Prófstress

Oft hef ég verið spurð að því hvort ég sé dugleg að æfa mig og halda mér í formi . Ég hef því miður alltaf þurft að viðurkenna að ég æfi mig yfirleitt bara þegar ég "þarf" þ.e.a.s þegar eitthvað stendur til. Í dag kom í ljós að ég er kannski að gera of lítið úr ástundun minni því í póstkassanum mínum (og allra hérna í húsinu) var blaðsnepill undirritaður af systrum sem búa fyrir ofan mig. Þar tilkynna þær allt að því hátíðlega að hjá þeim sé hafinn próflestur og biðja þann aðila sem er að spila á flautu og píanó að taka sér smá frí til og með 19. desember. Þær segjast hafa orðið varar við spileríið oft áður þegar þær hafa verið að reyna að læra fyrir próf. Þá segja þær spilið mjög truflandi og þær jafnvel heyra það með eyrnatappa.

Þá liggur það fyrir. Ég er reyndar nokkuð viss um að síðast spilaði ég á flautu hérna heima þann 10. nóvember. Reyndar spilaði ég líka 9. nóvember svo það hefur verið heilmikið álag á þær systur. Vona bara það hafi ekki verið próf. Þær ljúka bréfinu með því að segja lesandanum frá því að þær séu haldnar miklu stressi og það sé bara ekki á það bætandi með þessum látum.

Ég verð samt að taka það fram að sonur minn hefur svolítið verið að þróa sköpunargáfuna við píanóið undanfarið (kannski síðustu 3 daga). Hann er eins og önnur nútímatónskáld ekki mikið fyrir dúr og moll kerfið en hefur afskaplega skemmtilegt formskyn. Hann er mikið fyrir minimalisma enda er hann svo mikið inn þessi misserin. Ætli við blásum ekki bara til tónleika þann 20. desember.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
hvaða hvaða, þær hafa greinilega ekki heyrt um hvað svona tónlist eflir hugann einmitt við lestur og lærdóm
Nafnlaus sagði…
Ég á svolítið erfitt með að skilja af hverju sumt fólk kaupir sér íbúð í fjölbýlishúsi?? Erum í svipaðri aðstöðu og þið, nema hvað að hér eru engin "vinsamleg" bréfaskrif heldur gamla góða kústskaftið! Þú fagnar bara með þeim þann 19. og spilar fallegan lagstúf í tilefni prófaloka ;)
Nafnlaus sagði…
Ég er reyndar búin að lofa að hafa jólaball hér á laugardagsmorgun. Plönin gerðu ekki alveg ráð fyrir próflestri þeirra systra. Veit ekki hvort ég þarf að skrifa þeim bréf?

Kerla
Nafnlaus sagði…
Þú brosir bara þínu breiðasta og býður þeim inn í dans, þegar þær koma niður alveg tjúllaðar ;)
Nafnlaus sagði…
úff, fer þetta ekki alveg með taugakerfið hjá þeim systrum....... kannski ættum við allar að skrifa þeim bréf.......:-)
eða bara allar að mæta með flauturnar og virkilega láta þær finna fyrir því - tí tí hí :-)
Kv. Linda
Fjóla Dögg sagði…
Já Linda, ég kem með mína! En þær eru heppnar að hafa ekki mína nágranna núna. Full íbúð hérna beint fyrir ofan mig af hopp- og söngglöðu fólki og allir inni á skónum... en svona er að búa í blokk... maður verður var við nágrannana.
Nafnlaus sagði…
HA HA HA algjör snilld. Kunna ekki gott að meta nokkuð ljóst! :)
Svo er allta hægt að senda þeim línu og benda á næsta bókasafn... Marín
Nafnlaus sagði…
Jæja skvís... á ekki að fara að blogga meir?!?

Vinsælar færslur