Einstaklingar á vinnumarkaði




Mér finnst alltaf svo furðulegt þegar fólk telur sig geta hafið sig yfir sínar eigin hugmyndir um umheiminnn. Stundum held ég að hættulegasta fólkið sé það fólk sem trúir því í einlægni að það sé fordómalaust. Það telur sig vera upplýst og vita betur og því hafi það enga fordóma. Fordómar spretta af nauðsyn þess að einfalda sýn okkar á umhverfið. Fólk þarf að læra inn á ótrúlega marga flókna hluti og aðstæður til að komast í gegn um lífið og því þarf það að safna saman vitneskju um ótrúlegustu hluti. Og ekki bara hlutlæga veruleikann heldur ekki síður þann félagslega. Það er erfitt að koma auga á sína eigin fordóma og ef ég hef talið mér trú um að ég sé fordómalaus þá er ég enn ólíklegri til að átta mig á fordómum mínum. Ég held því að í staðinn fyrir að fordæma fordóma ættum við að vera opin fyrir því að við gætum verið fordómafull og reyna þannig að vinna með þá til að takmarka skaðann sem af þeim hlýst.

Yfirleitt tengjum við fordóma við það sem við þekkum ekki. Þeir eru gjarnan tengdir vankunnáttu og þekkingarleysi. Hinar eilífu vangaveltur um eðli kynjanna byggja aftur á móti á mikilli reynslu af hegðun fólks. Það er ekkert sem hefur meiri áhrif á einstakling en af hvaða kyni hann er. Úff ég nenni ekki að ræða meira um eðli eða óeðli en mig langar aðeins að kommenta á það sem frjálshyggjufólkið hefur haldið fram um vinnumarkaðinn, kynferði og hæfnismat.

Auðvitað er það grundvallaratriði að fólk á að fá að vera eins og það kýs að vera. Sko a.m.k eiga engin lög að stoppa það. Allt annað er aukaatriði. Og einhvernveginn eftir miklar velkingar hverfa þessi aukaatriði alveg og eftir situr sú trú að sá/sú sem tekur á móti fólki í atvinnuviðtal sjái bara mishæfa einstaklinga og hafi bara alls engar aðrar hugmyndir í hausnum.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk bregst við ótrúlegustu hlutum öðrum en ferlisskránni í atvinnuviðtölum. Ef það skiptir máli hvort þú ert í blárri eða svartri skyrtu þegar þú ferð í atvinnuviðtal hvernig getur fólki þá dottið í hug að kyn skipti ekki máli?

According to Moss-Racusin, the applicants in the staged interviews were judged equally competent, but the "modest" males were less liked, a sign of social backlash. Modesty was viewed as a sign of weakness, a low-status character trait for males that could adversely affect their employability or earnings potential. Modesty in women, however, was not viewed negatively nor was it linked to status.

"For men and women, there are things they must and must not be," Moss-Racusin says. "Women must be communal and other-oriented, but they must not be dominant. Historically and cross-culturally, men have been stereotyped as more agentic, that is, more independent and self-focused than women."

Þessi rannsókn styður það að fólk bregst mismunandi við konum og körlum og meta kynin mismunandi. Ég hef heyrt að í atvinnuviðtölum sé verið að leyta að eiginleikum sem konur hafa ekki. Þær ýki ekki eins mikið eigið ágæti og krefjist ekki eins hárra launa. Það er því ansi súr veruleiki fyrir konur á frjálsa, opna og kynlausa atvinnumarkaði frjálshyggjunnar að sjálfstraust kvennanna hefur þau áhrif að þær eru ósjálfrátt metnar minna hæfar. Samt eru þær sakaðar um að hafa ekki þann eftirsótta eiginleika að vera stútfullar af sjálfstrausti.

Eftir að hljómsveitir í Evrópu og Ameríku fóru að ráða fólk eftir frammistöðu í prufuspili jókst ekki bara fjöldi hljóðfæraleikara frá Asíu heldur fjöldi kvenna líka. Malcolm Gladwell fjallar um fordóma í bók sinni Blink. Ég bloggaði um hana og hafði eftir honum:

Hann tekur dæmi af því hvernig skipan sinfóníuhljómsveita breyttist þegar áheyrnarprufur fóru að fara fram bak við skerm. Hann vitnar í orð fyrrverandi stjórnarformans Vínarfílharmoníunnar, Otto Strassers, þar sem hann minnist fyrstu upplifunarinnar af skerminum sem “grotesque situation”. Þegar sigurvergari prufuspilsins hafði verið valinn kom í ljós að hann var japanskur.

Það sem gerðist líka með breyttu fyrirkomulagi prufuspila var að konur voru ráðnar til sinfóníuhljómsveita. Og þá jafnvel sem horn og básúnuleikarar! Á síðustu þrjátíu árum hefur fjöldi kvenna við topphljómsveitirnar í Bandaríkjunum fimmfaldast.
Í fyrsta skiptið sem prufuspil fór fram bak við skerm í Metropolitan óperuhúsinu í New York var spilað um fjórar fiðluleikarastöður. Allir sigurvegararnir voru konur.

Hugmyndin um að frjálsir einstaklingar keppi á vinnumarkaði þar sem ekkert skiptir máli nema hæfni er kannski aðlaðandi í hugum einhverra. Hún á sér bara ekki stoð í mannlegum veruleika. Þangað til að frjálshyggjufólkið gerir sér grein fyrir fordómum sínum mun ég hafa fordóma fyrir frjálshyggjufólki.

Ummæli

Vinsælar færslur