Rökvillur

Hverjum réttsýnum manni hlýtur að ofbjóða það ok ríkisvaldsins að sitja eitt að sölu áfengis (1). Það ætti hvert mannsbarn að ráða því sjálft hvort það vill nota vímuefni hvaða nafni sem þau nefnast og ríkisvaldið ætti ekki að reyna að stýra neyslunni með skattlagningu eða álagningum af neinu tagi. Nú er svo komið að stjórnvöld hafa þann háttinn á að reykingafólk heldur uppi þjónustu við víngæðinga (2). Stjórnvöld borga því fyrir fínni vímuefni með stuldi af þeim sem hafa unun af ófínni vímuefnum (3). Tóbak er svo ófínt að reglur hafa verið settar sem banna að tóbak sé sýnilegt á sölustöðum (4).

Rannsóknir hafa ekki sýnt fram á að það hafi góð áhrif á heilsu reykingamanna að tóbak sé ekki sýnilegt á sölustöðum (4). Bannið er því bara til þess að þjóna stjórnlyndi vinstrimanna sem vilja banna allt sem þeim er ekki þóknanlegt (5). Nú hafa þeir sett skatt á sykur og því mun ekki líða á löngu þangað til að þeim finnst að sykur ætti að vera falinn í búðum líka. Svo má ekkert sjást sem er með fitu í og brátt verður bara skammtað alveg hvað má borða (6). Það vinstrisinnaða vald sem nú fer með ríkisvaldið veigrar sér ekki við því að skerða frelsi einstaklinga með því að segja þeim hvað þeim er leyfilegt að gera og með hamslausri skattheimtu. Í næstu kosningum hafa kjósendur val um tvennt; að kjósa áframhaldandi skattpíningu vinstristjórnar eða að leyfa frelsinu að njóta sín (7).


1. Fordómafull orðanotkun, ekki er hægt að vera ósammála setningunni án þess að gangast þá við því að vera rangsýnn.
2. Morgunblaðið “Minni hagnaður Vínbúðanna þrátt fyrir aukna áfengissölu” 11. mars 2010 bls. 8-9.
3. Stundum er eignarrétturinn varinn með því að vísa til skattheimtu sem þjófnaðar. Ríkið brýtur á eignarrétti borgaranna með skattheimtu. Þetta er of víð skilgreining á stuldi.
4. Fáfræðirökleiðslan, rannsóknir hafa ekki sýnt fram á það og því er það ekki satt. Morgunblaðið “Höfðar mál gegn Noregi” 10. mars 2010 bls. 14.
5. Vinstri mennirnir eru hér strámenn.
6. Háll halli. Hér er hæpið að eitt leiði af öðru.
7. Valtvennuvillan, kjósendur hafa fleiri kosti.
Sá/sú sem hér mælir er líka í einhverjum skilningi strámaður þeirrar sem þetta skrifar því hér hafa markvisst verið dregnar fram rökvillur í rökfærslu mælandans.

Ummæli

Vinsælar færslur