugglega mjög ljúf. Sko, ég er ekkert skotin í henni þannig að þessi lýsing verður bara að duga. En hún sest og fer að lesa. Karitas án titils eftir Kristínu Maríu Baldursdóttur. Ég hef lesið hana. Skemmtileg bók og ég væri alveg til í að kynnast þessari stelpu. Hún er örugglega skemmtileg líka. Vonandi er pínu bit í henni. Vonandi örlítill rugludallur. En ég treysti mér auðvitað ekkert til að fara og tala við hana. Svoleiðis gerir maður ekki.
Eini alvöru munurinn á þessu fólki og því sem ég sé þarna á morgnana er að þetta fólk er búið að drekka aðeins meira kaffi. Á morgnana er dagurinn nýr og kaffið undursamlega unaðslegt í kroppnum. Seinni partinn er maginn þvældur af kaffidrykkju. Hugsanlega smá svangur. Hann langar samt ekki í mat heldur köku fulla af sykri. Fólkið er farið að hugsa um forleik. Ég er farin að hugsa um dásamlega kaffibollann sem ég fæ í fyrramálið.
Ummæli
~Bimma