Karlmannleg ásjóna

Ég er viss um að margar eru jafn fegnar og ég að átakið "Karlar og krabbamein" er á enda. Þá verður vonandi hægt að horfa framan í karla aftur. Skeggjaðir karlar geta magrir litið ágætlega út. Sérstaklega ef skeggið fær ekki að vaxa meira en þrjá til fimm daga í einu. En yfirvaraskegg er alltaf forljótt, jafnvel þó því sé gefið nafnið motta. Ég ætla rétt að vona að allir þeir sem hafa mengað útsýni samferðamanna sinna með öflugri þátttöku í keppninni um "flottustu" mottuna, hafi líka lært að skoða á sér punginn og geri það reglulega. Það veitir kvöl okkar kvennanna a.m.k. einhvern tilgang.

Við kokkuðum upp þá samsæriskenningu í skólanum að þetta væri dulbúinn niðurskurður hjá heilbrigðisráuneytinu. Ekki bara skilar átakið vonandi einhverjum forvörnum heldur verður hægt að loka, eða að minnsta kosti fækka starfsfólki mikið á fæðingardeildinni í desember. Fólk í barneignarhugleiðingum hefur löngum sneytt hjá marsmánuði vegna þess að desember þykir óheppilegur til barneigna, en nú hefur verið komið í veg fyrir "slysabörnin" líka.

Reki ég augun í mottuvaxið andlit, fer ósjálfrátt um mig ógeðishrollur. Í ræktinni var ég samferða strák á dínurnar sem ég hryllti mig yfir, en þegar betur var að gáð var þetta myndardrengur en hann hafði þessa hlussu ógeðis mottu framan í sér. Í skólanum var ungur maður með gestafyrirlestur um Afríku. Hann hafði brosandi talmáta sem mér finnst yfirleitt frekar aðlaðandi en mottan gerði hann ferlega perralegan og það truflaði einbeitinguna töluvert.

Fyrst ég hef hellt mér út í játningar þá verð ég að viðurkenna að ég er óþægilega veik fyrir körlum í jakkafötum. Jábbs, og helst sko í skyrtu og með bindi og allt. Ég get bara ekkert að þessu gert. Mér er meinilla við banka og ég geri mér fulla grein fyrir því að þeir sem klæðast helst jakkafötum eru bankamenn og fermingarveislugestir. Mér finnast karlar meira sexí í jakkafötum en í hlýrabol með útblásna vöðvana! Ég er bara eitthvað biluð. Eða eru fleiri eins og ég?

Ummæli

Fjóla Dögg sagði…
Ég elska jakkafatafetishið þitt :-)

Vinsælar færslur