Fallegar flugvélar




Ég tók eitthvert persónuleikapróf á Flettismettinu sem átti að segja hvaða konu úr heimssögunni mér svipaði til og niðurstöðurnar voru Amelia Earhart. Hugsanlega hefur það eitthvað með það að gera að ég sagðist ekki vilja vita að ég væri að deyja. Mig minnir reyndar að það hafi ekki verið valmöguleiki að "deyja í hræðilegu bílslysi" eins og Díana prinsessa en hvað um það. Ég rakst svo á þessa mynd af Ameliu en það sem heillaði mig sérstaklega er flugvélin sem er með henni á myndinni. Ég hef þó ekki gríðarlegan áhuga á flugi eða flugvélum þó ég hafi búið til flugvöll á Grænlandi. Trúlega er þetta einhverskonar nostalgía enn og aftur þar sem flugvélin minnir á tíðarandann og bjartsýnina. Bílar frá sama tíma kalla aftur á móti fram tilfinningar um höft og karlrembu. Svo unaðslegt að flugvélar hafa ekki sömu tengingar í höfðinu á mér. Gersamlega órökrétt í raun og veru því flugélasmíði fleygði fram vegna stríðsrekstursins...



Ég tek yfirleitt bara myndir af fólki en í Akureyrarferðinni í sumar tók ég myndir af strákunum mínum og svo þessari flugvél. Við fórum í flugsafnið á Akureyri og þar er þessi fallega flugvél sem kom hingað til lands í seinni heimsstyrjöldinni.

Saga flugsins er ekki svo löng og auðvitað ferðaðist fólk áður en farþegaflug kom til sögunnar en ferðamannaiðnaðurinn varð ekki til fyrr en flugsamgöngur voru komnar vel á veg. Nú þykir ekkert eðlilegra en að fólk ferðist helst einu sinni á ári. Og hvað er að ferðast? Að sjá og upplifa eitthvað nýtt? Til hvers? Til þess að vita að heima sé alltaf best? Bara til þess að komast í burtu úr hversdagsleikanum og slaka á á ströndinni og fá hita í kroppinn? Flestir ferðast ekki til að kynnast nýjum menningarheimum eða umhverfi af nokkurri alvöru heldur halda sig á fyrirframskilgreindum ferðamannastöðum þar sem umhverfið er staðlað þannig að allir geti notið fríðinda og séu verndaðir fyrir hugsanlegu áreiti. Ferðamönnum er haldið frá stöðum þar sem þeir gætu komist í kynni við "óheppilegt" fólk og leitast er við að enginn þurfi að vera innan um pöddur og lífríki sem heimamenn búa við.



Þetta verk í Moderna museet í Stokkhólmi minnti mig á nútíma ferðamanninn. Ég veit ekki hver höfundurinn er eða hvað verkið heitir því mér varð svo mikið um þegar ég áttaði mig á því að ég hafði brotið reglur safnsins og tekið mynd af verkinu að ég hraðaði mér í burtu. Rautt plastið minnir á leikföng, eitthvað svona IKEA umhverfi sem er eins fyrir alla, skaðlaust og þægilegt. Og enginn þarf að fara út fyrir kassann. Ferðalag þar sem enginn þarf að eiga það á hættu að verða fyrir þannig áreiti að það krumpi eitthvað heimsmyndina eða vekji upp spurningar. Á Kúbu skilur girðing að ferðamenn og heimamenn. Væntanlega til að koma í veg fyrir mögulega krossmengun.

Þetta hugsaði ég þegar ég rölti í rólegheitum um Moderna museet. Það eina sem stuggaði við mér á ferðalaginu var að þurfa að fara í gegnum öryggishliðin á flugvellinum. Óttalegt vesen að þurfa að fara úr skónum og láta þukla á sér.

Ummæli

Marín sagði…
ummm mig langar í flugvél, hvort sem flugið leiðir mig inn í kassann eða út fyrir kassann.

Upp á síðkastið langar mig samt mjög mikið að ferðast inn í kassanum, helst með krítarkort í vasanum...

...sem annar en ég borgar af :)

Vinsælar færslur