Jólakveðja
Það fellur vel að mannlegri sjálfsbjargarviðleitni að halda hátíð ljóssins þegar það er myrkur allan sólarhinginn. Það er auðvitað skynsamlegt að kveikja fleiri ljós þegar sólin lætur lítið sjá sig en það sem er enn kostulegra er að einhvernvegin hefur okkur tekist að tengja við ljósin svo mikla gleði. Hugsanlega er líka skynsamlegt að nota tímann sem náttúran liggur í dvala til þess að treysta vina og fjölskyldubönd en þó er ótrúlegt hvernig hefur tekist að breiða yfir myrkrið með gleði og glingri.
Nú þegar fólk á afmæli þá fær það hundruð kveðja á Flettismettinu. Og flestum finnst þetta skemmtilegt. Það veit vel að allir fá áminningu um afmælisdaga vinanna en það er gaman að fá kveðju þegar þú átt afmæli og það skiptir ekki öllu máli þó kveðjan hafi ekki verið það fyrsta sem kom upp í hugann þegar kveðjusendillinn vaknaði. Hún/hann þarf alltaf að hafa fyrir því að skrifa kveðjuna. En einn sið hef ég alltaf haldið og það er sá siður að senda vinum og skyldmennum jólakveðju í kortaformi fyrir jólin. Ég geymi alltaf jólakortin sem ég fæ fram á aðfangadagskvöld og þegar búið er að taka upp pakkana vil ég að maðurinn minn setjist hjá mér og við skiptumst á að lesa jólakortin upphátt. Þannig var það hjá mömmu og þannig á það að vera…
Jólakortunum hefur verið legið á hálsi fyrir að vera ekki nógu frumleg og að vera bara enn eitt peningaplokkið fyrir jólin en það er eitthvað undarlega notalegt að fá jólakort í póstinum. Fyrir það fyrsta er fólk löngu hætt að fá bréf og það eina sem kemur með póstinum er bara hinn óvinsæli gluggapóstur. Að fá umslag með handskrifuðu nafninu sínu ásamt frímerki kallar á spennu því það eru ekki margar ástæður sem kalla á svo mikið handverk í skilaboðasendingum í dag. Og jafnvel þó að kveðjan inni í kortinu sé stöðluð og prentuð þá var samt einhver sem mundi eftir mér þegar jólakortalistinn var settur saman og hafði fyrir því að velja fyrir mig jólakort, fletta upp heimilisfangi og koma í póst.
Það er eins víst að jólin fari fram hjá í ár. Í stresskasti við upphaf prófatíðar ákvað ég að senda engin jólakort fyrir þessi jól. Jebbs. Bara sleppa því. Ég hef heyrt af fólki sem hefur gert álíka lífstílsbreytingu og komist klakklaust frá því. Ég vildi þó gjarnan sjá vísindalega úttekt á afleiðingunum. Til dæmis vildi ég vita hvort það er fylgni milli uppgjafar á jólakortasendingum og svefns í klukkustundum. Fylgni við áfengisneyslu. Tíðni brosa væri líka gott að mæla.
Ég hef reynt að hugsa upp nokkrar aðferðir til að komast hjá þunglyndiskasti og spurt nokkra samferðarmenn mína hvort ekki sé bara kominn tími til að færa jólakortin til nútímans og senda tölvupóst í staðinn? Sumir hafa verið mjög jákvæðir og bent á að þannig er hægt að láta ýmislegt fylgja í viðhengi. Skemmtileg jólamyndbönd og jafnvel myndskeið af fjölskyldunni á góðri stundu í stað myndar eins og tíðkast í prentuðu kortunum. Aðrir hafa verið fullir efasemda og ráðlagt mér frekar að sleppa öllum sendingum en að senda svona fjölfaldaða, stafræna jólakveðju. Ætli ég að vera persónuleg taki það hvort eð er jafn langan tíma og fyrirhöfn að rifja upp persónulegar samverustundir og fletta upp netföngum. En hvað með Flettismettið? Ég gæti límt jólakveðju á veggi vina minna eða kokkað upp jólakveðjustatus til allra á einu bretti. Kosturinn er sá að þannig sendi ég fólki jólakveðju sem ekki fengi jólakveðju frá mér annars en ókosturinn er sá að ég get ekki gengið úr skugga um að hún komist til skila til þeirra sem mér er mjög umhugað um að fái kveðjuna. Hvað með kverúlantana sem ekki halda til á Smettinu? Og svo er það bara enganveginn alvöru jólakveðja…
“ég trúi þér ekki Karen!”
Eftir að hafa tekið við dýrindis handskrifuðu jólakorti frá vinkonu minni og horft framan í vonsvikið andlit hennar tautandi um próf og tónleika ákvað ég að jólakveðju yrði að minnsta kosti hún að fá eða það riði mér að fullu. Hún hafði tekið á sig skuldir bankakerfisins og sveitarfélagsins (hún býr á Álftanesi) en að ég skildi svíkja jólaandann svona var endanlegt merki um örugga hnignun heimsins. Auðvitað er tilvalið að koma jólakveðjunni til vina og vandamanna á sama hátt og jólin sjálf koma til þeirra. Með útvarpsbylgjum. Frá því að ég man eftir mér hefur verið kveikt á útvarpinu alla Þorláksmessu þar sem jólakveðjur eru lesnar í bland við jólatónlist allan daginn og fram á kvöld. Þá er jólatréið skreytt og jólagjafirnar tilbúnar og matseldin í startholunum. Ég man ekki eftir að hafa nokkurn tímann þekkt fólkið sem sendir kveðjurnar en tek gjarnan við öllum kveðjum til allra landsmanna. Nú sendi ég ættingjum og vinum jólakveðju undir kategoríunni Gullbringu- og Kjósarsýsla sem er svo dásamlega gamaldags og alveg í anda jólanna er það ekki? Ekki munu allir heyra kveðjuna en líkt og jólin koma þó ekki heyri allir þau hringja inn þá mun kveðjan mín vonandi hitta í mark hjá þeim sem vilja taka við henni.
Gleðileg jól kæru vinir,
og takk fyrir jólakortið.
Ummæli
Takk fyrir þessa skemmtilegu jólakveðju. Algjör óþarfi að flækja lífið, sérstaklega þegar próf og baðherbergisflísarnar ganga fyrirm :)
Knús og kossar
Marín
Love you
Þín Dagný
-m