Blink- Malcolm Gladwell

The power of thinking without thinking.

Malcolm Gladwell fjallar um í bókinni það sem oft er litið fram hjá í mannlegu atferli; undirmeðvitundina. Freud og félagar komu óorði á þetta hugtak og núna þykir ekki flott að tala um undirmeðvitnundina. Fólk er skynsamt og veltir rækilega vöngum yfir valkostum sínum, tekur saman fórnarkostnað og reiknar út hvað kemur því best í hvaða aðstæðum fyrir sig. Fordómar eru dómar sem heimskt og illa upplýst dæmir- við hin dæmum fólk af verðleikum þess.

Gladwell byggir rökstuðning sinn á annarra rannsóknum og reynslu. Hans framlag er samhengið sem hinar ólíku aðstæður benda til, þ.e.a.s. að fólk metur aðstæður og tekur ákvarðanir á nokkrum sekúndum. Á einu augnabliki er fólk fært um að taka saman upplýsingar um aðestæðurnar og draga af þeim ályktanir. Það sem meira er, og er aðal punkturinn, að fólk gerir þetta hvort sem því líkar betur eða verr. Flestir gera sér ekki grein fyrir því hversu ómeðvitaðir þeir eru um skilning sinn og ákvarðanir. Þeir eru sem sagt ómeðvitaðir um eigin fordóma.

Gladwell veltir upp bæði kostum og göllum þessara eiginleika. Markverðust þykir mér þó umfjöllun hans um fordóma. Þessi hugmynd er ekki ný en hefur bara ekki verið á yfirborðinu á skynsemistímanum (sem trúlega er að syngja sitt síðasta núna með hagfræðinni). Fordómar eru ekki bara dómar sem við höfum tekið fyrirfram, þeir eru líka teknir án nokkurrar samræðu við skynsemina. Ég er ekki rasisti og jafnvel legg mig fram í öllum samskiptum mínum til að koma í veg fyrir að ég geri nokkuð sem gæti bendlað mig við rasisma, en þegar ég hef ekki tíma eða rúm til að skoða hegðun mína þá er ég fljótari að tengja hvítt fólk við góða hluti og svart við slæma. Og þetta geri ég þó ég viti betur.

Hávaxnir karlar eru betri stjórnendur en lágvaxnir. Það hlýtur að vera því þeir sem ráða í toppstöðurnar eru auðvitað skynsamlega að ráða besta fólkið. Og það vill svo til að það fólk sem ráðið er í toppstöðurnar er hávaxið og karlkyns. Ef hitt fólkið er ekki vanhæfara þá langar það a.m.k ekki eins mikið að stjórna fyrirtækjum. Lágvaxnir karlar eru auðvitað ekki eins metnaðargjarnir. Og konur, hvar á ég að byrja, vilja bara hlutastörf svo þær geti hangið á kaffihúsum og slúðrað.

Hann tekur dæmi af því hvernig skipan sinfoníuhljómsveita breyttist þegar áheyrnarprufur fóru að fara fram bak við skerm. Hann vitnar í orð fyrrverandi stjórnarformans Vínarfílharmoníunnar, Otto Strassers, þar sem hann minnist fyrstu upplifunarinnar af skerminum sem “grotesque situation”. Þegar sigurvergari prufuspilsins hafði verið valinn kom í ljós að hann var japanskur.

Það sem gerðist líka með breyttu fyrirkomulagi prufuspila var að konur voru ráðnar til sinfoníuhljómsveita. Og þá jafnvel sem horn og básúnuleikarar! Á síðustu þrjátíu árum hefur fjöldi kvenna við topphljómsveitirnar í Bandaríkjunum fimmfaldast.
Í fyrsta skiptið sem prufuspil fór fram bak við skerm í Metropolitan óperuhúsinu í New York var spilað um fjórar fiðluleikarastöður. Allir sigurvegararnir voru konur.

Það er kannski ástæða til að ráðnigarviðtöl fyrir stjórnunarstöður fari fram bak við skerm í gegn um hljóðgervil?

Ummæli

Vinsælar færslur