Haust

Eins og oft hefur komið fram á þessari síðu þá elska ég haustið. Fyrir það fyrsta er ég kennari og hef að auki nærri allltaf verið í skóla líka sjálf og þá eru haustin svona dásamlegt nýtt upphaf. Ég verð hálf rótlaus á sumrin og ég ELSKA ekki sólina. Því finnst mér ég alltaf vera hálfgert viðundur á sumrin. Svo mér finnst voða notalegt þegar það fer að verða dimmt á kvöldin. Reyndar hverfur þá smátt og smátt útsýnið mitt út á sjóinn en það er það sem mér finnst fallegast við sumrin. Þá er bara ekki hægt að fara að sofa fyrir miðnætti því að sólin, skýin og sjórinn eru með svo flott sjónarspil. Því verður maður stundum að húka niður í fjöru langt fram eftir nóttu bara til þess að móðga ekki sólina þegar hún sest svona fallega.

Á haustin setur maður sér þau markmið að fara nú að sjá allt það skemmtilega í leikhúsunum. Vitandi það að um veturinn á maður eftir að horfa á auglýsingarnar merktar "síðasta sýning" og sætta sig smám saman við að missa af flestu...

Ég kvarta enn og aftur yfir því að Sinfónían hafi breytt tónleikatímanum í 19.30! Það hefur kannski verið gert eftir sérstaklega slappan vetur þar sem áheyrendur hafa sofið óvenju mikið á tónleikum? Ég veit ekki fyrir hvern breytingin var gerð en hún var a.m.k. ekki gerð fyrir vinnandi fólk sem er svo ólánsamt að búa í Garðabæ.

Þegar ég var yngri (og fór alltaf fótgangandi í skólann) man ég svo vel eftir því að hafa labbað í köldu lofti, og sólin lágt á lofti og notið þess að horfa á hvernig laufin á trjánum urðu misgul og rauð eftir tegundum trjánna.
Núna verð ég að viðurkenna mun ég ekki hafa mikinn tíma til að dást að laufum því ég veit að eftir rólega fyrstu viku verður allt vitlaust að gera og tíminn mun bókstaflega spænast upp og áður en ég veit af verð ég farin að lesa fyrir próf og halda jólatónleika og bíða eftir rólegum jóladagsmorgni með heitu súkkulaði og rjóma ofan í næstum því saddan maga af hamborgarhrygg og karamellukartöflum.
(jeddúddamía hvað það er gaman að blogga því annars er bannað að skrifa svona langar setningar (-:)

Ilmurinn af nýjum bókum og eftirvæntingin um allt sem þær eiga eftir að kenna mér feikja manni því í gegnum þá eldraun að koma saman stundatöflu! Ég er auðvitað ekki mikið fyrir íþróttir svona flestar árstíðir en á haustin gýs upp mikil andúð á fimleikum og fótbolta. Nemendur mínir (eða foreldrar þeirra) ætlast nefninlega til þess að ég hagi lífi mínu í kring um það hvenær íþróttahreyfingin úthlutar æfingatímum í spriklinu þó svo að það þýði að mínum vinnudegi ljúki kl. 19.30! - og þá hefjast sinfóníutónleikar...

Æjæj, nú er ég orðin brjáluð áður en ég hef einu sinni mætt á kennarafund. Þá er bara að opna bók og draga djúpt að sér andann. Ég er Íslendingur, þetta reddast og ég veit vel að bráðum koma jólin...

Ummæli

Nafnlaus sagði…
ahhh haust andvarp!
-marín

Vinsælar færslur