Þegar ég var í tónlistarskólanum

fór ég á eins marga tónleika og ég komst á og "lenti" meðal annars á tónleikum Kolbeins Bjarnasonar flautuleikara í Salnum þar sem hann spilaði verk sem heitir Unity Capsule eftir mann að nafni Ferneyhough . Verkið var sagt vera ógnarerfitt í flutningi og því til sönnunar varpaði Kolbeinn nótunum af verkinu upp á vegg á meðan á flutningnum stóð. Vissulega furðulegur gjörningur en nauðsynlegur til að koma í veg fyrir þá upplifun að Kolbeinn hefði skyndlega gleymt því hvernig á að spila á flautu og um leið hvernig tónlist hljómar. Það var verulega óþægilegt að sitja þarna í rauðu sætunum í Salnum og finna svo vel fyrir því að þarna var ég búin að láta plata mig í að sitja stillt og prúð og hlusta á óhljóð í nafni listarinnar. Og ekki gat ég hlegið og híjað þegar tónleikunum lauk því þá hefði ég verið að sýna að ég hefði alls engan skilning á tónlistinni og hæfileikum listamannsins til að miðla henni.

Það sem ég gerði aftur á móti var að panta nóturnar af verkinu. Þegar ég fékk þær í hendur keypti ég eins marga ramma og blaðsíðurnar tuttugu talsins voru og rammaði hverja inn. Á tuttugu nagla fóru svo rammarnir með listinni sem ég hafði þjáðst svona við að hlusta á. Þetta gerði ég til að minna mig á takmarkanir mínar. Ég skildi ekki snillinginn sem var kominn á svo miklu hærra plan í listinni en ég, að ég heyrði bara blásturs og hrákahljóð. Þetta gerði ég til þess að minna mig á að ég þarf að setja mér sjálfri mörk en ekki láta ginna mig út í hvað sem er; að vera sjálfstæð.

Nú langar mig að setja aðra mynd upp á vegg. Og hana er að finna í níunda bindi Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar er að finna órtúlega heillandi vefi af tengslum. Eignatengslum og skuldatengslum. Mynd 6 á blaðsíðu 23 væri ótrúlega flott prentuð á risastóran striga. Hún er örlítið eins og Ísland í laginu og sýnir svo vel hversu fáir Íslendingar eru og hversu kjánalegt er að kalla þá sjálfstæða. Þarna sprikla þeir allir saman og skorpna svo eins og litlar flugur í vefinum sem þeir höfðu sjálfir spunnið. Mér þætti gott að fá þessa mynd á vegginn til að minna mig á að láta engan segja mér að það sé ekkert til sem heiti samfélag. Minna mig á að það mun alltaf koma mér við hvað fer fram í hinum ýmsu stofnunum landsins. Minna mig á að sá sannleikur: "einkarekstur er alltaf af hinu góða", er sannleikur af sama meiði að: "Guð er til". Hvorugur hefur verið studdur með viðeigandi sönnunum svo ekki leiki mikill vafi á, en báðum er trúað afar heitt.

Ummæli

Vinsælar færslur