Takk Lára!

Ég veit ekki alveg hvað mér á að finnast um það að mér finnst jákvæðni og hrós vera í frásögur færandi. En það er nú svo. Það felst næstum því í skilgreiningunni á kommentum um blogg að þau þurfi að lykta af háði. Mjöf vinsælt er að benda bloggurum á að þeir hafi rangt fyrir sér og svo er það líka mjög algengt að þeir sem kommenta taki upp á því að fara í rífast í kommentakerfinu með dónaskap og úthrópunum. Til að mynda ætti fólk ekki að lesa komment við blogg á Eyjunni nema það sé haldið mikilli sjálfspíningarhvöt. Lesi maður kommentin þar fer maður að efast um skólakerfið á Íslandi og ég velti því oft fyrir mér hvort þetta fólk sé í rauninni til. Ég hef einhvern grunaðan um að setja upp þetta sjónarspil sér til skemmtunar og til að hrella lesendurna. Svo mikil er lágkúran.

Þess vegna eru viðbrögðin við pistlum Láru Bjargar á Miðjunni merkileg. Pistlarnir eru jú ágætir en ég er nokkuð viss um að vogaði sér einhver á Eyjunni að grínast með það að þjóðnýta ætti útrásarvíkinga myndi einhver lesandi ekki geta stillt sig um að ausa úr sínum vandlætingarbrunni yfir því að þá væri verið að skerða frelsi þeirra, jafnvel brjóta mannrétttindi. En í stað þess að brosa út í annað eins og ég geri og halda áfram að vafra um netið tjá lesendur sig með þessum orðum:

"Takk Lára – þú ert snillingur!"

"Lára mín, þú ert snillingur og þetta er afburðagóð hugmynd, þjóðnýtum útrásarvíkingana!"

"Takk Lára."

"Þú ert frábær Lára."

Reyndar benda orðin "Lára mín" til þess að viðkomandi þekki Láru persónulega og því kannski meiri vinskapur í gangi en bara vinaleg orð. En ef allir sem skrifa þessi komment eru vinir Láru þá á hún að minsta kosti góða vini. Eða kannski eru lesendur Miðjunnar bara vandaðri en lesendur Eyjunnar?

Ummæli

Vinsælar færslur