John Perkins

Ég fór að hlusta á John Perkins áðan og varð fyrir nokkurm vonbrigðum. Hann bætti ekkert miklu við það sem hann sagði í Silfrinu í gær. Það sem stendur upp úr er að það var mikill hiti á áheyrendum. Kannski bara vegna þess að þarna var maður að tala fyrir því að íslendingar ættu ekki að borga skuldirnar sem ríkið hefur tekið á sig eftir bankaævintýri síðustu ára. Það hljómar auðvitað voða vel að neita bara að borga og halda áfram eins og ekkert sé. Ég reyndar efast um að þetta sé svona einfalt, en hvað um það. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur ekki glæsilega ferilskrá en í efnahagsáætlun stjórnvalda sem var unnin í samvinnu við AGS segir svo sem ekkert hvernig á að ná nægilegum niðurskurði. Enda liggja óþægilegar upplýsingar yfirleitt ekki á lausu. Vinur minn sem ég hitti á leiðinni út sagði ýmislegt vera undanskilið í umfjöllun um AGS. Til dæmis hefði nokkuð sem venjulega er notað sem mælistika á velferð eins og læsi hafa aukist stórlega í Indónesíu eftir aðkomu AGS þar. Hugsanlega er ég of jákvæð og of skeptísk og sannarelga er ég ekki á því að nú þurfi að beita ofbeldi eins og einn samferðarmaður minn virtist aðhyllast á fundinum. Ég hef því miður engan tíma til að leita að frekari upplýsingum um Indónesíu og læsi þar.
Eitt sem ég hjó eftir var aða hann klifaði á því að konur hefðu einhverja einstaka hæfileika til að takast á við gjaldþrota þjóðarbú og AGS. Ég að ajálfsögðu fagna því að konur stjórni en mig hryllir við því að það sá á þeim forsendum að þær séu í eðli sínu svo stórkostlega frábrugðnar körlum að þær muni bjarga öllu með eðlinu. Það er ýmist í ökkla eða eyra. Konur eru eins misjafnar og þær eru margar. Þær eru eflaust margar miklu betri stjórnendur en karlar en það er ekki af því þær hafa innbyggt eitthvert eðli. Þær eru kannski að meðaltali eitthvað frábrugðnar körlum að meðaltali og hafa hugsanlega aðra reynslu og sýn á lífið og ef það er það sem þarf þá er allt gott um það að segja. Kannski er ekkert dýpra á þessu, en ef þetta verður til þess að konur fá að spreyta sig þá er kannski nauðsynlegt að hefja eðlið svona á stall. En vont er það.

Ummæli

Vinsælar færslur