Viðvörun: sú sem hér ritar hefur ekkert vit á tísku

Tíska er skammaryrði. Það er ekki í tísku að vera í tísku. Það er miklu meira hipp og kúl að hafa sinn eigin stíl. Og þeir sem að eiga það sameiginlegt að leggja mikið upp úr því að skapa sinn eigin stíl verða því miður svolítið allir í stíl. En hvað um það, ég nenni ekki að fara út í þessa venjulegu umræðu um tískuna sem fer í hringi og vondu veruslunarkeðjurnar sem geri alla eins og allt það.

Veruleikinn fyrir mig og svo marga aðra er að við höfum kannski ekki mikinn áhuga á tísku og nennum ekki að liggja yfir henni en við verðum að klæðast einhverju á hverjum degi.




Ég geri mér nokkra grein fyrir því hver ég er, en þið gerið það ekki. Þið kynnist mér með því að tala við mig og þegar þið talið við mig þá horfið þið á mig í leiðinni. Þið eruð auðvitað greind og með góða athyglisgáfu og vitið vel að fegurðin að innan hefur mest með það að gera hvaða mann ég hef að geyma. Það er samt ómögulegt fyrir ykkur að útiloka ásýnd mína þegar þið kynnist mér. Ómögulegt að greina það frá að ég er hvít, kona, íslensk, ljóshærð, með óræðan augnlit, rétt um þrítugt og óstjórnlega sjarmerandi... ;-)

Og þetta vitum við öll. Sko þetta með að ásýnd okkar er samofin því hver við erum. Samferðamenn okkar eiga feiknalega erfitt með að aðgreina sál og líkama. Enda er sú gamla tvíhyggja bara bull.

En tískan hefur bara ekki mikið með það hvernig venjulegt fólk klæðir sig. Ég nenni ekki að skoða tískublöð með endalausum myndum af horuðum leikkonum í síðkjólum. Svo eru til bloggsíður með götutísku svokallaðri og svo götutískublogg. En þessar síður eiga það sameiginlegt að verða örlítið eins. Þarna má sjá langar raðir af myndum af mjóslegnum unglingsstelpun í örstuttum gallastuttbuxum í hokinni stellingu (greinilega mikið í tísku að skjóta öxlunum örlítið fram og hafa fætruna í hjólbeinóttri stöðu). Svo eru til fullt af tískubloggsíðum. Sumar innihalda myndir af því hverju bloggararnir eru í næstum hvern einasta dag og margar eru svona "mig langar í" síður. Skemmtlegar eru þær sem hafa myndir af ýmsu öðru en bara tísku og sumar eru ansi artí. Ég hef lent í því að rekja mig í gegnum síðu eftir síðu þangað til allt snýst í hausnum á mér. Þetta er nýja bloggmenningin. Voða lítið fer fyrir texta og margar síður hafa ekki einu sinni myndir sem bloggarinn tekur heldur bara myndir sem hann finnur á netinu. Póstmódernísk myndasamsuða tvítugra námsmeyja. Brjóst og sígarettur eru inn. Krúttlegar myndir af blómum og spóaleggjum í rosaháhæluðum skóm.

Eftirlætið mitt er samt götutískuinnslagið á laugardögum á síðu New York Times. Bill Cunningham segir frá myndunum sem hann tók þá vikuna og fjallar yfirleitt ekki um unglingsstelpur. Heldur bara allskonar fólk. Dásamlegar þrjár mínútur með fyrsta kaffibollanum.

Þetta blogg átti að vera um sársvangar fyrisætur og búrkur. Nú langar mig bara í göngutúr niður að sjó. Verð í flísbuxum og ullarflísjakka. Þið fáið ekki mynd...

Ummæli

Fjóla Dögg sagði…
Gott að hafa alla þessa linka svona á einum stað. Þá finn ég þá alla aftur ef mig langar til að skoða. :)

Vinsælar færslur